Fara í efni

SVEITARFÉLÖGIN: FRÁ SAMSTARFI TIL SAMKEPPNI

Sveit - sk - sv 3
Sveit - sk - sv 3
Breyttar áherslur nýrrar ríkisstjórnar eru smám saman að koma í ljós.

Þannig er ljóst að aukin áhersla verður á notendagjöld og sú hugsun hefur verið viðruð af hálfu innanríkisráðherra að einkafyrirtæki eignist samgöngumannvirki sem þau reisi sjálf og innheimti síðan gjöld af almenningi til að standa straum af kostnaði og arðgreisðulm.

Innanríkisráðherra hefur nú einnig kynnt breyttar áherslur gagnvart sveitarfélögunum. Í stað þess að leggja áherslu á samstarf þeirra í millum er nú lögð áhersla á samkeppni. Þannig talar innanríkisráðherra um að sveitarfélögin þurfi að geta bætt samkeppninsstöðu sína í stað þess að tala um getu þeirra til að þjónusta íbúa og byggðarlög.

Samvinna sveitarfélaganna hefur almennt verið góð og samstarf þeirra við ríkið hefur farið batnandi á síðari árum. Þetta samstarf birtist á meðal annars í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hann er notaður til að jafna stöðu sveitarfélaga og hefur það verið sameiginlegt verkefni að þróa sanngjarnar reglur þar sem tekið er tillit til margvíslegra þátta sem hafa áhrif á getu sveitarfélaga til að rísa undir skyldum sínum gagnvart íbúunum. Þar er meðal annars horft til þess hvort sveitarfélögin búi yfir digrum tekjustofnum að rýrum.

Á svæðisþingum sveitarfélaga talar innanríkisráðherra nú um að afnema verði kvaðir um að sveitarfélög leggi á lágmarksútsvar (en þær kvaðir hafa áhrif á afmarkaðar greiðslur úr Jöfnunarsjóði) og að hið sama eigi að gilda um aðra skatta:

„Ég er einnig með til skoðunar reglur um álagningu annarra gjalda. Ég tel, svo dæmi sé tekið, að sveitarfélögum eigi að vera heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatta ef þau kjósa svo. Þá tel ég einnig að við þurfum að breyta reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þeim hætti að úthlutanir hans hafi ekki letjandi áhrif á sveitarfélögin til að lækka skatta og gjöld. Sjálfsagt mætti finna fleiri dæmi um það hvernig sveitarfélög geta bætt samkeppnisstöðu sína." (Innanríkisráðherra á ársfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 25. okt).

Fróðlegt væri að fá skýringu á því hvað nákvæmlega er átt við með samkeppnisstöðu sveitarfélaga í þessu samhengi.

Ég fæ ekki betur séð en að þessi afstaða komi til með að grafa undan þeirri hugsun sem jöfnunarkerfið byggir á. Ímyndum okkur að sveitarfélag fái stuðning vegna þess að börn á leikskóla- og skólaaldri þurfi um langan veg að fara í skólann og stærðarhagkvæmni sé ekki til jafns við það sem gerist í öðrum sveitarfélögum. Þessar aðstæður hafa m.a. skapað forsendur fyrir stuðningi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna skólaaksturs.

Setjum nú svo að viðkomandi sveitarfélag ákveði að draga úr útsvari og fella niður ýmis gjöld sem íbúar í öðrum sveitarfélögum greiða til að standa straum af samfélagsþjónustu á borð við skóla og leikskóla. Hvernig ætla menn að það færi í síðarnefndu sveitarfélögin að veita fjárstuðning úr sameiginlegum jöfnunarsjóði sveitarfélaganna til þeirra sem ekki tíma að greiða skatta?