AÐ KUNNA AÐ FARA MEÐ VALD

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29.06.14.
MBL- HAUSINNSkólaárið 1966/7 var ég í breskum heimavistarskóla. Ég var 18 ára. Sergeant Pepper plata Bítlana kom út um sumarið. Þetta var bjartsýnn tími. Uppreisn æskunnar lá í loftinu. Skólinn minn var þar á þveröfugu róli. Hann var af gömlu gerðinni. Miklar reglur og mikill agi. Forstöðukennarinn á heimavistinni kallaði mig einhverju sinni á sinn fund. Hann vildi heyra sjónarmið hins gestkomandi drengs: "Hvað finnst þér um okkur?"

Ég sagðist hafa kynnst mörgu góðu en líka ýmsu gagnrýniverðu. "Þið eruð með of margar reglur og of mörg boð og bönn."  Margar reglurnar væru þannig að fólk beinlínis langaði til að brjóta þær. "Þið eigið að gera meira af því að tala um fyrir fólki. Þið leggið blátt bann við að ganga á grasi. Samt gera það allir! Hvernig væri að mælast til þess að menn forðuðust að ganga mikið á grasinu því með miklum ágangi bældist það og yrði jafnvel að svaði."  Þetta myndu allir skilja og væru fyrir vikið  líklegir að virða. "Þið eigið að hafa reglur fáar, rökréttar,  skiljanlegar og sanngjarnar. Það er vont að hafa reglur sem enginn virðir. Það eyðileggur þær reglur sem við viljum að sé fylgt til hins ítrasta. Fyrir bragðið hættir fólk að virða reglur."

Kennarinn tók þessum ábendingum vel. Skömmu síðar var grasgöngubannið numið brott en vinsamleg ábending um að ganga ekki í grasinu komin í staðinn. Eftir sem áður voru önnur boð og bönn við lýði. Mörg þeirra voru í góðu lagi frá mínum bæjardyrum séð.

Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Samt er áfengi auglýst. Meira að segja í Ríkisútvarpinu. Lögin eru með öðrum orðum ekki virt. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa viljað láta framfylgja þessum lögum og unnið að því lengi. Bæði með því að breyta lagatextanum og síðan eftirfylgni. Ef á daginn kæmi að mitt sjónarmið væri í minnihluta þætti mér skömminni skárra að lögunum yrði breytt og auglýsingar heimilaðar. Allt er betra en hafa lög sem eru ekki virt. Þá brotnar réttarríkið.

Og nú er einmitt verið að reyna að brjóta réttarríkið. Nokkrir óprúttnir landeigendur eru farnir að rukka fyrir aðgang að náttúrugersemum Íslands í ábataskyni. Það er bannað í lögum. Ekki vil ég afnema þau lög enda segir mér hugur um að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sé þeirrar skoðunar einnig. En þá gerist það að yfirvöldin láta það átölulaust  þegar rukkarar sækja að saklausu fólki til að hafa af því fé.

Viðkomandi ráðherrar segjast ætla að láta kanna lögin! Það má gera á tíu mínútum með því að lesa einfaldan og skýran lagatextann. Og þeir lögreglustjórar sem láta þetta óátalið í sínum umdæmum verða að svara því hvers vegna þeir stoppi þá sem grunaðir eru um að aka undir áhrifum áfengis og ákæri síðan sannnist að þeir hafi ekið drukknir. Og sjái lögreglumaður mann berja mann er gripið í taumana. En mennina með posavélarnar stöðva þeir hins vegar ekki. Þeir eru án vafa að brjóta lög. Hver er skýringin?

Ég vildi ekki láta banna að ganga á grasinu í Brentwood skólanum. Nú vil ég ekki láta banna mér að ganga að Kerinu og Leirhnjúki  nema ég borgi - og það þvert á lögin í landinu!

Getur verið að stjórnvöld í landinu séu í vitorði með brotamönnum? Er markmiðið að skapa þeim hefðarrétt? Mikilvægt er að stjórnvöld, hvar sem þau er að finna, kunni að fara með vald sitt. Þegar svo er ekki er ástæða til þess að hafa af því áhyggjur.

Fréttabréf