Fara í efni

AÐ HUGSA VERKFALLSRÉTTINN UPP Á NÝTT

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18.05.14.
Í vikunni voru sett lög á flugmenn. Verkfall þeirra hafi skaðað þjóðarhag  og auk þess séu flugmenn hálaunamenn sem ekki hafi siðferðilegan rétt á því að beita verkfallsvopni sjálfum sér til framdráttar - á kostnað annarra. Þannig var talað í Alþingi.

Um síðustu áramót voru áhöld um hvort láglaunafólk  færi í verkfall. Þar á bæ voru launin undir tvö hundruð þúsundum og var krafan um að þoka þeim upp á við.
Menn tóku bakföll. Sérstaklega höfðu milljóna-króna-forstjórarnir uppi stór orð um að stöðugleikanum yrði ógnað ef lágu launin yrðu hækkuð.

Mig grunar þó að forstjóratalið hafi ekki endurspeglað almennan vilja þjóðarinnar. Því má spyrja hvort sett hefðu verði lög á verkfall ef samtök láglaunafólks hefðu stöðvað flugið.

Sennilega hefði það verið gert, en stjórnvöld hefðu síður komist upp með það gagnvart almenningi. Fólki hefði fundist lagasetning ranglát.

Það er nefnilega siðferðilegur þráður í þessari umræðu. Almennt getur fólk, hygg ég, fallist á að launafólk skuli hafa rétt til þess að leggja niður vinnu ef kjörin eru óásættanleg. Og verkfallsvopnið held ég að flestir vilji að sé til staðar sem öryggisventill í réttlátri kjarabaráttu. En það eru líka lykilhugtökin, réttlát kjarabarátta.

Hvað með að hugsa verkfallsréttinn upp á nýtt eins og kallað var eftir á Alþingi? Já, gerum það endilega. Ég legg til að í stað þess að semja um hækkun lægstu launa semjum við um leyfilegan kjaramun í launakerfunum. Setjum svo að samið yrði um að sá hæst launaði mætti aldrei hafa meira en þreföld laun hins lægsta. Ef sá hæsti ætlaði síðan að knýja fram kjarabætur með verkfalli umfram þennan ramma, skoðaðist slíkt ólögelgt. Ég myndi samþykkja þetta.

Mér býður í grun að forstjóri Icelandair, sem jafnframt er formaður Samtaka atvinnulífsins,  myndi hætta að hneykslast á kjarabaráttu láglaunafólks. Hans kjör væru nú  vísitölubundin við hlaðmanninn í Leifsstöð. Ef menn eru til í þessa vegferð skal ég taka þátt í að ræða um endurskoðun á verkfallsrétti.

En gæti þetta gerst? Jákvæð teikn eru á lofti. Finnair ætlaði að lækka kjör flugáhafna um fimmtung. Þjóðarhagur í húfi sögðu forstjórar og stjórnvöld.  Verkfalli var hótað - nema forstjórarnir lækkuðu eigin bónusa. Fallið var frá launalækkun - alla vega í bili. Húrra segi ég. 

En réttlátur kjaraheimur er fjarri því að vera veruleikinn.  Þess vegna verður verkfallsvopnið ekki gefið eftir.  Réttindi launafólks  - afrakstur hundrað ára baráttu  - eru í húfi. Þess vegna greiddi ég atkvæði gegn lögum á flugmenn.