SAKAR NOKKUÐ AÐ SÝNA UMBURÐARLYNDI Í LAUGARNESI?

Hrafn Gunnlaugsson

Í gær birtist frétt í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni, "Klagar borgina fyrir linkind í Laugarnesi". Um er að ræða meintan seinagang borgarinnar við að framfylgja ítrustu kröfum um að útmá verk Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndaleikstjóra,  fyrir utan lóðarmerki heimilis hans en Hrafn býr í fjöruborðinu í Laugarnesi. Hann hafði reist húskofa, búið til tjarnir fyrir gæsir og ýtt upp einhverjum smáhólun innan sem utan lóðar. Vegna þessa gripu borgaryfirvöld á sínum tíma til sinna ráða. Þetta er rakið í umræddu fréttaskrifi: "Í kjölfar þess að í ljós kom að Hrafn hafði í leyfisleysi komið upp eins konar bátaskýli í fjöruborðinu framan við lóð sína og húskofa inni á lóðinni samþykkti skipulagsráð vorið 2010 að þau mannvirki yrðu að hverfa. Um þetta sama leyti var gæsatjörn og -hólar ofan við hús Hrafns jafnaðir út."
Síðan þetta gerðist fyrir þremur árum hafi lítið hreyfst, segir Fréttablaðið, og hafi nú aftur verið kvartað.

1) Fram kemur að sá sem kvartar býr ekki í nágrenninu þannig að hann virðsit ekki hafa neinn beinan ama af dálæti Hrafns á gæsum og viltum njólagróðri. Í fréttaskrifinu kemur fram að seinagangurinn í borgarkerfinu skýrist að einhverju leyti af því að menn sjái ekki hina brýnu réttlætisþörf í málinu:  "Sérstaklega mun vera litið til þess innan borgarkerfisins að margir telja lítinn skaða af framkvæmdum Hrafns sem þess utan dragi til sín fjölda áhugasamra gesta."

2) Hrafni Gunnlaugssyni er sem öðrum óheimilt að takmarka aðgang fólks að sjávarströnd. Eftir því sem ég best veit - og hef sannreynt sjálfur, þá gerir hann það ekki. Þvert á móti, eins og fram kemur í skrifi Fréttablaðsins, hefur fjöldi manns lagt leið sína til Hrafns að skoða mannvirkin á sjávarströndinni. Í mínum huga eru þau skemmtileg og ekkert annað. Er ég þó ekki með þessu að hvetja til túrisma inn á gafl hjá Hrafni Gunnlaugssyni!

Ég er því fylgjandi að fólk fái að fara sínu fram eftir því sem kostur er, skaði það ekki aðra með framferði sínu.

Sjálfum fannst mér óskiljanlegt að þurfa að eyðileggja tjarnirnar sem Hrafn hafði búið gæsunum sínum. Auðvitað þarf hann að virða almannarétt eins og aðrir. En húsið er ekki í alfaraleið og þykir mér undarlegt ef fólk sem býr fjarri fær ekki fest blund yfir uppátækjum Hrafns Gunnlaugssonar í Laugarnesinu sem ég get ekki séð að skaði nokkurn mann. Þau eru hins vegar - samkvæmt mínu huglæga mati - skemmtileg og til þess fallin að gera lífið litskrúðugra. Er það slæmt? Svo mætti segja eitt orð eða tvö um umburðarllyndi! Ég ætla að leyfa mér að kalla eftir því.

Fréttabréf