VAR BESTA FÓLKIÐ VALIÐ?

RÚV - niðurskurður Hákólabíó

Boðaður niðurskurður og í kjölfarið uppsagnir á Ríkisútvarpinu - RÚV ohf - vekja furðu og reiði.

Svo mikla reiði að Háskólabíó var við það að springa svo fjölmennur var baráttufundurinn sem haldinn var þar í dag. Hvergi sá ég fundinn auglýstan. Ég frétti af honum vegna þess að vinur minn sendi mér skilaboð um stað og stund.

Og ég mætti ásamt tengdamóður minni á tíræðisaldri.

Ræður voru fluttar - hver annarri betri og ályktun var samþykkt þar sem aðförin að Ríkisútvarpinu var harðlega fordæmd.

Það var hiti í ræðumönnum og ekki síður í salnum. Hann tók vel undir. Best og mest þegar starfsfólki sem hafði verið sagt upp voru þökkuð vel unnin störf. Þá stóð salurinn upp og klappaði lengi og vel.

Hið furðulega við þessar uppsagnir er hver það voru sem fengu uppsagnarbréf í hendur. Allt fólk úr hágæðaflokki sem dagskrárgerðarfólk.

Það var ekkert undarlegt að spurt hafi verið hvort þetta væri liður í einhverri fléttu. Menn hreinlega trúa því ekki að þetta geti hafa gerst! Sjálfur er ég að vona að þetta hafi verið slys.

Mönnum getur orðið á. En ef þetta er slys þá er þetta slys sem hægt er að laga - með því að draga uppsagnirnar til baka.

Það er ekki búið að samþykkja fjárlög. Niðurskurðurinn er ekki orðinn að veruleika. Ekki enn. Ríkisstjórnin getur enn séð að sér. Gefum henni færi á því.

Útvarpsstjóri og stjórn stofnunarinnar - meirihluti stjórnar - geta enn undið ofan af ákvörðunum sem ég hygg að landsmenn almennt séu mjög ósáttir við.

Hvernig væri að gera það?

Fréttabréf