Fara í efni

SIGURÐUR HARALDSSON KVADDUR

Sigurður Haraldsson
Sigurður Haraldsson
Í dag jarðsöng Sr. Örn Bárður Jónsson vin minn Sigurð Haraldsson í Neskirkju, sem lést langt fyrir aldur fram , 5. júní síðastliðinn, sextíu og sex ára að aldri. En lífslánið verður ekki í árum talið, eins og séra Örn Bárður komst að orði í ágætri útfararræðu sinni, heldur hvernig fólki vegnar í glímunni við lífið. Sigurði vegnaði vel í þeirri glímu, stóð sig vel í starfi, átti góða fjölskyldu og vinahóp stóran.
Mér er eftirsjá í Sigurði en við höfðum mikið saman að sælda á menntaskólaárum okkar og vorum heimagangar á heimili hvors annars um skeið. Varð mér hugsað til þess undir athöfninni að aldrei minnist ég þess að okkur hafi orðið sundurorða.

Eftirfarandi minningargrein birtist eftir mig í dag í Morgunblaðinu:  

Móður minni þótti vænt um Sigurð Haraldson enda var hún góður mannþekkjari. Sigurður var tíður gestur á heimili mínu þegar við vorum í fimmta og sjötta bekk menntaskóla og var það gagnkvæmt af minni hálfu á hans heimili. Þar vandi ég komur mínar á þessum árum og naut gestrisni og velvildar foreldra Sigurðar, þeirra Aðalheiðar og Haraldar.
Við Sigurður lásum iðulega saman og naut ég mjög góðs af því. Við urðum því vel kunnugir og góðir vinir. Leiðir okkar lágu ekki mikið saman á síðari árum en nokkuð þó og þegar við hittumst var sem við hefðum alla tíð umgengist náið eins og gerist gjarnan með þá sem bindast vinaböndum á yngri árum. Þau bönd trosna ekki auðveldlega.
Sigurð hitti ég síðast fyrir nokkrum dögum og var hann þá á líknardeild Landspítalans. Þótti mér gott að ná fundum hans áður en hann kvaddi.
Sigurður tók örlögum sínum af æðruleysi. Hann sagði að vel færi um sig og ekki yfir neinu að kvarta miðað við aðstæður sínar. Hann naut ástríkis eiginkonu sinnar og fann ég fyrir því þá stund sem ég var hjá honum hve mikils virði hún var honum.
Á borðinu var tómt glas og sá ég ekki betur en á botni þess væri rauðvínstár. Sigurður staðfesti aðspurður að svo væri. Ég sagðist geta mér þess til að vínið væri spænskt - vitandi um tengsl Sigurðar við Spán - og sagðist vona að þetta væri sæmilega góður árgangur. Sigurður kímdi og kvað svo vera. Bætti svo við að þótt ýmislegt væri að gefa sig þá væri hann staðráðinn í að verða ekki viðskila við lystisemdir lífsins fyrr en í fulla hnefana.  
Ég minnist Sigurðar sem sanngjörnum í dómum um menn og málefni. Hann var hófsemdarmaður en skapmaður var hann ef því var að skipta. Var það einkum ef hann taldi sig sjá órétti beitt. Við slíku brást hann ákveðið og varð þá illa haggað.
Sigurður fellur frá langt um aldur fram. Hans var saknað þegar fjörutíu og fimm ára stúdentsárgangurinn í MR kom nýlega saman til endurfunda. Menn göntuðust með það að árgangurinn virtist batna með árunum - likt og eðalvínin. En aldrei verður okkar ágæti árgangur samur án Sigga Haralds. Þar er nú skarð fyrir skildi og veit ég að þar mæli ég fyrir munn skólafélaga og vina úr 6. DE svo og annarra í árgangnum.
Við sendum Jónu og börnum og barnabörnum þeirra Sigurðar svo og stórfjölskyldunni allri, innilegar samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill en minningin yljar.

Á þessari slóð má nálgast útfararræðu séra Arnar Bárðar:  http://ornbardur.com/2014/06/12/sigurdur-haraldsson-1948-2014/#more-1343