HVAR ER HALLDÓR Í FRAMBOÐI?

Í framtíðinni verður án nokkurs vafa hugað að nýjum samgöngumáta
á þéttibýlissvæðinu á suðversturhorni landsins.
Almenningssamgöngur. strætisvagnar, lestir, sporvagnar munu leysa
einkabílinn að einhverju leyti af hólmi - ekki alveg, en að nokkru
leyti. Þessar breytingar eru í gerjun. Sérstakt framtak á síðasta
kjörtímabili til að efla almenningssamgöngur er vísbending um það
sem koma skal.
Þessi framtíð er ekki langt undan.
Framsýnir stjórnmálamenn hljóta að hugsa í nýjum lausnum. Mér
sýnist sá ágæti maður, Halldór Halldórsson, sem skipar fyrsta sætið
á D-lista, sjálfstæðismanna í Reykjavík ekki hugsa í nýjum
lausnum, bara nýjum hraðbrautum og fyrir ennþá fleiri bíla.
Halldór segist vilja byggja hraðbraut út frá Suðurgötunni í
vesturbæ Rekjavíkur yfir Skerjafjörðinn og út á Álftanes, til að
taka við bílaumferð af Kópavogs-, Hafnarfjarðar- og
Álftanessvæðinu.
Spennandi? Það er eftir því frá hvaða sjónarhóli málið er
skoðað. Hafnfirðingar og einhverjir Suðurnesjamenn kunna að hrífast
af þessum hugmyndum. Varla Álftnesingar og alls ekki Vesturbæingar
í Reykjavík. Alla vega ekki þeir sem búa við Suðurgötuna,
Ægissíðuna, Hagana þar uppaf eða í Skerjafirði. Þarna
þekki ég nokkuð vel til. Mér heyrist Halldór Halldórsson ekki sópa
að Sjálfstæðisflokknum atkvæðum á þessu svæði með tillögum sínum.
Er hann ekki örugglega í framboði í Reykjavík?
Ég skal vissulega taka undir það sjónarmið sem oft er haldið á loft
að æskilegt er að hugsa heildstætt fyrir höfuðborgarasvæðið allt
saman. En það þarf líka að hugsa með framtíðarhagsmuni í huga. Þá
dugir ekkert annað en raunsæi. Við hljótum að huga að nýjum
samgöngumáta. Umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Ekki
bara fjölga bílum. Nema okkur langi til að verða eins og Houston.
En þar er Halldór Halldórsson ekki í framboði fremur en í
Hafnarfirði.