Fara í efni

SKÝRAR VÍSBENDINGAR

kosn okt 2012 I
kosn okt 2012 I

Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu komu fram skýrar vísbendingar um almannavilja varðandi stjórnarskrárbreytingar. Áhugi er á því að í stjórnarskrá landsins skuli kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, vilji er til að styrkja ákvæði um beint lýðræði, jafna vægi atkvæða í kosningum, auka hlut persónukjörs í kosningum og standa vörð um þjóðkirkjuna.

Síðast en ekki síst vill fólk að tillögur Stjórnlagaráðs verði vinnuplaggið sem unnið verði út frá við breytingar á stjórnarskránni. Allt er þetta skýrt.

Takmarkanir þessarar þjóðarkönnunar eru svo aftur hinar sömu og þær takmarkanir sem voru á spurningum Alþingis, sem beint var til þjóðarinnar. Þannig var ekki spurt hvort fólk væri sátt við að ekki mætti heimila þjóðinni að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjármálaleg efni eða þjóðréttarlegar skuldbindingar; að innan þessara takmarka væru fullveldisafsal, nefskattur og Icesave! Ekki var heldur spurt hvort fólk væri sátt við að afnema úr stjórnarskrá heimild til að setja takmörk við eignarhaldi útlendinga á landi. Um þetta var ekki spurt. Þannig að um einstök atriði af þessu tagi - sem vissulega eru stór í sniðum og gríðarlega mikilvæg - höfum við ekki upplýsingar.

Þessi atriði munu að sjálfsögðu verða á vinnsluborði Alþingis þegar tekið verður til hendinni á komandi vikum um framhaldsvinnu við smíði nýrrar stjórnarskrár. En vísbendingar þjóðarinnar við þessa vinnu eru skýrar að því marki sem eftir þeim var leitað.