Fara í efni

HRÓSAR HAPPI - EN OF SNEMMA?

herðubreið 1
herðubreið 1

Auðjöfurinn Huang Nubo sem er í forsvari fyrir kínversku fjárfestingasamsteypuna sem vill fá afnotarétt yfir Grímsstöðum á Fjöllum til að reisa þar 20 þúsund fermetra hótelhúsnæði  og gera flugvöll á svæðinu til að fljúga með túrista til að njóta einsemdarinnar í Herðubreiðarlindum, hrósar nú happi yfir því að innanríkisráðherra Íslands sé ekki í færum (lengur) til að eyðileggja áform sín.

Erlend ríki fylgjast með þessum tilraunum Kínverja að fá fótfestu á Íslandi. Þau líta flugvallardraumana öðrum augum en íslenskir sveitarstjórnarmenn við samningaborð Núbós. Þar hafa menn stórveldahagsmuni í huga, líka þegar menn segjast vilja kíkja upp í hinintunglin, eða voru það Norðurljósin?

Og hvað með ábendingar Ragnars Ólafssonar hér á síðunni um hvort menn vilji koma á fót túrista-stóriðju. Hvort hætta kunni að vera á „ofbeit". Ábendingar Ragnars þarf að ræða. Fyrst forsvarsmenn Norðanmanna vilja ekki taka umræðuna þá þurfa aðrir landsmenn að gera það. https://www.ogmundur.is/is/greinar/kinversk-risautgerd-a-grimsstodum-haetta-a-ofbeit-ferdamanna

Það kemur okkur öllum við þegar eignarhaldi eða afnotarétti á landi okkar er ráðstafað út fyrir landsteinana. Kínverski auðmaðurinn hrósar happi yfir að vera laus við innarríkisráðherrann. En skyldi hann vera laus við íslenska þjóð? Ég held ekki. Almennt vilja Íslendingar ekki verða hráefnanýlenda fyrir erlenda auðmenn, jafnvel þótt stöku sveitarstjórnarmanni glepjist sýn. Þannig var það líka í Mið- Ameríku þegar bananaekrurnar voru seldar.

Ég held að erlendir auðkýfingar eigi að fara varlega í að hreykja sér á kostnað íslenskra stjórnmálamanna sem vilja sporna gegn því að vaðið sé á skítugum skónum inn á Ísland.

Nokkrar slóðir:
http://eyjan.is/2012/05/04/nubo-vill-99-ara-leigusamning-bjartsynn-fyrst-ogmundur-hefur-ekkert-med-malid-ad-gera/

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/05/04/huang_vill_samning_til_99_ara/ 

herðubreið 2
http://visir.is/samningur-vid-nubo-raeddur-a-rikisstjornarfundi/article/2012120509583
http://smugan.is/2012/05/nubo-vill-leigusamning-til-99-ara/