Fara í efni

TOLLAR OG TÍSKA

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07.09.13.
Á borðum hefur að undanförnu verið nýdreginn þorskur úr sjó, kartöflur úr garðinum, salat, rauðrófur og baunir og sitthvað fleira þaðan líka. Allt ferskt. Ekki hægt að gera betur. Hráefnið eins gott og hugsast getur.
Ferskur matur úr nærumhverfinu er að sjálfsögðu betri en matvara sem flutt hefur verið um langan veg, jafnvel heimshorna á milli. Gæðin stjórnast að hluta til af ferskleika, nálægð neytandans við framleiðandann og síðan að sjálfsögðu af framleiðsluaðferðum. Þar búa Íslendingar við mikinn munað samanborið við  ýmsar þjóðir sem stunda grimma fjöldaframleiðslu á mat með nánast öllum tiltækum ráðum. Ekki þykja öll þau ráð til eftirbreytni.  Auðvitað er framleiðsla með verksmiðjubúum og eiturefnum ódýrari en frameiðsla í sátt við náttúruna. Það er og nokkuð sem margir einblína á: Að fá sem ódýrasta matvöru óháð gæðum.
Matvælastefnan á Íslandi hefur verið heilbrigðismiðuð fremur en verðmiðuð. Við viljum að börnin drekki mjólk frekar en gos og niðurgeiðum því mjólkina. Það á við um ýmsa aðra landbúnaðarvöru einnig. Og við viljum neyta innlendrar matvöru af íslenska akrinum og úr íslenska gróðurhúsinu af heilbrigðisástæðum og vissulega einnig þjóðhagslegum ávinningi.
En hversu langt erum við reiðubúin að teygja okkur eftir heilnæminu? Þau sem hafa efnin eru tilbúin að teygja sig býsna langt. Efnaminna fólki er þrengri stakkur sniðinn.
Þetta verður síðan vandinn. Mataræðið verður tekjuskipt. Um heim allan er fólk farið að sækjast eftir matvöru sem er heilnæm, jafnvel þótt hún kosti meira. Verksmiðjufóðrið verður þá fyrir hina sem ekki hafa kaupgetu.
Ég hygg að fátt sé mikilvægara en að varðveita heilsusamlegt fæði með þjóðum. Og þá ekki síður að fólki sé ekki mismunað eftir efnahag.
Þess vegna hef ég gefið lítið fyrir allan andróðurinn gegn niðurgreiðslu á heilnæmum mat og að sama skapi upphafningu markaðslögmála á þessu sviði.
Ein er sú vídd í þessu máli sem ónefnd er og það er að sjálfsögðu fórnarkostnaðurinn við mikla flutninga á matvöru: Mengun.  Það kostar sitt að flytja mikið magn matar landa á milli þótt það geti borgað sig peningalega. Mér býður í grun að þetta eitt muni valda því að í framtíðinni verði matvöruflutningar tollaðir, jafnvel umfram það sem nú er, til þess að draga úr orkufrekum flutningum. Gæti verið ráð að láta andvirðið renna í alþjóðlegan umhverfisverndarsjóð?
Að sjálfsögðu mun alltaf tíðkast verslun með mat, jafnvel heimshorna á milli. Og þannig verður því háttað með okkur Íslendinga að seint munum við verða sjálfum okkur nóg á þessu sviði. En við getum gert miklu betur, til dæmis með ylrækt sem að mínum dómi á að fá miklu meiri stuðning en nú er með lægra raforkuverði.
Okkar land er ekki eins vel fallið til landbúnaðarframleiðslu og mörg önnur lönd en við sitjum á auðugum fiskimiðum og þegar allt kemur til alls liggja hagsmunir okkar í viðskiptum með matvöru: fiskinn. Við getum huggað okkur við að hagkvæmnisrökin eiga eftir að gilda um matvælaframleiðslu á heimsvísu að verulegu marki. Sá mun ætíð standa best að vígi sem besta hefur auðlindina, fiskimiðin eða moldina. Við komum  því til með að flytja fiskinn út - og kornið inn.
En ég spái því að mælistika hagkvæmninnar eigi eftir að breytast  þegar fram líða stundir. Þá mun heilnæmi matarins og síðan þörfin á vernd umhverfisins verða fólki enn augljósari en nú.  Hver veit nema hinir úthrópuðu niðurgreiðslu- og tollamenn komist aftur í tísku.