Fara í efni

SKILUÐU AUÐU UM FLUGVÖLLINN

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 03.06.14.
Sannast sagna þótti mér líklegt að eitt af stóru málunum í nýafstaðinni kosningabaráttu í Reykjavík yrði flugvallarmálið - hvort Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram i Vatnsmýrinni eða hann fluttur á brott þaðan, um langan veg eða skamman, til Keflavíkur eða út í Skerjafjörðinn.
Framsóknarflokkurinni vildi greinilega gera málið að kosningamáli, án sýnilegs árangurs þó, að nokkru leyti Dögun einnig - en fráfarandi stjórnarflokkar í borginni, Samfylkingin og Besti flokkurinn,  sem augljóslega verða áfram við völd, auk VG og hugsanlega einnig Pírata, skiluðu nánast auðu.

Engin afgerandi svör

Aðspurð um þetta efni voru þau fámál, greinilega staðráðin í því að láta ekki steyta á málinu. Í lokaþáttum svöruðu fulltrúar Samfylkingar og VG ekki öðru en að þau treystu „Rögnunefndinni", fulltrúi Bjartrar framtíðar (sem byggir á grunni Besta flokksins)  sagði ekkert liggja á, því flugvöllurinni væri hvort sem er ekki alveg á förum, en Píratar voru óræðir mjög, vísuðu þó til lýðræðis, sem vissulega er ágæt afstaða.
Flestum þessum aðilum varð hins vegar tíðrætt um sáttaferli og sáttanefnd en með þeim orðum er iðulega skírskotað til nefndar sem núverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, setti á laggirnar í október 2013 til að „ná sáttum" eða „miðla málum", þá væntanlega á milli almannaviljans annars vegar og vilja þeirra sem eru í minnihluta í málinu.

Samkomulag að engu gert

„Sáttaúrræðið" þótti mörgum harla undarlegt því samkomulag hafði verið gert hálfu ári áður - í apríl 2013 - milli ríkis og borgar sem virtist í ágætu samræmi við almannaviljann! Nú skyldi það hins vegar virt að vettugi til að „ná sáttum". Í nóvembersamkomulaginu var hlaupið frá þeim skilmálum og fyrirvörum sem áður höfðu verið settir, svo sem varðandi öryggisbraut, hvernig staðið skyldi að uppbyggingu á aðstöðu fyrir innannanlandsflugið, auk fyrirheita um að fjármunir sem fengjust fyrir landsölu skyldu allir renna til flugsins.

Gagnrýnivert ferli

Málið er mér skylt því það var ég sem undirritaði samkomulagið af hálfu ríkisins sem þáverandi innanríkisráðherra. Þótti mér miður og harla undarlegt að málið skyldi hálfu ári síðar sett í allt annað ferli;  umsýsluaðila ríkisins í fluginu, Isavia, ýtt út úr samráðs- og uppbyggingarferlum og fenginn þar í staðinn einstakur rekstraraðili í fluginu, Icelandair Group. Þetta var mjög óeðlileg ráðstöfun enda fráleitt að einu  fyrirtæki sé fengið ægivald yfir öðrum rekstraraðilum, sem auk þess eru í sama samkeppnisrekstri. Þetta upplegg til að „leita sáttar" sem einstakir rekstraraðilar, að ógleymdum byggingarverktökunum, gætu sætt sig við, var þannig gagnrýnivert frá upphafi og um það engin almenn sátt.

Myljandi minnihluti

En hvers vegna var brugðið á þetta ráð? Ástæðan var augljós: Ríkjandi öfl í borginni voru, samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum, komin í myljandi minnihluta í flugvallarmálinu. Þau þörfnuðust pólitískrar hjálpar og fengu hana frá skoðanasystkinum í innanríkisráðuneyti og ríkisstjórn.
En þar með er málinu ekki lokið. Mér býður í grun að sá yfirgnæfandi meirihluti sem vill flugvöllinn óhreyfðan, hafi lítinn áhuga á að eyðileggja Skerjafjörðinn til að rýma fyrir byggingarlandi og þóknast þannig  verktakabransanum eins og heyrst hefur að gæti orðið „sáttalausn".  

Í skóli ímyndaðrar sáttar

Ragna Árnadóttir og hennar nefnd er alls góðs makleg. Hún er einfaldlega að vinna verkefni sem henni var falið. Gagnrýniverðari er hins  vegar afstaða frambjóðenda sem komu sér undan því að gera þetta stórmál að kosningamáli og földu sig í skjóli einhvers sem þeir kölluðu „sáttanefnd" og „sáttaferli" án þess að með í sögunni fylgdi að málið hefði verið rifið upp úr sáttinni með skipun umræddrar nefndar.

Án umboðs í flugvallarmáli

Bagalegt er að flugvallarmálið skyldi ekki fá umræðu sem málefnið hefði verðskuldað. Það eitt að segja að frambjóðendur „treysti Rögnu nefndinni" er ekkert svar og engin afstaða, því við vitum ekki hvað þessi nefnd og hennar aðkeyptu sérfræðingar koma upp með. En fyrir vikið mega komandi borgaryfirvöld vita að umboð þeirra er nánast ekkert í málinu og eftir standa 70 þúsund undirskriftir sem vilja flugvöllinn óhreyfðan og þá jafnframt að byggingarverktakar verði ekki ráðandi í þessu né öðrum  skipulagsmálum í Reykvíkinga, sem því miður hefur verið um of.