Fara í efni

FUNDAÐ OG FRÆÐST Á KÝPUR

Kypur
Kypur

Ráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins svo og ráðherrar ríkjanna sem aðild eiga að Evrópskra efnahagssvæðinu - Íslands, Noregs og Liechtenstein - koma reglulega saman til að ráða ráðum sínum í aðskiljanlegum málaflokkum í því ríki sambandsins sem hverju sinni fer þar með formennsku.
Að þessu sinni er formennskan hjá  Kýpur. Sótti ég tvo slíka ráherrafundi sem haldnir voru nánast hvor á fætur öðrum í Nikósiu, höfuðborg Kýpur eða Lefkósíu eins og hún í reynd heitir, annars vegar ráðstefnu sem samgöngu- og fjarskiptaráðherrar sátu og hins vegar dómsmálaráherrar.
Fundirnir voru fróðlegir og gagnlegir því til umræðu voru málefni sem snerta okkur Íslendinga.

Rafræn samskipti

Á fyrri fundinum voru rafræn samskipti í samgöngumálum sérstakt þema og og þá hvernig mætti opna upplýsingakerfi hins opinbera sem mest þannig að samfélagið gæti síðan nýtt þau í þaula.
Ráðherrar gerðu grein fyrir stöðu mála í sínu landi og lagði ég sérstaklega út af sérstöðu Íslands hvað varðar mikilvægi þess að upplýsingar um veður- og náttúrfar skiptu máli fyrri hinn manngerða heim. Upplýsingar um veður, úrkomu, ölduhæð skiptu ekki síður máli en tímaáætlanir flutningafyrirtækja, að ekki sé minnst á þegar hamfarir verða eins og Íslendingar hafa rækilega fengið að kynnast og reyndar Evrópumenn líka.  Allir mundu eftir Eyjafjallajökuls-gosinu og skemmtu sér við framburðinn. Og allir muna afleiðingar gossins á flugsamgöngur í Evrópu. Um þessa þætti fjallaði ég sérstaklega í mínu innleggi en gat líka um ásetning okkar að stuðla að sem mestum og bestum rafrænum upplýsingum um samgöngukerfið eins og reyndar er gert nú þegar að nokkru leyti leyti, til dæmis hjá Vegagerðinni og Siglingastofnun.

Upplýsingar öllum aðgengilegar

Gestafyrirlesarar voru nokkrir á fundinum og sumir mjög áhugaverðir. Í því sambandi nefni ég  Marcus Dapp frá stofnun sem sett hafði verið á laggirnar í Cambridge í Englandi og ber heitið Open Knowledge Foundation. Stofnunin beitir sér fyrir því að opna á allar upplýsingar sem verða má. Slíkt muni skila sér út í atvinnulífið. Þetta held ég að sé hárrétt og minnir á þá hugmyndafræði 20. aldarinnar að aðgangur að þekkingu sem háskólarnir framleiddu skyldi vera almannaeign. Það er á síðustu árum sem þessi hugsun er að breytast og einkaréttarhugsun breiðir úr sér illu heilli (sjá http://www.okfn.org/ ).
Fyrirlesarar frá þýska fyrirtækinu Waymate voru þeir Maxim Nohroudi og Tom Kirschbaum. Fyrirtæki þeirra er lifandi sönnun þess hvað gerist ef allar upplýsingar verða öllum opnar. Þetta fyrirtæki sem er smátt í sniðum en ört vaxandi og sérhæfir sig í að hlaða inn í upplýsingabanka öllu sem vitað er um ferðamöguleika í Evrópu. Viðskiptavinurinn hefur síðan samband  á rafrænan máta við upplýsingakerfi Waymate og setur fram sínar óskir. Fyrirlesarar sýndu okkur  í beinni útsendingu - on line - á stórum skjá hvernig við gætum komist frá A til B - ódýrast, hraðast eða hverjar sem okkar óskir væru. Hugsunin er sú að viðskiptavinurinn stilli upp sínum forgangsóskum. Vill hann ferðast hratt, ódyrt  og tölvan kemur síðan með tillögur um ferðamáta, rúta, lest, flug eða blanda af þessu. Fyrirtækið er nú að þróast yfir í ferðaskrifstofu. Hér er slóðin: www.waymate.de  
Margt annað var rætt á þessari ráðstefnu en sem áður segir var sérstök áhersla á hvernig greiða megi götu rafrænnar opinnar stjórnsýslu og upplýsingamiðlunar á sviði samgöngumála.

Flóttamenn, hælisleitendur og netöryggi

Á fundi dómsmálaráherranna var talsvert fjallað um flóttamenn og hælisleitendur og Schengen samstarfið. Fjallað var um glæpi á netinu og síðan um samstarf ríkja varðandi skipulagða glæpastarfsemi og hvernig mætti frysta og leggja hald á illa fenginn auð sem reynt væri að koma í skjól í öðru ríki en því sem glæpirnir höfðu verið framdir.
Sum Evrópuríki hafa þegar þróað löggjöf sem gengur langt í þessa veru, svo sem Írland og Bretland, en umræðan snerist um það hvort Evrópusambandið ætti að beita sér fyrir tilskipunum og regluverki í þessa veru í ríkari mæli en þegar hefur verið gert .
Þá var fjallað um öryggi á netinu; persónuvernd einstaklinga svo og fyrirtækja. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB  sögðu að spara mætti gríðarlegar fjárhæðir með samræmdum reglum, nefndu 3,2 milljarða evra. Í framhaldi var rætt um reglur sem væru í smíðum en í ljós kom að nokkuð er þar í land. Bretar töldu að regluverk ESB yrði alltof íþyngjandi fyrir atvinnulíf með því eftirliti sem lagt væri til, aðrir töldu það vera til góðs og bentu á að þegar væri til regluverk um þetta frá því um miðjan tínda áratuginn, en það væri orðið úr sér gengið og þyrfti að laga það að breyttri tækni og nýjum þörfum.

Vilja meiri valdheimildir

Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB töluðu fyrir auknum valdheimildum til framkvæmdastjórnarinnar að setja regulverk á þessum sviðum en fulltrúar nokkurra ríkja urðu til að gagnrýna framkvæmastjórnina fyrir að vilja færa sig upp á skaftið að því leyti að vilja fá almennar heimildir í stað þess að fá samþykktar tilskipanir sem færu í gegnum þing Evrópusambandsins og  veittu aðildarríkjum meira svigrúm en reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar gerðu.
Umræðan um frystingu og haldlagningu eigna fléttaðist um málefni sem mér þykir mikilvægt að gaumgæfa vel  og var lítillega rætt á Kýpur fundinum, það er hvernig ná megi illa fengnum auði af brotamönnum með öfugri sönnunarbyrði. Einstaklingur dæmdur fyrir skipulagt mansal, svo dæmi sé tekið, situr af sér dóminn og hverfur síðan aftur inn í fyrra lúxuslíf. Með öfugri sönnunarbyrði þyrfti hann að sýna fram á hvernig hann aflaði ríkidæmis síns.  Ætla má að fyrir slíkan mann væri eignasvipting meira áfall en fangelsisdómur. Ýmsar þjóðir eru að feta sig inn á þessa braut og er ég þess mjög fýsandi að við gerum slíkt hið sama og hef rætt það við nefnd sem er að skoða lagarammann um efnahagsrannsóknir á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með þessari þróun með það fyrir augum að læra af reynslu annarra. Europol - Evrópulögreglan hefur talað fyrir þessu.

Sýrland

Á fundinum fengum við ítarlegar upplýsingar um flóttamannastrauminn frá átakasvæðum í Sýrlandi. Á annað hundrað þúsund manns hafa flúið land, einkum til Tyrklands, Jóradaníu, Líbanons  og Íraks en öll þessi lönd eiga landamæri að Sýrlandi. Tæplega þúsund flóttamenn bætast í hópinn daglega. Einhver straumur er norður á bóginn og þá helst til ríkja þar sem fjölskyldumeðlimir eru fyrir. Svíþjóð var sérstaklega nefnd í því sambandi. Svíar hafa styrkt Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna um 15 miilljónir evra og Bretar um 20 milljónir. Ríki voru hvött til að láta fé af hendi rakna og reyna að koma í veg fyrir að fólkið hrektist langt frá heimaslóð sem iðulega leiddi til þess að fjölskyldur sundruðust.
Nokkur pólitískur áherslumunur kemur fram á þessum fundum þótt samhljómur sé jafnframt mikill.
Bretarnir vilja passa upp á einstaklingsfrelsið en áherslur breska Íhaldsflokksins birtast í því að þótt þeir tali fyrir samstarfi vilja þeir sem minnstar skuldbindingar sem kosta peninga. Við viljum sem minnstar skuldbindingar sem kosta peninga „ we do not want portable social security," sagði Kenneth Clarke, dómsmálaráðherra Breta.  
 
Kýpur

Margt leitar á hugann við að heimsækja Kýpur.  Fyrst er að nefna hitann -  einn daginn fór hann í 50 stig á Celsíus - síðan er það hve landið er hrjóstrugt en sagan rík. Það hefur hún verið í tíu þúsund ár.
Hér gætir grískra, rómverskra, býsantískra og feneyskra  áhrifa - síðast áhrifa frá stórveldi Ottómannanna tyrknesku sem hér réðu á stórveldisskeiði sínu, svo og breskra áhrifa; enda hefur þessi þriðja stærsta eyja Miðjarðarhafsins - á eftir Korísku og Sardiníu, á við tíunda hluta Íslands - lotið valdi úr öllum þessum áttum og fleiri mætti telja til! Ef litið er til síðustu alda þá hertóku Tyrkir Kýpur 1570 og réðu eftir það í þrjár aldir. Árið 1878 (eftir Rússnesk-tyrkneska stríðið og Berlínar-ráðstefnuna)  var Kýpur (ásamt Egyptalandi og Súdan) færð undir bresk yfirráð þótt samkvæmt lagabókstaf heyrði Kýpur Tyrklandi til 1914. Kýpur varð bresk nýlenda 1925 en öðlaðist sjálfstæði frá Bretum árið 1960 og ári síðar varð eyríkið hluti af Breska heimsveldinu. Kýpur gekk í Evrópusambandið árið 2004.

Landamæralína með vegabréfaskoðun

Núna er Kýpur skipt, lýðveldið Kýpur annars vegar (sem samkvæmt alþjóðalögum tekur til eyjarinnar allrar þótt í reynd sé þessi hluti aðeins 59%) og svo hins vegar tyrkneski hlutinn sem kallar sig einnig lýðveldi og lítur á sig sem sjálfstæða einingu þótt tengslin við Tyrkland séu ótvíræð. Sá hluti er 36% af eynni.  Auk þessa halda Bretar nokkru landi undir tvær herstöðvar.
Í ferðabæklingum sem gefnir eru út grískumælandi megin er talað um hernám Tyrkja síðan í innrásinni 1974 og hernumda svæðið. Fullyrt er fullum fetum  að Tyrkirnir séu að eyðileggja gömul menningarverðmæti - annað hvort yfirvegað eða með hirðuleysi. Ekki hef ég forsendur til að meta réttmæti slíkra staðhæfinga. Þegar við fórum yfir landamæralínuna í höfðuborginni Nikósíu og héldum inn í tyrkneska hlutann, heyrði ég  landamæravörð hvísla að ferðmönnum varnaðarorðum um að láta ekki Tyrki pranga inn á sig falsvörum.
Semsagt, grunnt er á því góða og kynt undir tortryggni þannig að aðkomumaður tekur eftir.

Hröktust frá heimilum sínum

Við innrás Tyrkja höfðu um allangt skeið -  mestallan sjöunda áratuginn, með hléum þó -   verið blóðugar erjur á milli gríska meirihlutans og tyrkneska minnihlutans. Tyrkir óttuðust  samsæri í millum þáverandi herforingjastjórnar í Grikklandi og grískumælandi þjóðernissinna á Kýpur, að fyrir dyrum stæði að sameina Kýpur Grikklandi. Alls kyns kenningar voru uppi og loft lævi blandið. Mín kynslóð man eftir Makaríosi erkibiskupi á forsíðum íslenskra blaða og í helst-í-fréttum útvarps í síbylju frá þessum tíma. Svo var landinu skipt en enginn er alveg sáttur. Af rúmlega milljón íbúum eyjarinnar var eitt hundrað og fimmtíu  þúsundum  grískumælandi og fimmtíu þúsundum tryrkneskumælandi mönnum þröngvað til að yfirgefa heimili sín þegar landamæralínan var dregin. Slíkt skilur eftir sár. Það þekkir heimurinn frá Palestínu og víðar. Miklu víðar.
 
Fyrir botni Miðjarðarhafs

Landið minnir reyndar um margt á Palestínu - sumarþurrkurinn og olívutrjágróður og annar harðgerð lágvaxinn trjágróður sem setur svip á landið  - hæðóttar öldurnar. Enda erum við ekki fjarri botni Miðjarðarhafsins, sunnan undan Tyrklandsströndum, steinsnar frá Tel Aviv, Beirút, Jerúsalem og Damaskus. Og fyrir sunnan er Kairó.
Hér heyrist hvíslað að Rússar séu að kaupa upp landið; þegar eigi þeir bankana. „Og við getum ekkert við þessu gert," sagði mér áhyggjufullur stórbírókrat frá Brussel. „Við höfum ekki fjármuni til að hamla gegn þessu. Rússarnir vita sínu viti þegar framtíðarhagsmunir eru í húfi. Þú veist að við erum á næstu grösum við átakasvæði samtímans og því miður framtíðarinnar, Sýrland er hér næsti bær." Undir þetta tók ég, eflaust vita Rússar sínu viti! „Og það gera fleiri stórveldi," bætti ég við.

Hvað gerir samfélag menningarríkt?

Hvað skyldi þurfa til að eignast eins mikla sögu á þessum þurru heitu slóðum? Að landið liggi vel við samgöngum? Eflaust. Einhver gæði sem aðrir ásælast? Margt bendir til þess að Kýpur hafi einmitt búið yfir gæðum sem skiptu heiminn miklu máli í árdaga: Kopar.
Menn eru ekki á eitt sáttir um uppruna orðsins Kýpur, annað hvort sé það dregið af kýprus trénu eða - sem þykir allt eins líklegt - af fornu dheiti á kopar. Í latínu var framan af talað um kopar sem málm frá Kýpur (aes Cyprium) sem síðar styttist í Cuprum en það er fræðilegt alþjóðlegt heiti á kopar. Um tvö til þrjú þúsund f. Kr. var farið að bræða saman kopar og tin og kallaðist sú blanda brons. 
Hvað um það, á Kýpur var unninn mikill kopar og brons fyrr á tíð og selt úr landi. Síðar komu aðrar unnar vörur til sögunnar. Í  þessari ferð sáum við menjar um mikla sykurverksmiðju í Kolossi. Þar var líka kastali frá krossferðatímanum sem minnir á miðaldirnar og tilraunir sem þá voru gerðar til að halda yfirrráðum kristinna manna yfir Jerúsalem - Jórsölum.
En áfram með spurninguna, hvað þarf til að verða menningarþjóð? Eitt leiðir af öðru. Mikill samgangur, örvun og áreiti. Íslendingar fóru víða á söguöld - Guðríður Þorbjarnardóttir fór vestur um haf og gekk síðan suður til Rómar á fund páfa. Sæmundur fróði nam við Svartaskóla í París. Og frá örófi alda - löngu fyrir „okkar"  tíð - var Miðjarðarhafið fjölfarið, lifandi suðupottur hugmynda og samskipta.

Heimspeki í hitastækju

Ég velti því fyrir mér að hvaða marki loftslag hafi breyst í rás undangenginna síðustu árþúsunda. Getur verið að Plató hafi skrifað Ríkið í 50 stiga hita? Ekki svo að skilja að það sé hitastigið allan ársins hring. Fjarri lagi. Síðan kann loftslag að hafa breyst.  Vatnajökull hét Klofajökull á landnámsöld, miklu minni en nú, sökum hlýrra loftslags um aldir áður. Spurningin kemur upp í hugann - ekki vegna Aþenubúans Platós, heldur  vegna þess að þegar við skoðuðum rústirnar af fyrrnefndri sykurverksmiðju í Kolossi á Kýpur var vísað í vatnsmikla á sem þarna hefði áður runnið - og komið sér vel við sykurframleiðsluna -  en væri nú uppþornuð. Til marks um það hve gætti áhrifa úr mörgum áttum, mun þekkingin á sykurvinnslunni hafa komið frá Egyptum sem eru ekki ýkja langt þar fyrir sunnan. Grískan sem töluð er á Kýpur er sögð svipa til grísku sem töluð var Í Grikklandi til forna -  og aftur kemur Ísland upp í hugann. 
Gerjun og örvun örvaði andann. Heimspekingurinn Zeno frá Citium, sem í byrjun þriðju aldar fyrir Krist setti fram heimspekikenningar kenndar við stóisma - þar er talað fyrir jafnvægi hugans sem Zeno sagði forsendu góðrar dómgreindar.  Citium er á  Kýpur en speki sína  kenndi Zeno í Aþenu.

Vatn er auðlind!

Þegar þekkingarleitin á annað borð er virkjuð hjá mannskepnunni er ekki að sökum að spyrja.  Í þessu heita og þurra landi gat víða að líta hinar rómuðu vatnsleiðslur sem iðulega eru kenndar við Rómverja en hljóta að hafa skipt sköpum alls staðar þar sem þær voru lagðar, ekki síst í heitu þyrstu landi. Og í því sambandi er vert að geta þess að sagnfræðingar leggja áherslu á hve miklar vatnsuppsprettur hafi verið að finna á Kýpur. Drykkjarvatnið hefur alltaf verið gulls ígildi. Íslendingar eiga enn eftir að átta sig á því til fulls! Síðan er náttúrlega hitt að norðanfólkið kemur yfirleitt á suðurslóðir yfir sumartímann og vill þá gleymast að haust og vor, að ekki sé minnst á vetur, er loftslag kaldara en yfir hásumar. Þá rignir líka og landið iðagrænt. Þá þætti okkur og kannski flestum auðveldara að hugsa um heimspeki en í steikjandi sumarhitanum.
Árþúsundin eru kortlögð í rústum og á söfnum  af mikilli kostgæfni á Kýpur. Til eru menjar frá steinöld þar sem sjá má hvernig steinaldarmaðurinn lifði. Bjó sér örsmá hús til að skýla sér fyrir hita, kulda og úrkomu. Menn ætla að í þröngum húsakynnum hafi menn sofið sitjandi og ekki veit ég hvað menn hafa fyrir sér þegar á líkani eru sýndir sofandi menn en einn fyrir utan híbýlin að gægjast inn. Ef til vill eru menn að gefa sér að á fyrri tíð séu alltaf einhverjir sem verða fyrir útilokun og einelti!

Ofbeldi til skemmtunar en menningin líka

Þrjú þúsund og fimm hundruð manns er góður áhorfendaskari á hvaða samkomu í dag. En þannig var það á fornum leikvangi í Kourion. Fyrsti leikvangurinn var byggður þar í tíð Rómverja, annar minni síðar  undir grískum áhrifum. Leikvangarnir skruppu heldur saman með tímanum. Á þeim voru ekki bara færð upp leikrit. Óhugnanlegt þótti mér að heyra það sem við höfum svo sem áður vitað um baráttu gladíatora upp á líf og dauða og bráttu þræla við villt dýr; allt fólki til skemmtunar.
Hinu megum við ekki gleyma að samfara lágkúru grimmdarinnar var hitt sem lifir: Menningin. Bókmenntrir, sagnfræðin og leiklistin er sú arfleifð sem samfélög á þessum slóðum skildu eftir sig, okkur síðara tíma fólki til hugljómunar. Og til að njóta þessara auðlinda flykktist fólk á leikvanga Miðjarðarhafsins þúsundum saman - ekki bara til að klappa grimmdinni lof í lófa.
Svona er lífið, margbreytilegt - lágkúra og upphæðir  andans.
Þá sem áður er það mannsins að velja hvað hann vill setja á stall.