Fara í efni

ÞAR VAKNA DÝPSTU SPURNINGARNAR

sera GK
sera GK
„Krosssinn kallar á hugleiðingar um það sem þyngst hvílir á manninum alla tíð, þjáningu hins réttláta, sársrauka heimsins. Þar vakna dýpstu spurningarnar." Þetta segir í upphafsorðum predikunar séra Gunnars Kristjánssonar, prófasts í Kjalarnessprófastsdæmi, sem útvarpað var frá Brautarholtskirkju í gær, föstudaginn langa.
Séra Gunnar hafði þá með tilvísan í Lúkasarguðspjall dregið upp svipmynd frá Jerúsalem fyrir nær tvö þúsund árum, í aðdragandanum að krossfestingu Krists, tekið okkur til Golgata „þegar jörðin skelfur og myrkrið leggst yfir."

Þessi predikun held ég að hljóti að verða þeim sem á hlýddu eftirminnileg. Hún er vekjandi ákall til samtímans en í senn er hún trúarleg og heimspekileg greining þar sem predikarinn sækir liðstyrk til andans fólks, lífs og liðins, ljóðskálda og rithöfunda.

Tekist er á við grunvallarspurningar í mannlegri vitund, hvernig það sem virðist vera mótsögn kunni þrátt fyrir allt að mynda eina heild, sem við fáum skilið eða skynjað í hinum trúarlegu og ljóðrænu víddum tilverunnar. Sársauki og þjáning eru þannig sammannlegar tilfinningar sem opna dyr í leit mannsins, leit allra manna - án undantekninga -  að hinu varanlega í hverfulum heimi;  geri landamæri í tíma og rúmi að engu, alla menn að bræðrum og systrum.

Séra Gunnar staðnæmist við þá sem samsama sig þjáningu annarra. Eins og Kristur gerði. Og fleiri: „ Hversu margir hafa ekki tekið á sig þjáningar vegna hugsjónar, sannfæringar, afstöðu? Hversu oft hefur hinn saklausi spámaður ekki verið grýttur og krossfestur, niðurlægður og limlrestur, eða hrakinn út fyrir borgarmúrana - ekki vegna þess að hann hafi ekki aðra kosti um að velja heldur vegn hugsjóna sinna, vegna sannfæringar sinnar, vegna trúar sinnar? ... En eru það ekki þannig hugsjónamenn sem ortu þau ljóð sem allir vildu kveðið hafa? Þeir sem börðust fyrir réttindum og virðingu mannsins á öllum tímum, sem slógu skjaldborg um þá sem minni máttar voru? Þeir sem höfðu ekki aðeins skoðun heldur einnig sannfæringu. Þeir sem horfðu ekki aðeins á sársauka annarra heldur gerðu hann að sínum eigin sársauka..."

Ég hvet alla  til að lesa predikun séra Gunnars Kristjánssonar, sem ég birti hér að neðan, og gildir þá einu hvort lesandinn er kristinnar trúar, annarrar trúar eða trúlaus, enda kjarninn í boðskap predikunarinnar að sýna fram á að hann - kjarninn - snýst „hvorki um stofnun né bókstaf."

Margt er þarna vel sagt og á erindi til okkar samtíma, hvort sem það er um frelsið og hvað geri manninn frjálsan, virðingu manneskjunnar, og þá lærdóma sem draga þarf af reynslu mannins því „...sá sem horfist ekki í augu við fortíðina neyðist til að endurtaka hana".

 

Útvarpsprédikun í Brautarholtskirkju á föstudaginn langa 6. apríl 2012

Frásagnameistarinn Lúkas fetar aldagamla slóð forfeðranna og lætur atburðina tala. Lesendur allra tíma gefa þeim nýtt inntak, einnig hér og nú.

Lúkas dregur upp svipmyndir frá páskahátíðinni í Jerúsalem, hann nemur staðar við musterið mikla, við landshöfðingjahöllina, hann fylgir okkur um lágar hæðir og dalverpi. Við tökum þátt í stemmningu með mannfjöldanum. Athyglin beinist að persónum og atburðum, við sitjum til borðs í loftsalnum með lærisveinunum og Jesú þar sem þeir neyta páskamáltíðarinnar og fylgjum sporum hans til Getsemane, horfum á lærisveinana álengdar, skynjum angist Jesú þar sem sviti hans verður sem blóðdropar meðan lærisveinarnir sofa og Júdas nálgast í rökkrinu. Spámaðurinn frá Galíleu stendur frammi fyrir Heródesi og Pílatusi og svo fellur hinn endanlegi dómur múgsins sem hafði fagnað honum skömmu áður sem súperstar, nú er hann einn og yfirgefinn, ofurseldur valdi heimsins og grimmum dauða. Gegnum þokuna og myrkrið grillir í dálitla hæð. Lesandinn er kominn til Golgata þegar jörðin skelfur og myrkrið leggst yfir.

Þótt guðspjallamennirnir séu ekki uppteknir af túlkunum á atburðum dagsins býr túlkunarlykillinn í huga þeirra, ljóðið um hinn líðandi þjón í bók Jesaja spámanns sem lesið var frá altarinu. Þar hugleiðir spámaðurinn, rúmum fimm öldum áður, þjáningar hins réttláta. En hann skilur eftir eyðu í ljóðinu sem er spurningin: hvers vegna þarf einmitt hinn saklausi að líða? Og samt er hann ekki aðeins réttlátur heldur að öllu leyti til fyrirmyndar, hann er ímynd mannúðar og mennsku í sinni ítrustu mynd. Við fylgjum Lúkasi þessa löngu dagleið inn í nótt þjáningarinnar.

Hér blasir niðurlæging mannsins við, afneitun mennskunnar, hér er hinn saklausi troðinn niður í svaðið, hér er sjálf táknmynd þjáningarinnar. Hvers vegna horfum við þangað sem maður sligast undir krossi? Hvers vegna grípur þetta dreyra drifna höfuð athygli okkar?

Krossinn kallar á hugleiðingar um það sem þyngst hvílir á manninum alla tíð, þjáningu hins réttláta, sársauka heimsins. Þar vakna dýpstu spurningarnar.

Golgata er sjaldnast langt undan. Í ljóðinu Kross í ljóðabók Ingibjargar Haraldsdóttur, Höfuð konunnar (1995), er Golgata skyndilega og óvænt komin í íslensku landslagi:

Ég hef verið hér áður

Landslagið auðþekkt:
úfin ströndin
egghvasst grjótið
aldan sem lemur...

Gegnum þokuna
grillir í dálitla hæð

Hugann grunar mannsöfnuð

Og einn að sligast
undir krossi

Svipaðar hugrenningar vöknuðu þegar við ókum út úr borginni Weimar í Þýskalandi þar sem ferðamanninum er áreiðanlega annað í huga en þjáningar fólks. Þetta er borg Göthes og Schillers, helgistaður mið-evrópskrar hámenningar síðari alda. Í hæðunum skammt utan við er annarri sögu haldið til haga. Hér eru Buchenwald-fangabúðirnar sem nasistar reistu í gróskumiklum skógi, á dálítilli hæð með útsýni yfir fagurt land og frjósamt þar sem bændur unnu vorverkin af kappi.

Sagan er skelfingin ein, angistin liggur í loftinu, hér er Golgata samtímans. Gesturinn gengur um svæðið og húsakynnin, sem nú eru safn, opið almenningi. Þar blasir aftökuklefinn við, síðan herbergi með kjötkrókum ætluðum líkum hinna saklausu. Ekkert er hulið, allt skal sýnt, einnig brennsluofnarnir. Flestum er ljóst að sá sem horfist ekki í augu við fortíðina neyðist til að endurtaka hana.

Þessa dagana gaf að líta sýningu þýsk-bandarísku listakonunnar Rosemarie I. Kočzÿ í fangabúðunum. Hún var Gyðingur að ætt og uppruna, þá nýlega látin. Hún átti sér þá óvenjulegu sögu að hafa verið tekin frá foreldrum sínum þriggja ára og send til Buchenwald árið 1942, þar sem hún dvaldist um hríð og síðan í öðrum sambærilegum búðum. Í þessu umhverfi býr hún til fermingaraldurs. Okkur skortir hugmyndaflug til að gera okkur í hugarlund bernsku lítillar stúlku í útrýmingarbúðum.

Miklu síðar á ævinni fóru atburðir bernskunnar að sækja á Rosemarie I. Kočzÿ í hugsunum, draumum og martröðum. Myndir sem höfðu tekið sér bólfestu í barnshuganum um niðurlægingu mannslíkamans, þar sem fjöldagrafir voru endastöðin. En listrænir hæfileikar gerðu henni kleift að finna reynslunni farveg í listsköpun.

Hún gaf sýningu sinni heitið „Ég ætla að vefa þér líkklæði." „Þetta er útför allra þeirra," segir hún í sýningarskrá, „sem ég horfði á deyja í niðurlægingu í búðunum..." Í list sinni sækir hún hugmyndaforða sinn í ævafornar hefðir Gyðinga við að búa lík til greftrunar. Hin trúarlega athöfn hefst með því að farið er með þessi orð úr Jobsbók þegar eftir andlátið:

Nakinn kom ég af móðurskauti / og nakinn hverf ég þangað aftur,/ Drottinn gaf og Drottinn tók,/ lofað veri nafn Drottins.

Viðleitni fórnarlambsins til að koma eigin lífsreynslu í orð eða mynd og fá áheyrn, hlýtur að snerta alla, þar er enginn undan skilinn. Hér er andóf gegn því að þögnin ein, dauðinn einn, hafi síðasta orðið. Hvar var Guð á þessum myrku tímum í sögu álfunnar, hvar var Guð á Golgata? Hvar á maðurinn athvarf í heimi þar sem Guð þegir? Hvar var Guð í hinni grimmu veröld litlu stúlkunnar Rosemarie? Markmið hennar er að endurheimta virðingu hinna niðurlægðu sem sviptir voru virðingu sinni í lífi og dauða. Hér er listamaðurinn farinn að gegna hlutverki sem ristir djúpt í viðleitni til mannúðar.

Upphaf þýsku stjórnarskrárinnar, þjóðar sem kynntist takmarkalausri yfirtroðslu á virðingu mannsins í síðari heimsstyrjöld, á sér rætur í gyðing-kristinni trúarhefð og er einfaldlega þannig: Virðing mannsins er heilög. Þau upphafsorð eiga djúpar rætur, að baki er löng píslarsaga sem skilar sér í mannúð og mennsku sem er dýru verði keypt. Verða slík orð í stjórnarskrá okkar Íslendinga - eða þykir ekki viðeigandi að höfða til gyðing-kristinnar trúarhefðar?

Önnur svipmynd kemur upp í hugann: Í hinn frægu bók sinni „Að horfa á sársauka annarra" veltir bandaríski rithöfundurinn Susan Sontag þessu efni fyrir sér með hliðsjón af myndefni aldanna, málverkum og teikningum fyrri tíma, ljósmyndum tuttugustu aldar frá styrjöldum og hörmungum, slysum og þjáningum hinna saklausu. Hvers vegna dregur þjáningin til sín athygli okkar? Hvað er það í sársauka annarra sem lætur okkur ekki ósnortin og vekur með okkur djúpa þanka um tilvist mannsins?

Í bókinni hugleiðir Sontag reynslu franska heimspekingsins George Bataille sem er þekktur fyrir klassísk fræðirit sín um ástina sem grundvallarþrá mannsins dýpst í vitund hans, sem þrá hans til sjálfs sín, til annarra, til guðdómsins. Hann segir að ein ljósmynd, sem tekin var í Kína árið 1910, hafi alla tíð verið á skrifborðinu sínu. Við fyrstu sýn virðist myndin vera fullkomin andhverfa þess mikla og glæsilega rannsóknarefnis sem átti hug hans alla tíð. Hún sýnir fanga sem er að dauða kominn eftir að hafa verið skorinn hundrað hnífstungum. Þetta voru frumstæðir, ævafornir helgisiðir sem viðhafðir voru við aftökur.

Heimspekingurinn segir að fæstir þoli að horfa á þessa mynd, finnist hún óhugnanleg og snúi sér undan. Raunar sýna myndir af dýrlingum kaþólsku kirkjunnar á öllum öldum ekki minni grimmd og lýsa ekki minni þjáningu og sársauka. Hér er ekki horft á þjáninguna til þess að njóta hennar heldur vekur sársauki annarra tilfinningar, sem snerta dýpstu vitund. Þjáningin tilheyrir hinu alþjóðlega tungumáli mannsins, þar eru engin landamæri, hvorki í tíma né rúmi. Í þjáningunni eru allir menn bræður og systur.

Líkt og stjörnuhiminninn á bjartri vetrarnótt kveikir þjáningin trúarlegar hugrenningar. Hvort tveggja opnar dyrnar á vit hins óskiljanlega en um leið óumflýjanlega. Að baki er sú hugsun sem virðist manninum meðfædd - og Batailler gerir sér einnig grein fyrir - að hugsunin um þjáningu annarra tengist trúarlegri fórnarhugsun og fórnarlambið tengist upphafningunni, sem vekur virðingu fyrir líkama hins látna. Þjáningin veit einnig um von, í sorginni vaknar vitund um návist hins Heilaga líkt og segir í þekktu íslensku skáldverki þar sem skáldið Sigurður Breiðfjörð „fann hvert hjarta og snart það fegurð og sorg". Í tvíræðri vitund syrgjendanna verður sorgin heilög, henni fylgir ekki vonleysið eitt heldur einnig upphafning, vitund um návist Huggarans sem stendur hljóðlega við hlið mannsins þegar sorgin er mest. ***

Á þessari mynd eru reyndar fleiri fletir. Hversu margir hafa ekki tekið á sig þjáningar vegna hugsjónar, sannfæringar, afstöðu? Hversu oft hefur hinn saklausi spámaður ekki verið grýttur og krossfestur, niðurlægður og limlestur, eða hrakinn út fyrir borgarmúrana - ekki vegna þess að hann hafði ekki aðra kosti um að velja heldur vegna hugsjóna sinna, vegna sannfæringar sinnar, vegna trúar sinnar? Á öllum tímum, einnig okkar tímum. - Þetta er Golgata: Við höfum einnig verið hér áður.

En eru það ekki einmitt þannig hugsjónamenn sem ortu þau ljóð sem allir vildu kveðið hafa? Þeir sem börðust fyrir réttindum og virðingu mannsins á öllum tímum, sem slógu skjaldborg um þá sem minni máttar voru? Þeir sem höfðu ekki aðeins skoðun heldur einnig sannfæringu. Þeir sem horfðu ekki aðeins á sársauka annarra heldur gerðu hann að sínum eigin sársauka, áttu samlíðun í hjarta, „upphafs hins æðsta söngs". Eru það ekki þeir, hvar í flokki sem þeir standa að öðru leyti, sem oftar en ekki sóttu hugrekki til hins líðandi þjóns sem gekk alla leiðina til Golgata, og horfð aldrei um öxl, hvorki í Getsemane né frammi fyrir fulltrúum hins illa valds, hvort sem það var veraldlegt, trúarlegt eða vald múgsins?  ***

Þess vegna slær þjáning hins saklausa einnig annan streng. Það er frelsið. Sá sem blasir við okkur á krossinum á Golgata er ímynd hins frjálsa manns. Það hljómar eins og þverstæða á tímum þegar margir líta svo á að frelsið sé einmitt fólgið í hinu gagnstæða, í því að hliðra sér við mótlæti lífsins, loka augum fyrir þjáningum heimsins, sá einn sé frjáls sem hefur öll tækifærin, sem getur verið eitt í dag og annað á morgun, sá einn sé frjáls sem hefur enga sannfæringu heldur hentistefnuna eina að leiðarljósi.

Það frelsi sem stendur undir nafni kemur okkur í hug þegar við heyrum minnst á baráttufólk fyrir mannúð og mannréttindum í fjölmiðlum eða hvern þann sem hefur lagt eitthvað í sölurnar fyrir málstað sem einhvers virði er.

Þannig verður maðurinn frjáls, þegar frelsið í huga hans er skilyrt af góðum gildum og virðingu fyrir manninum. Þegar hann segir líkt og Marteinn Lúther frammi fyrir keisara og fulltrúum páfa: „Hér stend ég og get ekki annað." Þá fyrst var hann frjáls.

Krossinn leiðir hugann að því frelsi sem er ekki ódýrt heldur dýrt, þar sem maðurinn finnur mennsku sína. Er nokkur ást til sem krefst ekki fórnar? Og hvaða sannfæring krefur manninn ekki um að leggja sjálfan sig að veði? Hvaða mannúð er það sem er ekki reiðubúin til að leggja eitthvað í sölurnar, jafnvel allt?

Krosssinn vísar til hans sem setur frelsi og virðingu mannsins á dagskrá. Jesús sýndi í verki samlíðun með þeim sem þjást. Hann er sterkasta ímynd sögunnar um andóf gegn óréttlátu valdi, um andóf gegn veldi múgsins, um hugrekki til lúta ekki því sem brýtur niður virðingu mannsins eða lætur sér í léttu rúmi liggja þegar aðrir þjást. Um þetta snýst trúin, sú mynduga trú sem Jesús kallar til, þar sem maðurinn öðlast nýtt hugrekki til að lifa, og vera það sem hann er.

Andstæða þeirrar upplýstu trúar sem stendur vörð um myndugleika mannsins blasir við í sögu og samtíð. Kirkjusagan er ekki aðeins saga hins fagra, hámenningar, fagurra bygginga, auðugs myndlistararfsins og glæsilegrar tónlistar, ekki aðeins saga menntastofnana og líknarhreyfinga. Hún sýnir okkur einnig ýmar útgáfur á undirgefni undir það óréttláta vald sem reisti krossinn á Golgata. Þá var ekki horft til hins líðandi þjóns heldur voru smíðaðar kenningar um trúarskilning sem gerði manninn ekki myndugan heldur ómyndugan.

Hún birtist einnig í þeirri trú sem forfeður sálfræðinnar fyrir rúmri öld skilgreindu sem endurhvarf mannsins inn í lokað, verndað rými þar sem ábyrgðarleysi hans er varið, inn í heim bókstafstrúar og stofnanadýrkunar. Þá varð játning varanna vitnisburði trúarinnar æðri, þá var trúin á trú annarra sett eigin trú og eigin sannfæringu skör ofar. Að baki er löngun mannsins til þess að vera ekki myndugur heldur hverfa aftur í tímann, ekki aðeins til bernsku sinnar heldur inn í hið tímalausa öryggi jóðsins, inn í kvið móður sinnar, inn í öruggan heim hins ómynduga þar sem engrar ábyrgðar er krafist, þar sem frelsi mannsins er ekki á dagskrá, þar sem hugrekki er óþarft, þar sem samlíðun með þeim, sem ofurliði eru bornir af óréttlæti heimsins, er ekki heldur til umræðu.

En þannig var trú Jesú ekki. Hann lét sér annt um þennan heim, um manninn, um sköpunarverkið. Trúin, sem mótaði hugsun og lífsviðhorf forfeðra okkar og mæðra er í hnotskurn útfærsla á þessum orðum Jesú: „Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir"  (Matth. 12.50). Sú saga er einnig saga trúarinnar, saga þeirra sem fetuðu slóðina inn í rökkrið á Golgata, saga þeirra sem gerðu vilja föðurins. Sú trú snýst um líf mannsins, um lífsleikni, um lífsstíl.

Píslarsaga Jesú er sagan um þá trú sem kallar manninn til myndugrar, upplýstrar trúar sem stendur vörð um mannúð og virðingu mannsins, sem líður með þeim sem líða, sem þjáist með þeim sem þjást - og öðlast frelsi sitt og mennsku um leið.

Um þetta snýst krossinn, um þetta er ljóðið um þjáningar hins réttláta. Sú trú nemur aldrei staðar, hún er ekki óumbreytanleg heldur síbreytileg eins og allt sem lifir. Hún er framsækið afl, sem endur-nýjast og endurskapast um leið og hún endurnýjar og endurskapar. Markmið siðbótarmanna allra alda fólst í andófi gegn afskræmingu trúarinnar. Hún snýst hvorki um stofnun né bókstaf heldur felst hún í því að hafa Jesúm fyrir augum og mynd hans í hjartanu. Krossinn er tákn þeirrar trúar, ekki um undirgefni undir vald og áhrif annarra.

Jesús er ímynd þeirrar mennsku sem við þráum, hvort sem er vegna þeirra sem eru að stíga fyrstu skrefin í þessum heimi eða á lokaáfanganum, fyrir þá sem leiða menn og þjóðir, fyrir hvern og einn, í daglegu lífi, í leik og starfi. Hann er hin trúverðuga og sanna ímynd, tákn mennsku og mannúðar vegna þess að hann horfði ekki til eigin vegsemdar. Dauði hans var ekki sigur - en samt sigur þess besta sem við þekkjum í heimi mannsins, þess varanlega í hverfulum heim, til hans horfum við þegar spurt er um mannúð og mannvirðingu, um þau góðu gildi sem allir - án undantekninga - þrá í hjarta sínu.