LÝÐRÆÐI Á TÍMAMÓTUM

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01.12.13.
MBL -- HAUSINNÍ vikunni sat ég ráðstefnu í Strasbourg í Frakklandi um lýðræði. Um tvö þúsund manns voru skráðir á ráðstefnuna sem fram fór annars vegar í þingsal Evrópuráðsins og hins vegar í yfir 20 málstofum. Ég hafði framsögu á einni slíkri málstofu.
Sjónarmiðin voru margvísleg og varð úr þessu ágætur hugmyndapottur sem ég tel að muni gagnast okkur öllum sem þarna voru.
Athyglisverð þótti mér skiptingin á milli þingræðissinna annars vegar og lýðræðissinna hins vegar. António Costa, borgarstjóri í Lissabon og fyrrum dómsmálaráðherra  og síðar innanríkisráðherra Portúgals, sósíalisti, var talsmaður fyrrnefnda hópsins. Honum mæltist vel þótt ekki væri ég honum sammála. Hann sagði í eins konar andsvari við mig að fulltrúalýðræði væri ekki til komið vegna þess að þegnarnir gætu ekki, af tæknilegum ástæðum, tekið ákvörðun um öll mál beint eins og ég hélt fram heldur vegna þess að fulltrúalýðræði hefði kosti umfram beint lýðræði. Og hann bætti um betur og sagði: "Við verðum að vernda samfélagið gegn þeim hættum sem steðja að því í beinu lýðræði."
Síðan nefndi hann dauðarefsingu, hún yrði væntanlega innleidd ef fjöldinn réði, skattar yrðu lækkaðir og velferðarkerfið þarmeð  eyðilagt og útlendingahatur yrði ríkjandi í lagasetningu.
Ég sagði að reynslan talaði öðru máli, en jafnvel þótt þetta yrði niðurstaðan yrðum við að horfast í augu við þá staðreynd að réttur einstaklingsins til að taka þátt í því að móta umhverfi sitt og þar með eigið líf væri afgerandi - grundvallarréttur. Kosnir fulltrúar væru ekkert annað og meira en nákvæmlega þetta: Fulltrúar; málsvarar fólks, sem ætti að geta tekið vald sitt til baka og nýtt rétt sinn til beinnar ákvarðanatöku. Það væri síðan viðfangsefnið að finna hvað væri tæknilega gerlegt í þessu efni. Þar væri að mörgu að hyggja og einnig ýmsu sem sneri að þeirri umgjörð lýðræðisins sem við byggjum við og þá ekki síst að stjórnmálaflokkum. Flokkarnir yrðu að skynja sinn vitjunartíma, sá tími væri senn liðinn að þeir gætu leyft sér að vera þröngt valdaafl - þeir yrðu að verða sveigjanlegri og opnari en til þessa enda ljóst að mikilvægustu málefni samfélagsins verði ekki útkljáð á þeirra vettvangi í framtíðinni heldur í almennri atkvæðagreiðslu.
 Ef menn hins vegar vildu fara nánar út í líklegar afleiðingar af beinu lýðræði , þá teldi ég að hinn "eigingjarni" kjósandi myndi ekki eyðileggja velferðarkerfið og varla koma á dauðarefsingu  enda væri reynslan af beinu lýðræði ekki í þessa veru. Ég nefndi ekki þá staðreynd að skoðanakannanir á Íslandi hefðu ítrekað sýnt að yfirgnæfandi meiri hluti væri fyrir því að borga hærri skatta ef þeir ættu að fara í bætt heilbrigðiskerfi.
Við yrðum að horfast augu við það að þátttaka í kosningum til fulltrúasamkundna væri ört dvínandi og yrði að finna leiðir til að styrkja lýðræðið og nýta til þess alla þá tækni sem nú byðist.
Fólk sætti sig ekki við það eitt að vera neytendur í hinum pólitíska heimi. Fólk vildi og ætti rétt á því að verða framleiðendur hugmynda og ákvarðana  í ríkari mæli en fulltrúalýðræðið byði upp á.
Niðurstaða sem allir gátu sætt sig við var sú að nýi og gamli tíminn yrðu að átta sig hvor á öðrum. Að mörgu leyti stæðum við á tímamótum og væri verkefnið að sjá til þess að fulltrúalýðræðið nýtti sér tæknilega möguleika til að víkka út landamæri lýðræðisins.

Fréttabréf