Fara í efni

ÞAÐ ER GOTT AÐ BIRTA SKATTSKRÁRNAR

DV
DV

Birtist í DV 07.08.13.
Birting skattaupplýsinga vekur ætíð upp talsverða umræðu í þjóðfélaginu. Annars vegar gæðir hún pólitíska baráttu ungra hægri manna inntaki; gefur baráttu þeirra tilgang. Þetta segi ég vegna þess að ég hef tekið eftir því að ungt hugsjónafólk á hægri væng stjórnmálanna talar sjaldan af meiri tilfinningaþunga en í skattskrármálinu.
Síðan er það hinn póllinn í umræðunni; póll þeirra sem hafna leyndinni og vilja hafa allt uppi á borðum. Þessir aðilar benda á að í skjóli leyndar þrífist misrétti og ennfremur að við eigum öll rétt á því að vita hvernig verðmætunum í þjóðféalginu er skipt.

Torveldara að fá upplýsingar

Sú var tíðin að allar upplýsingar um launamál hjá ríki og sveitarfélögum voru  opinberar, það er að segja, upplýsingar um umsamin kjör voru öllum aðgengilegar. Sporslur hafa hins vegar löngum verið faldar. Þegar litið er á hina stóru mynd hafa sporslurnar þó ekki skekkt heildarmyndina sem nokkru nemur miðað við kjaraumhverfið á almennum markaði þar sem umsamdir taxtar hafa í mörgum starfsgreinum vegið minna.  Þar hefur launaleyndin líka verið meiri. Hjá hinu opinbera hafa allar stærstu stéttirnar verið á umsömdum kjörum. Það er fyrst og fremst efsti hluti launapíramídans sem hefur notið óumsamins álgas.  Í seinni tíð hefur hins vegar dregið úr aðgengi að upplýsingum um kjörin hjá hinu opinbera þótt lögum samkvæmt beri að upplýsa um öll umsamin kjör sérhvers starfsmanns sé þess óskað. Hjá stéttarfélögunum hefur síðan verið kappkostað að koma öllum kjörum inn í umsamið ferli - og hefur í því sambandi verið bent á að í sporslunum sé misréttið fólgið. Þær megi ekki liggja í þagnargildi. En það er einmitt þarna sem ungum hægri mönnum er að mæta því barátta þeirra gengur út á að mynda leyndarhjúp um launakjörin sem áður segir.

Rökin fyrir launaleynd

Rök þeirra sýnist mér helst vera þessi: 1) Launakjör eigi að vera einstaklingsbundin og það eigi að heyra undir friðhelgi einkalífsins að þeim sé haldið leyndum nema viðkomandi einstaklingur kjósi að upplýsa um þau. 2) Upplýsingar um launakjör einstaklings geti skert möguleika hans á launamarkaði, þess vegna séu verkalýðssamtök að bregðast skyldu sinni með því að standa ekki vörð um launaleynd. 3) Upplýsingar um kjör efnafólks veiti innbrotsþjófum óæskilegar upplýsingar. 4)  Í sumum tilvikum gefi skattaupplýsingar ranga mynd, til dæmis í þegar áætlað er ranglega á einstaklinga, eða þegar einstaklingar hafa tekið út skattskyldan séreignasparnað sem síðan reiknast sem tekjur á síðum Frjálsrar verslunar og DV.

Efnafólk vill leynd - lágtekjufólk vill vita

Varðandi þessi rök vil ég segja eftirfarandi. Hvað varðar friðhelgi einkalífsins þá vekur athygli að þeirri kröfu er ekki haldið fram af hálfu lágtekju- eða millitekjufólks. Það er hátekjufólkið sem ekki vill láta upplýsa um sín kjör. Hvers vegna? Vegna þess að því finnist innst inni, að þau byggi á ranglæti?
Varðandi aðra röksemdina, samkeppnishæfi einstaklinga á launamarkaði , þá endurspeglar hún heim sem ég leyfi mér að fullyrða að almennt launafólk þekkir lítið til. En rökin eru þessi: Ef uppgötvast að ritstjóri hafi verið á launum sem  eru lægri en almennt gerist í þeirri stétt, svo dæmi sé tekið,  og hann vill leita á ný mið, þá komi upplýsingar um léleg kjör hans honum í koll við samningaborð á nýjum stað. Þess vegna séu hans hagsmunir að leyna upplýsingum um hin meintu bágbornu kjör. Þetta kann einhverjum að þykja hljóma undarlega en röksemdin er fengin úr umræðu undangenginna daga. Ég verð að játa að gagnvart þessari röksemd stend ég nánast kjaftstopp eins og stundum er sagt. Leyfi mér þó að segja að hér hljóti að vanta ýmsar víddir, til dæmis þá að viðkomandi ritstjóri hefði hugsanlega þegið laun með hliðsjón af launatekjum annarra á vinnustaðnum. Hann hefði með öðrum orðum búið yfir réttlætiskennd sem að einhverju leyti hefði stýrt för. Á slíkt hefði ég litið sem kost en ekki löst.
Innbrotsþjófa-röksemdina læt ég að mestu liggja á milli hluta en leyfi mér að efast um að innbrotsþjóðafar liggi yfir tekjublaði Frjálsrar verslunar og DV.
Fjórða röksemdin um villandi upplýsingar þykir mér hins vegar eiga fullan rétt á sér og hlýtur að verða að mæta henni með vel sýnilegum leiðréttingum af hálfu viðkomandi fjölmiðla ef upplýsingar þeirra reynast rangar.

Þjóðþrifaverk Frjálsrar verslunar og DV

Þegar heildardæmið er gert  upp þá er mín niðurstaða sú að Frjáls verslun og DV séu að vinna þjóðþrifaverk með því að veita upplýsingar úr skattskrám landsmanna og bregða þannig spegli yfir tekjumynstrið í landinu. Þau sem eru með slæma samvisku yfir því hvernig það mynstur er að þróast verða að mínu mati að sætta sig við upplýsingarnar.
Ég er sannfærður um að samfélag sem byggir á jöfnuði  er á alla lund kröftugra samfélag en misréttissamfélagið auk þess sem það er réttlátara.
Flestir eru sammála um að misréttið í þjóðfélaginu var gengið út í miklar öfgar í aðdraganda hrunsins. Því miður bendir margt til þess að í þessu efni hafi alltof lítið breyst og að jafnvel stefni í svipaðan farveg og áður var.
Ef við ætlum að forða okkur frá því að lenda í sama feninu aftur hljótum við að reisa þá lágmarkskröfu að allar upplýsingar um kjör og fjárhagslegar stærðir, sem lúta að skiptingu verðmætanna í þjóðfélaginu, séu öllum opnar og gagnsæjar. Þessar upplýsingar eru forsenda þess að við getum rætt þessi mál á upplýstan hátt.