Fara í efni

ÞÓRIR MEÐ SKÝRA AFSTÖÐU

Þórir Garðarsson
Þórir Garðarsson

Hér á síðunni beindi ég tveimur spurningum til frambjóðendanna tveggja til formennsku í Samtökum ferðaþjónustunnar en kosningin fer fram á morgun, fimmtudag. Þeir eru Grímur Sæmundsen og Þórður Garðarsson. Ég vildi vita hver afstaða þeirra væri til gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum og þá sérstaklega þess sem nú á sér stað við Geysi í Haukadal. Jafnframt hef ég hvatt fjölmiðla til að ganga eftir svörum þeirra við þessum spurningum sem nú brenna heitast á ferðaþjónustunni.

Þórir Garðarsson hefur brugðist við beiðni minni og leyfi ég mér að birta svar hans hér:

Sæll Ögmundur og þakka þér fyrir áhuga og spurningarnar sem þú kemur með til okkar frambjóðenda.
Mér er það bæði ljúft og skylt að svara þeim
.

1. Hver er afstaða þín gagnvart náttúruperlum Íslands?

Náttúruperlurnar eru þjóðargersemar sem við eigum öll saman rétt til að njóta. Að sama skapi ber okkur skylda til að tryggja varðveislu þeirra og viðhald, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir. Að mörgu leyti má líta á náttúruperlurnar sem spegil þjóðarinnar, upplifun okkar af að vera Íslendingar.

2. Hver er afstaða þín til gjaldtöku sem nú á sér stað við Geysi í Haukadal?

Ég er alfarið á móti þessari gjaldtöku, enda er markmið hennar ekki fyrst og fremst að varðveita þessar óviðjafnanlegu náttúruperlu heldur að afla tekna fyrir landeigendur í kringum Geysi . Þessi gjaldtaka veldur neikvæðri upplifun ferðamanna og hún stríðir að sjálfsögðu gegn lögbundnum rétti okkar til að fara um landið.

Ég tel hins vegar engan vafa leika á því að ferðamenn eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til viðhalds og varðveislu vinsælla ferðamannastaða í náttúru Íslands. Það er kolrangt að ætla að innheimta það gjald á hverjum og einum áfangastað, heldur tel ég einfaldast og hagkvæmast að bjóða ferðamönnum að greiða hóflegt náttúruverndargjald á landamærastöð þegar þeir koma til landsins eða yfirgefa það. Miðað við þann fjölda ferðamanna sem hingað koma, þá þarf þetta gjald ekki að vera hátt til að skila nægum tekjum til að kosta rekstur, endurbætur, uppbyggingu, viðhald og verndun vinsælla ferðamannastaða, óháð því hvort þeir eru á vegum hins opinbera eða í eigu einkaaðila.

Kær kveðja,
Þórir Garðarsson


Þá vitum við það. Annar frambjóðendanna er andvígur gjaldtöku við ferðamannastaði. Ég þakka Þóri Garðarssyni svarið. Ef dæma á skal af jákvæðum viðbrögðum fólks úr ferðaþjónustu við mótmælum við Geysi að undanförnu þá talar hann þeirra máli. Gerir Grímur það? Fróðlegt væri að heyra hans svar.