Fara í efni

EIGUM VIÐ AÐ REYNA?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20.04.14.
Það eru til tvenns konar frí: Allir í fríi og allt lokað eða fáir í fríi og allt opið. Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt, löggæslan er vissulega alltaf  til staðar, alltaf er unnið á spítölunum og slökkvilið er alltaf í viðbragðsstöðu. Og margir aðrir. Með öðrum orðum, grundvallarþjónusta er alltaf til staðar. En þetta eru höfuðdrættirnir: Um jólin er lokað og á páskum einnig. Í seinni tíð hefur þjónustuhugtakið verið víkkað út í þessum allsherjarfríum okkar. Sífellt fleiri búðum og afþreyingarfyrirtækjum er haldið opnum svo við hin getum skemmt okkur og  keypt í soðið, helst allan sólarhringinn.
Hvað þýðir það? Það þýðir að einhverjir í fjölskyldunni eru á vinnuvakt. Gott fyrir þau sem þjónustunnar njóta en verra fyrir fjölskylduna.
Fyrr á tíð voru línurnar skýrari. Annað hvort voru flestir í fríi eða flestir í vinnu. Heldur finnst mér vera eftirsjá eftir þessum tíma. Ég er með öðrum orðum því fylgjandi að slökkva á þjónustusamfélaginu eftir því sem kostur er um jól og páska. Allir eru þá meira og minna látnir í friði. Flestir fjölskyldumeðlimir í fríi, lítið um utanaðkomandi áreiti, símhringingar í lágmarki nema innan fjölskyldunnar. Og fjölskyldan ræktar innbyrðistengslin. Hún kemur saman eða hver og einn sinnir hugðarefnum sínum; les bækur, fer í göngutúra, skoðar Geysi gjaldfrjálst og Kerið og Dettifoss eða hlustar á útvarp. Ríkisútvarpið sýnir alltaf hvað í því býr á jólum og páskum. Hátíð er í bæ og ró yfir öllu.
Páskar hafa vinninginn yfir jólin að þessu leyti. Fríið er lengra - fimm dagar - og hreingerningar- og undirbúningsæðið, sem að jafnaði rennur á þjóðina um jól, er ekki eins ofsafengið. Um páskana er kyrrðin meiri  og  hvíldin að sama skapi. Hún er  nánast fullkomin.
Ef til vill ætti það að verða okkur til umhugsunar hvort ráð væri að leita ánægjunnar og gleðinnar í lífinu á fábreyttari hátt en sölumenn á markaðstorgi hvetja okkur til að gera með keyptri neyslu af margvíslegu tagi. Alltaf meira og meira! Hvernig væri að hafa það minna og minna? Það kæmi mér ekki á óvart að ánægjan og lífsgleðin gæti risið í öfugu hlutfalli. Eigum við að gera tilraun?
Gleðilega páska.