AUÐVITAÐ GEF ÉG UPP AFSTÖÐU!

Í fjölmiðli sá ég einhvers staðar haft eftir mér að ég gefi
ekkert upp varðandi afstöðu mína til nýrrar stjórnarskrár.
Þetta er alrangt. Ég hef alltaf litið á það sem skyldu mína að gefa
upp afstöðu mína til þeirra mála sem koma til kasta Alþingis.
Um síðustu mánaðamót beindi baráttuhópur fyrir nýrri stjórnarkrá
til mín þeirri spurningu hvort ég styddi nýja stjórnarskrá og vildi
fá já eða nei. Þannig vildi ég ekki svara en gaf upp eftirfarandi
afstöðu:
"Spurt er hvort ég styðji breytingar á stjórnarskránni. Það er
erfitt að svara spurningunni játandi eða neitandi enda málið enn í
vinnslu. Flestir eru á því máli að textinn frá Stjórnlagaráði taki
breytingum þótt hann skuli lagður til grundvallar. Ég er því
fylgjandi að leggja hann til grundvallar enda í samræmi við
niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu þótt á honum verði að gera
talsverðar breytingar enda ekki spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um
mjög veigamikil mál.
Sjálfum finnst mér mikilvægast að samþykkja á þessu stigi
breytingar á auðlindaákvæði (tryggja betur þjóðareign) og ákvæðum
sem lúta að beinu lýðræði. Mun styðja það (enda í samræmi við
niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu) þótt mér finnist tillögur
Stjórnlagaráðs of íhaldssamar í þessu efni (tækju t.d. ekki til
Icesave). Ég vil taka það fram að ég er mjög gagnrýninn á ýmsa
þætti í tillögum Stjórnlagaráðs einkum varðandi íhaldssamt ákvæði
um eignarrétt og tillögur sem lúta að því að auka miðstýringu innan
ríkisvaldsins í höndum forsætisráðherra. Finnst þar ekki á
bætandi!
Niðurstaða: Er fylgjandi breytingum á stjórnarskrá, vara þó
við óðagoti nú undir þinglok, tel að á þessu stigi eigi að leggja
höfuðáherslu á auðlindir og lýðræði.
Ögmundur Jónasson"
Varla þýðir þetta að gefa ekki upp afstöðu! Að sjálfsögðu geri
ég grein fyrir afstöðu minni þegar eftir er leitað. Það gerði ég
líka á sínum tíma þegar ekki var eftir henni leitað og skrifaði ég
nokkuð um málið þegar tillögur Stjórnlagaráðs voru að líta dagsins
ljós. Mér þótti alltaf slæmt hve þöggunarkennd umræðan var. Verst
var þegar umræðan fór ofan í flokkspólitísk hjólför. Í því sambandi
skal þó sagt að ég er sannfærður um að þegar kemur að auðlida- og
lýðræðismálum er djúpstæður pólitískur ágreiningur þar sem verður
að láta atkvæðamagn ráða - samkomulag mun ekki nást. Fyrir þessu
gerði ég grein við umræðu um vantraust á Alþingi á dögunum.
Sjá hér:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20130311T131412&horfa=1