Fara í efni

ÁBYRG MARKAÐSSTOFA NORÐURLANDS

Markaðsstofa Norðurlands
Markaðsstofa Norðurlands


Það er einkar ánægjulegt að sjá hvernig samfélagið er að bregðast við gjaldheimtumönnunum sem ætla að taka sér vald til að rukka ferðamenn, í eigin þágu, innlenda sem erlenda, sem vilja njóta íslenskrar náttúru. Gott dæmi um þetta er nýleg yfirlýsing frá Markaðsstofu Norðurlands sem ég hvet fólk til að lesa. Eina sem ég fyrir mitt leyti geri athugasemdir við er niðurlagið varðandi ferðapassa sem ferðamálaráðherrann hefur talað fyrir en það er önnur saga.
Öll röksemdafærsla Markaðsstofu Norðurlands er ígrunduð og ábyrg. Þar segir m.a. : "Óhætt er að segja að ferðaþjónusta á Norðurlandi sé uggandi yfir þeirri þróun sem nú blasir við en gjaldtaka sú sem landeigendur í Reykjahlíð boða er ekki í takt við þá gestrisni sem ferðaþjónustan á Norðurlandi leggur sig fram um að sýna. Mikilvægt er að nú þegar verði skoðað hvort og hvernig megi koma í veg fyrir að aðgengi að landinu verði heft með þessum hætti, og íslenskum sem og erlendum ferðamönnum gert ókleift að ferðast um landið nema með takmörkuðu aðgengi ef þessi þróun heldur áfram."

Yfirlýsingin í heild sinni er hér:
Markaðsstofa Norðurlands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fyrirhugaðra aðgerða landeigenda í Reykjahlíð í Mývatnssveit sem hafa nú sett í loftið drög að vefsíðu þar sem auglýstur er til sölu passi sem gildir á þrjú svæði, Dettifoss, Hveri og Leirhnjúk-Kröflu. Innifalið í þessu svokallaða náttúrugjaldi er skoðun á Víti. Gjaldtakan er sögð vera til þess „að byggja upp veglegar þjónustumiðstöðvar með salernum, veitingaraðstöðu o.fl. og að auki verður allt öryggi ferðamanna bætt til muna. Lagðir verða margir kílómetrar af göngustígum, bæði úr malbiki og trjáviði. Útsýnispallar/útskot verða settir upp á ýmsum stöðum við náttúruperlurnar."

Óhætt er að segja að ferðaþjónusta á Norðurlandi sé uggandi yfir þeirri þróun sem nú blasir við en gjaldtaka sú sem landeigendur í Reykjahlíð boða er ekki í takt við þá gestrisni sem ferðaþjónustan á Norðurlandi leggur sig fram um að sýna. Mikilvægt er að nú þegar verði skoðað hvort og hvernig megi koma í veg fyrir að aðgengi að landinu verði heft með þessum hætti, og íslenskum sem og erlendum ferðamönnum gert ókleift að ferðast um landið nema með takmörkuðu aðgengi ef þessi þróun heldur áfram.

Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur hvatt stjórnvöld til að bregðast við yfirvofandi hættu á óafturkræfum náttúruspjöllum sem steðja að fjölförnum ferðmannastöðum með fjölgun ferðamanna og hefur í vetur unnið náið með stjórnvöldum að útfærslu á náttúrupassa fyrir ferðamenn. Með þeirri útfærslu yrði til öflugur sjóður sem nýttur yrði til uppbyggingar og verndunar ferðamannastaða um land allt og því ekki þörf á því að gjaldtaka verði sett upp hér og þar um landið. Telur markaðsstofan tillögur þessar sanngjarnar auk þess sem þær koma í veg fyrir að ferðamenn hvort sem eru innlendir eða erlendir þurfi stöðugt að taka upp veskið á leið sinni um landið til að greiða fyrir aðgang að náttúruperlum.

Sjálfsagt mál er að landeigendur sem og aðrir ákveði að setja upp ferðaþjónustu og taki þóknun fyrir veitta þjónustu, þegar lagt hefur verið í fjárfestingu á svæðinu og þjónustan byggð upp. Þannig geta þeir haft arð af eign sinni án þess að taka greiðslur aðeins fyrir eðlilegan aðgang að sérstæðum náttúruperlum. Óskipulögð gjaldtaka eins og nú er boðuð skaðar orðspor Íslands erlendis og er úr takti við þá ímynd sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikla vinnu í að kynna.

Ferðaþjónustan hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að hafa góðan fyrirvara og aðdraganda að allri gjaldtöku við náttúruperlur. Þessar vikurnar er verið að skýra óvissu um lögmæti slíkrar innheimtu og því fráleitt annað en að bíða með þessi áform að minnsta kosti meðan beðið er niðurstöðu. Ferðaþjónustuaðilar hafa þegar undirbúið það að sniðganga þau svæði þar sem nú á að hefta aðgengi og stuttur fyrirvari skaðar fyrirtæki sem þegar hafa selt sínar ferðir í sumar enda hefur ekki verið haft samráð við ferðaskipuleggjendur varðandi sölu á aðgöngumiðum. Þessi þróun mun hafa slæm áhrif á ferðaþjónustuna í heild sinni.

Markaðsstofa Norðurlands hvetur til samstöðu um uppbyggingu á náttúrupassa í takt við þær tillögur sem fram hafa komið hjá ráðherra ferðamála. Nauðsynlegt er að standa saman um þá leið sem byggir á áframhaldandi opnu aðgengi að náttúruperlum og sjálfbærri uppbyggingu á ferðamannastöðum.