Fara í efni

VAR SIGRÍÐUR Í BRATTHOLTI FAGLEG EÐA PÓLITÍSK?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 27.01.12.
Samþykkt hefur verið á Alþingi Rammaáætlun, sem kveður á um nýtingu orkulinda. Hið jákvæða við Rammaáætlun er að með henni eru ákvarðanir um virkjanir settar í markvissara ferli en verið hefur og þeim sem fara með ákvörðunarvald gert nauðsynlegt að skoða kosti og galla með skipulegri hætti en áður hefur tíðkast. Því ber að fagna. Eftir sitja hins vegar ýmsir sárir en ekki sáttir, til að mynda þeir sem unna náttúruperlum á Reykjanesskaga.

Nokkuð var tekist á um Rammaáætlun. Sumir hefðu viljað koma fleiri náttúruperlum í vernd en gert var ráð fyrir í áætluninni. Aðrir hefðu viljað rýmri heimildir til virkjana. Hinum síðarnefnda hópi varð tíðrætt um að þörf væri á „faglegri vinnubrögðum" en nú væri boðið upp á og vísuðu þá til þess að stjórnmálamenn á Alþingi hefðu takmarkað þá virkjunarmöguleika sem áður hefðu verið lagðir fram. Slíkt væri ólíðandi og ófaglegt!

En hvar liggja landamærin á milli fagmennsku og stjórnmála? Eru þessi landamæri skýr? Er fagmennskan ópólitísk? Að hvaða marki er hún háð tíðarandanum? Getur pólitík ekki verið fagleg?

Við viljum hafa aðgang að sérfróðu kunnáttufólki til að benda á staðreyndir sem okkur eru ekki endilega ljósar; fólki sem kann öðrum betur, sérhæfingar sinnar vegna, að setja á vogarskálar rök með og á móti, greina kosti og galla, sjá framvinduna fyrir sér. Þess vegna er vísað til þess sem fagfólks. En hvað með aðra þætti? Hvað með skynbragðið sem við berum á náttúruna og fegurð hennar, jafnvel væntunþykju í hennar garð?
Sigríður í Brattholti sem kom í veg fyrir virkjun Gullfoss á sínum tíma bjó í námunda við fossinn. Hún var kannski ekki fagmaður í nútímaskilningi þess orðs, en þekkti fossinn eflaust betur en flestir. Sennilega var það þó ekki af faglegum ástæðum sem  Sigríður í Brattholti hótaði að fyrirfara sér í fossinum, ef hann yrði virkjaður, heldur einfaldlega vegna væntumþykju í garð þessa granna síns. Sennilega hefur  lítið verið farið að hugsa um arðsemi af ferðmennsku á hennar dögum þótt þar hefði að sönnu mátt finna „fagleg" rök fyrir náttúruvernd.

Mér bíður í grun að Sigríður í Brattholti hafi einfaldlega ekki getað hugsað sér að þessari náttúruperlu yrði fórnað. Faglegt eða ófaglegt? Var hótun Sigríðar fagleg eða pólitísk?

Og í framhaldinu hljótum við að spyrja hvort nýtingu auðlinda sé hægt að skipuleggja með reglustikuna og vasareikni að vopni, eða eiga ef til vill fleiri sjónarmið upp á pallborðið? Þarf ekki nýting náttúrunnar að taka mið af því að ef hin „faglegu" sjónarmið virkjanasinna hefðu engri andstöðu mætt þá ættum við engan Gullfoss? Þess vegna eiga mörg sjónmið að vera til staðar við alla ákvarðanatöku um nýtingu náttúrunnar.
Staðreyndin er sú að enn þann dag í dag erum við að taka ákvarðanir um nýtingu á alltof veikum og þröngsýnum grunni. Ég hygg að eftir 100 ár muni tíðarandinn fremur álíta að alltof veik fagleg rök hafi verið fyrir fjölda virkjana sem rammaáætlun hefur enn að geyma. Og eru þá ótalin hin svokölluðu ófaglegu rök væntumþykjunnar sem ef til vill hafa bjargað fleiri náttúruperlum á Íslandi heldur en nokkur faglegheit í gegnum áratuga baráttu náttúruverndarfólks eins og Sigríðar í Brattholti.