Fara í efni

BJÖRGUM HEILBRIGÐISKERFINU!

DV -
DV -

Birtist í DV 25.10.13.
Niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins hófst ekki með efnahagshruninu 2008. Það sem hins vegar gerðist í kjölfar þess var að niðurskurðurinn var þá stóraukinn eða um á milli 20 og 25%  á fjórum árum!
 Starfsmönnum var fækkað, tækjakostur drabbaðist niður og dregið var úr þjónustu. Heilbrigðisstarfsfólk og landsmenn almennt létu sig hafa þetta - þótt margir mótmæltu hástöfum , ekki síst á landsbyggðinni . Allir sáu þó hvernig komið var fyrir ríkissjóði. En þótt þetta væri látið gott heita af margra hálfu, þá breytir það ekki  því að alltof langt var gengið eins og nú er að koma í ljós.

Niðurskurður fyrir og eftir hrun

Í þenslunni í aðdraganda hruns hafði sem áður segir verið  stöðugur niðurskurður  sem á fínu máli gengur undir heitinu hagræðingarkrafa. En niðurskurður fyrir hrun var af öðrum toga en eftirhruns-niðurskurðurinn að því leyti að fyrirhruns-ríkisstjórnir vildu knýja fram kerfisbreytingar í heilbrigðiskerfinu í átt til einkavæðingar, og nýta sér aðhald og þrengingar til að ná því fram. Þetta var og er galin hugmynd því kerfið verður í senn dýrara og ranglátara með einkavæðingu. En það skipti Sjálfstæðisflokkinn og fylgifiska hans ekki máli því þetta var pólitískur rétttrúnaður hægri manna.
Rétt er að rifja þetta upp til að gera sér betur grein fyrir því hve illa er komið fyrir heilbrigðisþjónustu okkar og þá einnig þeim hættum sem framundan eru. Dýfan eftir hrunið var semsé ofan á áralangan niðurskurð.


Fækkað um helming!

Í byrjun vikunnar skrifar 31 yfirlæknir grein í Fréttablaðið þar sem talað er um mjög alvarlega  „bresti í starfsemi lykildeilda" á Landspítalanum. Fréttir þessa dagana um að fólk þurfi að bíða eftir krabbameinsrannsókn vikum saman verður skiljanleg þegar við fáum jafnframt að vita að krabbameinslæknum á lyflækningadeild Landspítalans hafi fækkað um helming á síðustu misserum. Á öðrum deildum er og víða mannekla og tækjaskortur.
Heilbrigðisráðherra, Kristján Júlíusson, sagði í byrjun sumars að menn yrðu að taka höndum saman heilbrigðiskerfinu til varnar. Ég er sannfærður um að flestir Íslendingar eru því fylgjandi. En þá er eins gott að endurtaka ekki gömul mistök. Því miður er ekki frítt við að ég óttist það því sami mannskapur er nú kominn til valda og fyrir hrun. Hin pólitísku heimkynni eru altjént hin sömu.

Vilja bjóða gamla fólkið út

Þannig hefur verið ákveðið, svo dæmi sé tekið,  að flytja gamalt sjúkt fólk út af Landspítalanum í hagræðingar- og sparnarðskyni á Vífilstaði. Þetta kann að vera skynsamlegt. En ekki leið á löngu frá þessari ákvörðun þar til okkur var sagt á forsíðu Morgunblaðsins að til stæði að bjóða gamla fólkið á Vífilstöðum út, enda væri það „ekki  í verkahring spítalans" að reka Vífilstaði. En ríkisins - og þá bara í verktöku? Það kann að vera að þetta sé ekki dæmigert um alla þætti en hitt óttast ég þó að útboðin séu að hefjast á nýjan leik.

Útboð leysa engan vanda

En ég spyr, halda menn að útboð á sviði heilbrigðismála sé ávísun á ódýrara og hagkvæmara fyrirkomulag til lengdar? Eða stendur til að bjóða sömu starfsemi út á nokkurra ára fresti? Ég held ekki.
Þegar útboð hefur farið fram, breytist ekkert næstu áratugina því reksturinn verður ekki rifinn reglulega upp með rótum til að fá öðrum rekstaraðila í hendur. Nú vil ég taka það fram að ýmsir félagslegir aðilar og sjálfseignarstofnanir reka hjúkrunarheimili með ágætum. En síðan höfum við líka dæmi um að gagnstæða.

Ráðherra tali skýrt

Heilbrigðisráðherra verður að skýra betur út hvað fyrir honum vakir. Hann þarf líka að gera okkur grein fyrir því hvort aðferðafræði fyrir-hrunsáranna verður endurvakin að nýju. Er einvröðungu verið að tala um hjúkrunarheimili eða einnig aðra þjónustu þegar útborð eru annars vegar?
Lítur núverandi heilbrigðisráðherra á heilbrigðisþjónustu sem samfélagsþjónustu þar sem eru læknar og sjúklingar eða lítur hann  á hana sem bisniss þar sem eru seljendur og kaupendur, bisnissmenn og kúnnar?
Þegar kallað er eftir samstöðu  verða menn að koma hreint fram og leggja öll spil á borðið.

Heilbriðgðisstarfsfólk á allt gott skilið

Að undanförnu hafa alþingismenn fengið skæðafrífu áskorana frá verðandi læknum sem lýsa áhyggjum yfir því hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfinu og hvert stefnir að óbreyttu. Það er í múnum huga traustvekjandi að heyra þessa tóna .
Það er ekki sæmandi fyrir Íslendinga sem eru rík þjóð og hafa á að skipa vel menntuðu og sérlega færu starfsfólki að láta heilbrigðiskerfið drabbast niður. Mál er að linni.