ESB, LANDSDÓMUR, LÍFEYRISMÁL OG EIGNARRÉTTUR

VB OJ viðtal

Úr viðtali við Viðskiptablaðið 12.04.12.
"Við féllumst á það að senda inn aðildarumsókn að ESB, í júní 2009, og ætluðum okkur að fá efnislega niðurstöðu út úr þeim viðræðum," segir Ögmundur en bætir því við að hann vilji flýta viðræðunum og fá efnislegar niðurstöður sem fyrst. Þannig sé rétt að setja samninganefndunum tímamörk og afgreiða málið með kosningu. 
"Þetta hefur rifið okkur á hol og kostað gífurlega fjármuni, en ofan á allt hefur þetta skapað mikla sundrung í okkar samfélagi. Við eigum ekki að hafa þetta yfir okkur of lengi," segir Ögmundur. 
"Þar fyrir utan tel ég mjög mikilvægt fyrir okkur gagnvart ESB að leiða málið til lykta sem fyrst. Samkvæmt könnunum er meirihluti landsmanna andvígur aðild og þeim virðist fjölga í stofnanaveldi samfélagsins sem eru á móti aðild, nú síðast Samtök iðnaðarins. Þá eigum við að draga lærdóm af því sem henti Norðmenn á 10. áratugnum. Eftir að hafa setið við samningaborðið í hálft annað ár og eftir að öll aðildarríki ESB höfðu samþykkt umsókn Noregs gengu þeir til kosninga haustið 1994. Ríkisstjórn Noregs hafði sagt já en þjóðin sagði nei. ESB ríkjum fannst þau hafa verið dregin á asnaeyrum og létu Norðmenn gjalda fyrir í öðrum samningum við ESB á næstu árum. Við eigum að forðast þessi mistök og þess vegna á þjóðin að kjósa áður en samningur verður endanlega frágenginn. Það eru efnisatriðin sem máli skipta og við eigum að gera kröfu um að þau liggi fljótlega fyrir."..."LÍÚ heldur því nú fram að frumvarp að fiskveiðistjórnun stríði mögulega gegn stjórnarskránni og gangi á eignarréttinn. Það er mjög skrýtið því sömu aðilar hafa sjálfir hamrað á því að þjóðin eigi sjávarauðlindina," segir Ögmundur.
"Mér finnst stjórnarskrárdrögin sem nú liggja fyrir frá stjórnlagaráði ekki nógu róttæk hvað þetta varðar. Það er ennþá hamrað á því að eignarrétturinn sé heilagur, nokkuð sem á að mínu mati ekki heima inni í 21. öldinni. Sú öld er öld almannaréttar. Það er hann  sem er grundvallarréttur og hann á stjórnarskrá að verja."
Ögmundur segir að vissulega eigi menn rétt á heimili og til bújarðarinnar sem þeir nýta, en hann setji þó alvarlega fyrirvara við að gera einkaeignarréttinn algildan sem grundvallarmannréttindi.
"Mér finnst þó margt mjög  gott  í nýjum drögum að stjórnarskrá og vil að þau  gangi til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. En krafan um almannarétt á að vera ríkjandi."

Í viðtalinu er ennfremur rætt um Landsdómsmálið,framtíðarskipan lífeyrissjóðanna og fleira.

Sjá nánar: http://www.vb.is/frettir/71432/  og  http://www.vb.is/frettir/71458/

Fréttabréf