HEIMUR „SAMKEPPNINNAR"

Slegist um kúnnann

Á árunum undir aldamót og síðan fram undir hrun gekk á með því sem kallað var einföldun á regluverki (sbr. átakið Einfaldara Ísland). Bandaríkjamenn kalla þetta deregulation, afreglun.

Regluverk er almennt sett á þjónustu af samfélagslegum toga, notandanum til varnar. Hin aðferðin er samkeppni. Stundum skilar samkeppni árangri fyrir notandann, stundum ekki. Og í sumum tilvikum er mikilvægara að leggja áherslu á samvinnu í stað samkeppni til að ná settu marki. Samkvæmt bókstafstrúarfólki frjálshyggjunnar skilar samkeppni hins vegar alltaf árangri.

Samkeppniseftirlitið sett á laggirnar um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og í kjölfarið var var farið að hefja hugmyndafræði samkeppninnar til skýjanna.

Sett voru lög um heilbrigðisþjónustu þar sem Sjúkratryggingastofnun átti að verða verslunarmiðstöð í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisstéttir sem störfuðu á markaði, ættu ekki að geta samið í sameiningu - það væri óeðlilegt verðsamráð - heldur áttu einstakir starfsmenn að keppa sín á milli með því að bjóða góðan prís. Dæmi um þetta voru ljósmæður sem buðu upp á heimaþjónustu. Til stóð að banna þeim að semja um kjörin í sameiningu. Framkvæmdinni var hins vegar frestað. Sama átti við um lækna, þeir ættu ekki að vera bundnir af samningum, bara keppa á markaði.

Frægt af endemum var þegar Samkeppniseftirlitið tók Bændasamtökin í karphúsið fyrir að ræða um verð á landbúnaðarafurðum á þingi Bændasamtakanna. Á það var litið sem saknæmt verðsamráð. Nýlegt dæmi er svo hótun Samkeppniseftirlitsins um afskipti af útboði sveitarfélaganna á Suðurnesjum á samgöngum við Leifsstöð en hugsunin af hálfu sveitarfélaganna  (sem er í samræmi við lög) er sú að hluti af arðseminni verði nýtt til að efla almenningsamgöngur á svæðinu. Með öðrum orðum, líta skuli á samgöngur frá Leifsstöð sem hluta af almeninngssamgöngukerfinu.

Annað nýlegt dæmi eru aðfinnslur Samkeppniseftirlitsins vegna leiðbeinandi reglna sem Innanríkisráðuneytið vildi setja (og hefur nú sett) um endurgjald sem innheimtulögmönnum er heimilt að krefjast af skuldurum. Eðlilegast þótti Samkeppniseftirlitinu að þeir kepptu sín á milli á markiði. Viðmiðunarverð væri í ætt við verðsamráð. Í lögum var þó kveðið á um að ráðuneytinu bæri að setja slíkar reglur! Þess skal þó getið að Samkeppniseftirlitið hefur látið gott heita þrátt fyrir reglugerð.

Veruleikinn er sá að innheimtulögmenn hafa haft óbundnar hendur og hefur það ekki orðið til þess að halda verðlagninguinni niðri, nema síður sé. Samanburður á innheimtuþóknunum fyrir og eftir nýlega setta reglugerð er sláandi að því leyti að viðmiðunarreglurnar kveða í öllum verðflokkum á um mun lægri gjöld en tíðkast hafa. Með öðrum orðum, regluverkið er skuldaranum hagstæðara en "samkeppni" á markaði. Þykja mér gjöldin þó enn alltof há. Samtök innheimtumanna hafa aftur á móti talað um eignaupptöku.
Sjá: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28534 
Nú er verið að smíða ríkisstjórn sem vill gera Ísland einfaldara að nýju. Samkeppnin á að leysa allt. Hverjum skyldi það þjóna? Við höfum reynsluna. Hún reyndist okkur dýrkeypt.

Fréttabréf