Fara í efni

VANGAVELTUR UM SKULDALEIÐRÉTTINGU

hrægammar
hrægammar

Tvennt kemur upp í hugann við fyrirhugaða skuldalækkun heimila.

Í fyrsta lagi furðaði ég mig á því fjaðrafoki sem varð þegar Tryggvi Þór Herbertsson, sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um framkvæmd „leiðréttingarinnar"  reyndi að draga niður væntingar manna. Í ljós hefði komið, sagði hann,  að fjöldi umsækjenda hefði verið meiri en ætlað var og því minna í hlut hvers og eins ef menn ætluðu að halda sig við þann tekjustofn sem lagt var upp með. Framlagið væri háð fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni. Hárrétt hjá Tryggva og tímabært að segja þetta afdráttarlaust.
Ég tel fyrir mitt leyti að ganga þurfi lengra í fyrirvörum gagnvart leiðréttingunni. Tekjustofninn átti og á einvörðungu að vera skattur á þrotabú föllnu bankanna; hugmyndin er jú sú að lækka höfuðstól skuldara með því að flytja peninga frá þrotabúunum með skattlagningu yfir í vasa þeirra fyrrnefndu. Á þessari forsendu - og á þessari forsendu einni - var ég hlynntur aðgerðinni og studdi hana þótt ég gæti ekki greitt henni atkvæði í ljósi þess að ekki reyndist vilji til að grípa til tiltekinna jöfnunaraðgerða og taka sérstaklega á lánsveðum. Þess vegna sat ég á endanum hjá við atkvæðagreiðslu um málið. (Sjá, https://www.ogmundur.is/is/greinar/gerdi-grein-fyrir-afstodu-minni )


Í öðru lagi hef ég furðað mig á þerri bíræfni embættismanna sem hafa gert hag fyrirtækisins Auðkennis að sérstakri hugsjón sinni; að þeir skuli leyfa sér að nota skuldaleiðréttinguna til að þröngva öllum í áskrift hjá þessu fyrirtæki með því að gera hana að skilyrði fyrir skuldaniðurfærslu. Okkur er sagt að ekki dugi annað en öryggiskröfur Auðkennis til að tryggja að undirskrift umsækjenda haldi ef á reynir. Hvað þýðir það - fyrir dómstólum? Hvernig í ósköpunum ættu slíkar aðstæður að skapast? Og hverjir ákváðu að þetta skyldi vera svona? Sömu embættismenn og dregið hafa taum Auðkennis? Og hvers vegna er þessi undirskrift svona mikilvæg? Er það til þess að tryggja að viðkomandi einstaklingur hafi afsalað sér hugsanlegum rétti til að kæra niðurstöðu reiknimeistaranna? Ef útreikningar eru réttir er engan rétt að sækja af hálfu viðkomandi einstaklings - óháð undirskrift - ef þeir eru rangir þarf væntanlega að vera hægt að kæra og fá leiðréttingu. Réttarstaða gagnvart almennt orðaðri lagaheimild til skuldaleiðréttingar hlýtur svo að teljast óljós nema þá með tilvísan í einhvers konar jafnræðisreglu. Síðan má spyrja, ef hægt er að skila skattaskýrslu og fá greiddar vaxtabætur  á grundvelli veflykils Ríkisskattstjóra -  sem vel að merkja er ekki eins öflugur og Íslykill Þjóðskrár - hvers vegna er ekki hægt að staðfesta að menn hafi móttekið útreikninga Tryggva Þórs og félaga, og þess vegna, ef menn endilega vilja, látnir fallast á þá? Síðan má spyrja hvort ekki væri einfaldlega hægt að segja að hafi menn ekki gert athugasemd innan tiltekins tíma, skoðist það sem samþykki.