Fara í efni

STYÐJUM EDWARD SNOWDEN!

Snowden - PRISM
Snowden - PRISM

Í Bandaríkjunum hafa komið fram ásakanir um að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, og Alríkislögreglan, FBI, hafi um allangt skeið samkeyrt upplýsingar um fólk bæði frá símafyrirtækjum og netfyrirtækjum ( öllum hinum helstu, Google, Yahoo, Facebook, Skype, Y-tube ....  og svo framvegis). Þetta hefur verið gert  samkvæmt leynilegri áætlun sem kallast PRISM.  
Sá sem ljóstraði þessu upp heitir Edward Snowden en hann vann hjá fyrirtæki sem tengdist þessu starfi. Upplýsingar hans birtust í Guardian og Washington Post.
Umsvifalaust var hann brennimerktur svikari eða þjóðníðungur (traitor) af tilteknum aðilum á Bandaríkjaþingi þótt þar séu einnig margir til að taka upp hans málstað.
Það varð úr að Edward Snowden flúði til Hong Kong en hefur látið í veðri  vaka að hann gæti hugsað sér að fá landvistarleyfi á Íslandi.
Ég tel að Alþingi eigi að fylgjast vel með þessu máli og félli það helst í hlut Allsherjarnefndar þingsins  en hugsanlega einnig Utanríkismálanefndar. Evrópusambandið hefur þegar gert málið að utanríkismáli með því að Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB hefur sent Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bréf og farið fram á upplýsingar um net- og símahleranir Bandaríkjamanna. Í fréttum RÚV er haft eftir dómsmálastjóra ESB að svar Holders geti haft áhrif á samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Hér er á það að líta netheimurinn er aljóðlegur og ef bandarísk lög ganga lengra en lög annarra ríkja til að afla upplýsinga og jafnvel njósna um einstaklinga þá grefur það undan réttindum í viðkomandi löndum - ekki aðeins í Bandaríkjunum. Þetta kemur okkur því öllum við.
Þetta minnir okkur á að netið, sem býður upp á gríðarlega möguleika fyrir upplýsinga-  og lýðræðissamfélagið, getur hæglega snúist upp í andhverfu sína þar sem ríkið og stórfyrirtæki safni um okkur upplýsingum og grafi þannig undan friðhelgi einstaklingsins og  lýðræðinu. Út á þá braut virðast bandarísk yfirvöld hafa haldið.
Ég tók þetta mál upp á Alþingi í dag og hét því að fylgjast með framvindu þess að taka það upp að nýja ef aðstæður kalla á það.
Sjá: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20130612T151229&end=2013-06-12T15:14:46
http://en.wikipedia.org/wiki/PRISM_(surveillance_program)

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/06/13/ogmundur-storpolitiskt-mal-sem-vardar-heimsbyggdina-alla/