Fara í efni

ÓKEYPIS Á GEYSI Á SUNNUDAG

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 28.03.14.
Ég vissi aldrei alveg hvort það var satt eða logið, sem sagt var um  Mobutu Sese Seko einræðisherra í Kongó, síðar Zaire, á árunum 1965 til 1997, að hann hefði haft ráð undir rifi hverju  til að hygla stuðningsmönnum sínum og ættmennum.
Ef ættmenni gerðust fjárvana hafi einfaldlega verið komið upp nýju tollhliði á alþjóðaflugvellinum í höfðuborginni Kinshasa. Þar hafi ferðamenn verið rukkaður og andvirðið látið renna beint ofaní fjölskylduvasann. Þetta þótti mér að vísu alltaf lygilegt en þó ekki eins lygilegt og það sem nú er að gerast á okkar Ísalandi.

Þeir borgi sem "njóta"!

Þar eru einstaklingar farnir að taka sér vald til að rukka ferðamenn fyrir að njóta þess sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Þeir eiga að greiða "sem njóta" sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, fyrir nokkrum dögum og tók þannig undir með gjaldheimtumönnum, sagði í ofanálag að hin ólöglega gjaldheimta hafi tekist einstaklega vel í Kerinu þar sem eigendur fóru nýlega að rukka þvert á lög! Þó skal þess getið að aðrir tónar og fallegri hafa einnig heyrst frá ferðamálaráðherranum.
Ríkisskattstjóri bætti síðan gráu ofan á svart með því að segja að hin ólöglega gjaldheimta væri skattskyld. Við það hljóta ýmsar spurningar að gerast áleitnar. Ef rétt er, sem ég hygg að fáir deili um, að gjaldtakan sé ólögleg, þá hlýtur afraksturinn að flokkast undir þýfi. Varla er þýfi skattskylt? Af öðru þekki ég ríkisskattstjóra en að vilja ekki fara að lögum!

Hvers vegna ekki lögbann?

Sem betur fer er að finna fólk í stjórnsýslunni sem reynir að stöðva þennan ólöglega verknað og var nýlega krafist lögbanns á rukkun á Geysisvæðinu. Nú brá svo við að sýslumaðurinn í umdæminu neitaði að verða við þessari kröfu og er það óuppgert í fjölmiðlum á hvaða forsendum hann geti gert slíkt nema þá að um formgalla á beiðninni sé að ræða. Ekki hefur þetta verið brotið til mergjar í fjölmiðlum að því er ég best veit.
Hvað sem þessu líður þá er ljóst að stjórnvöld eru að missa tök á málinu. Einstaklingar sem telja sig eiga náttúru undur Íslands standa keikir með rukkunarvélar og hafa af fólki fé og glotta við tönn.

Börn sem vilji ókeypis sleikjó!

Rukkunarstjórinn á Geysisvæðinu sagði í viðtali við Sjónvarpið að flestir borguðu eins og upp væri sett en vissulega væru til einhverjar undantekningar, einstaklingar ósáttir við þetta nýja fyrirkomulag. Þetta minnti á börn, sagði hann, sem hefðu fengið sleikibrjóstsykurinn sinn ókeypis til þessa en þyftu nú að borga. Einhvern veginn svona komst hann að orði.
Norður í Mývatnssveit er síðan maður sem gerir tilkall til sjálfs Dettifoss. Hann skrifaði blaðagrein nýlega þar sem hann kvaðst hafa í hyggju að rukka fyrir aðgang að þessari náttúruperlu. Í greininni, sem birtist í Morgunblaðinu, nefndi hann fleiri náttúruperlur „sem gætu staðið undir og séð um gjaldtöku ... til dæmis Geysir, Kerið, Jökulsárlón, Dyrhólaey, Reynisfjörður, Dettifoss/Selfoss, Leirhnjúkasvæðið, hverir Námafjalls, Gjástykki, Gullfoss og Dimmuborgir, o.fl, o.fl."

Afsláttur fyrir örykja og börn

Landeigandinn kvaðst sjá það fyrir sér að öryrkjar og börn fengju að skoða Dettifoss og Gullfoss ókeypis  en að gjaldtakan skyldi vera „undir stjórn þeirra sem hafa umráðaréttinn á svæðinu og þeir skuli ráða því hvað gert verður til uppbyggingar og verndunar náttúrunnar." Það er nefnilega það, ekki nóg með að þeir rukki heldur ætla þeir líka að ráða allri umgjörð við nátturuperlur Íslands.
En það eru fleiri sem fá vatn í munninn. Fyrir áramótin fluttu fjölmiðlar fréttir af því að ýmsir landeigendur og sveitarstjórnarmenn væru farnir að ókyrrast yfir því að geta ekki byrjað að rukka fólk fyrir að njóta náttúrunnar. Seljalandsfoss og Skógarfoss voru nefndir í þessu sambandi.
Ekkert hef ég við það að athuga að greiða gjald fyrir að nýta aðstöðu  og þjónustu við ferðamannastaði. Sums staðar hefur tekist vel til við þjónustustöðvar, til dæmis við Geysi í Haukadal. Margoft hef ég komið þangað með erlenda gesti og í sumum tilvikum hópa og snætt þar málsverð. Ráðstefnu hef ég setið við Geysi í tvígang við mikla ánægju þátttakenda. Á Skógum hefur verið komið upp merku safni og margvísleg þjónusta í boði. Fyrir allt þetta er sjálfsagt að taka gjald.

Forðumst öfgar sölumennsku

Þó þarf að fara varlega í þessu efni  og forðast ókosti og öfgar markaðsvæðingar og sölumennsku við ferðamannastaði. Hrikaleg dæmi fyrirfinnast erlendis um skrumskælingu á náttúruperlum og sögulegum minjum.
Að undanförnu hefur forsvarsfólk í ferðaþjónustu varað við því að rukka ferðamenn með þeim hætti sem nú er farið að gera við Kerið og Gullfoss. Og erlendir aðiljar í ferðabransanum hafa komið fram í fjölmiðlum með kurteisisleg varnaðarorð. Hlustum á þau. Og tökum þessa umræðu nú í alvöru.

Stöðvum lögleysuna

Það er hins vegar algert skilyrði að þegar í stað verði lögleysan stöðvuð. Það ber yfirvöldum að gera undanbragðalaust. Það velkist ekki fyrir lögreglustjórum og sýslumönnum sem fara með lögregluvald að senda lögreglu á þjófa, fórnarlömbunum til verndar.
Hvers vegna fer lögreglan þá ekki í Kerið þar sem menn hafa fé af ferðafólki eða á Geysisvæðið til þess að stöðva lögleysuna þar?
Auðvitað á almenningur að fylkja liði á þessa staði til þess að standa á löglegum rétti sínum. Fólk á einfaldlega að fara að Kerinu og inn á Geysissvæðið án þess að greiða fyrir það. Ef fólki er meinaður aðgangur eða áreitt á einhvern hátt ber að kæra það til lögreglu.
Ef það verður hins vegar ekki fyrir áreiti er það til marks um að almenningur er byrjaður að hrinda af sér þessum ágangi, staðráðinn í því að standa vörð um lögin í landinu.
Þetta ætla ég að gera á Geysisvæðinu á sunnudag klukkan hálf tvö.