VESALINGAR ÞÁ OG NÚ

Vesalingarnir - Hugo

Áhugavert er að fylgjast með framvindu Landsdómsmáls.  Og þá ekki síst fréttaflutningi og vangaveltum í fjölmiðlum.  Spurt er hvort, ákærður, Geir H. Haarde, hefði ekki getað gripið til ráðstafana til að minnka bankana eða koma þeim úr landi.
Þetta þykir nú sjálfsögð spurning. Eða öllu heldur ákæra, ákæra í sakamáli.
Hróðugir henda fjölmiðlungar sumir gaman að því að á fjölum Þjóðleikshússins sé nú verið að sýna Vesalingana, Les Miserables, eftir Hugo. Það sé vel við hæfi því í næsta húsi sé Landsdómur að störfum.
En er það ekki rétt munað að það hafi verið stefna samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og áður samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að gera Ísland að fjármálamiðstöð á heimsvísu - Reykjavík Trade Center?
Með öðrum orðum, þetta var ekki eitthvað sem menn voru að reyna að forðast, heldur var þetta keppikefli og markmið: Yfirveguð stjórnarstefna, ekki bara þá átta mánuði sem Landsdómi er gert að rannsaka, heldur um langt árabil og sem margir tóku þátt í að móta. Lögum var breytt og nefnd sett til vinnu svo ná mætti þessu markmiði, að stækka banka og soga hingað sem flestar fjármálastofnanir.
Mér er það minnisstætt þegar þessi bankastækkunarnefnd gerði grein fyrir vinnu sinni í hátíðasal Þjóðleikhússins. Formaður nefndarinnar var Sigurður Einarsson, bankastjóri hjá Kaupþingi. Ekki man ég betur en að almennt hafi verið gerður góður rómur að máli Sigurðar og félaga. Líka í fjölmiðlum. Og ekki síst þar. Engin aulafyndni um vesalinga þá.

Fréttabréf