HÁSKÓLINN ENDURSKOÐI ÁKVÖRÐUN SÍNA

Í opnu lýðræðisþjóðfélagi þurfa menn iðulega að gjalda synda
sinna í opinberri umræðu. Ekki eru áfellisdómar almenningsálitsins
alltaf réttlátir dómar þótt oft séu þeir það. En þeir eru þungir.
Mér segir hugur að þyngstu dómar sem kvðenir eru upp séu þeir sem
koma frá almannarómi og jafnframt þeim einstaklingum sem þá
hljóta þungbærastir.
Til hliðar og ofar þessum óformlega almannadómstól er síðan
réttarkerfið. Það kerfi var smíðað til þess að dómar yrðu
aldrei felldir á forsendum reiði - þess vegna réttmætrar
reiði - eða hefnigirni, heldur samkvæmt lögum og reglum sem
réttarríkið hefur á undangengnum öldum smám saman
þróað.
Nú fáum við þær fréttir úr Háskóla Íslands að einstaklingur sem
beðinn hafði verið um að halda námskeið um tiltekið efni við
skólann hafi fengið orðsendingu um afturköllun á þeirri beiðni
vegna þess - að því er fram kemur - að dómstóll háskólaganganna
hafi dæmt manninn úr leik. Allir vita um hvaða einstakling er að
ræða enda honum hvergi hlíft í opinberri umræðu. Ástæðan fyrir því
að ég nefni hér engin nöfn er einfaldlega sú að þessi umræða snýst
ekki um einstaklinga heldur grundvallarreglur í réttarríki sem vill
kallast mannréttindaþjóðfélag.
Með ákvörðun sinni hefur Háskóli Íslands gerst sekur um brot á
mannréttindum og hljótum við að krefjast þess að hann endurskoði
hana.