Fara í efni

ÖGMUNDUR ÞÓR JÓHANNESSON Í ÞJÓÐMENNINGARHÚSINU

ÖGM Þ JÓH - Þjóðmenningarhús
ÖGM Þ JÓH - Þjóðmenningarhús

Einhverju sinni gantaðist ég hér á síðunni með það við Ögmundarnir fylgdumst vel hver með öðrum. Alla vega vakna ég alltaf til lífsins þegar Ögmundur Þór Jóhannesson heldur hér tónleika en hann hefur verið búsettur erlendis undanfarin ár við nám og störf. Það er ekki bara nafnið sem kallar á athygli mína heldur veitir það mér ómælda ánægju að hlýða á þennan unga gítarsnilling.

Ögmundur er menntaður hér á landi, í  Barcelona á Spáni og Mozarteum í Salzburg í Austurríki, en alls staðar hefur hann útskrifast með hæstu einkunn.

Ögmundur Þór hefur unnið til verðlauna víða um lönd og borið hróður Íslands til allra heimshorna á hljómleikaferðum sínum.

Að undanförnu hefur Ögmundur haldið tónleika á Vestfjörðum, Siglufirði og nú síðast að Gljúfrasteini í Mosfellssveit. Þar kom hann fram ásamt Páli Palomares fiðlusnillingi en þeir tónleikar voru mjög góðir af hálfu beggja listamnana. Um það get ég borði vitni.

Á morgun, þriðjudaginn 23. júlí  (kl. 20) verður Ögmundur Þór með tónleika í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Vonandi lætur áhugafólk um tónlist þá tónleika ekki fram hjá sér fara.  

Tónleikarnir í Þjóðmenningarhúsinu tengjast svokallaðri Midnight Sun Guitar Festival sem er alþjóðleg gítarhátíð sem nú fer fram í fyrsta sinn. Allir tónleikarnir fara fram í Þjóðmenningarhúsinu og eru auglýstir þar. Listrænir stjórnendur eru Svanur Vilbergsson og Ögmundur Þór Jóhannesson.