Fara í efni

EKKI VIÐ UTANRÍKISRÁÐHERRA AÐ SAKAST!

OSS - SKARP esb
OSS - SKARP esb

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þröngvað sér inn í málssóknina gegn Íslandi vegna Icesave. Frumkvæði að þessari málssókn áttu fulltrúar Noregs og Lichtenstein hjá ESA stofnuninni sem á að fylgjast með því að markaðssamningi Hins evrópska efnahagssvæðis sé fylgt. Það er kapítuli út af fyrir sig að fulltrúar Noregs og Lichtenstein hafi meiri áhyggjur af varnarviðbrögðum íslenskra skattgreiðenda vegna Icesave, en framferði Breta sem beittu okkur hryðjuverkalögum til að fá sínu framgengt!
Nú hefur framkvæmdastjórn ESB lagst á sveifina með Bretum og Hollendingum. Það kemur til að reyna á Efta dómstólinn eftir að Evrópusambandið hefur lýst því yfir hver niðurstaða þóknist því best í dómsmálinu gegn Íslandi!

Margir efuðust um að Evrópuríkin vildu yfirleitt dóm, því ætla megi að ekki vilji þau fá fordæmi sem gæti valdið því að þeirra eigin skattborgarar verði gerðir ábyrgir fyrir afglöpum fjármálafyrirtækja umfram það að koma upp tryggingakerfi eins og við gerðum. En nú er búið að breyta reglunum og ef til vill þykir Bretum og Hollendingum óhætt að fá dóma á grundvelli eldri reglugerða því þær hafi þá ekki sama fordæmisgildi og ella.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem sæti á í  utanríkismálanefnd Alþingis, lýsti því yfir eftir fund í nefndinni um þetta mál að halda beri aðgreindu dómsmálinu annars vegar og viðbrögðum okkar hins vegar: „...en ég get sagt almennt um málið að ég dreg engan veginn í efa lagalega heimild ESB til að krefjast meðalgöngu og það er að mínu mati mikilvægt að við aðgreinum hið lagalega og hið pólitíska í þessari aðgerð..."
Og hún bætir við: „Hvorki þing né þjóð geta látið eins og ekkert sé...Það er fullt tilefni til að bæði þingið endurskoði afstöðu sína og að þjóðin fái að skera úr um það hið allra fyrsta hvort henni yfirhöfuð geðjast að því að vera á leið inn í Evrópusambandið á þeim forsendum sem þegar blasa við.“
Sjá nánar http://mbl.is/frettir/innlent/2012/04/13/segir_skilabod_esb_vera_kyrskyr/
Þegar ég tek undir með þeim sjónarmiðum sem þarna koma fram er ég í reynd að lýsa því yfir að viðbrögð utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem eru í samræmi við þetta séu rétt. Sumir vilja gera mikið úr því að tafist hafi að taka umræðu um málið í utanríkisnefnd Alþingis og sé um að kenna meintum vafasömum ásetningi utanríkisráðherra. Þetta er fráleit afvegaleiðing frá meginmálinu. Hafi orðið óeðlileg töf - sem ég hef sannfærst um að er ekki af völdum utanríkisráðherrans - þá kom hún ekki að sök að mínum dómi. Niðurstaðan hefði orðið sú sama. Hvað hinn lagatæknilega þátt varðar er brugðist við samkvæmt ráðleggingum verjenda Íslands og samdóma mati þess breiða teymis sem þeir styðjast við.

Eftir stendur hitt, hvernig Íslendingar ætli að bregðast við þeirri pólitísku ákvörðun Evrópusabandsins að blanda sér í málaferlin. Í mínum huga er verkefnið augljóst: Við eigum að setja niður tímamörk og ákveða hvenær þjóðin fái milliliðalausa aðkomu að málinu.
Ég hef lengi talað því að þjóðin eigi að dæma sjálf um þær efnislegu niðurstöður sem liggja fyrir þegar kemur að þeim tímamörkum um viðræðulok sem íslensk stjórnvöld ákvarða. Þetta er vissulega tilefni til að við endurskoðum okkar hug til viðræðuferlisins.