Fara í efni

BLESSAÐIR KERFISKALLARNIR

Gandri - Jóhann H. - MS
Gandri - Jóhann H. - MS

Ýmsir hafa kvatt sér hljóðs um Mjólkursamsölumálið og er það gott og eðlilegt. Mjólk og mjólkurafurðir eru undirstöðufæða, ekki síst ungviðisins, og skipta gæði og verðlag því grundvallarmáli. 
Ég hef tekið þátt í þessari umræðu og hafa nokkrir einstaklingar staðnæmst sérstaklega við minn málflutning.

Málefnaleg viðbrögð

Viðhorf sumra þeirra eru jákvæð, annarra neikvæð eins og við er að búast í deilumáli. Forstjóri, Samkeppniseftirlitsins, Gunnar Páll Pálsson, bregst við gagnrýnum skrifum mínum í garð Samkeppniseftirlitsins með prýðilegri og málefnalegri grein í DV í dag.
.
Rithöfundur verður miður sín og fréttastjóri missir málið

Viðbrögð fréttastjóra DV, Jóhanns Haukssonar,  við grein minni, eru hins vegar nokkuð á annan veg. Jóhann Hauksson, fréttastjóri, segist hafa orðið það sem hann kallar „kjaftstopp" við lestur hennar.
Þetta er nokkuð áþekkt viðbrögðum Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, sem virðist eiga það sameiginlegt með Jóhanni Haukssyni, að horfa á málin fyrst og fremst á fagurfræðilegum forsendum kerfismanns,  óháð því hverju kerfið skilar. Ég hef leyft mér að spyrja um árangur en kerfiskallarnir leyfa ekkert slíkt. Guðmundur Andri kveðst  vorkenna vinum sínum í VG að hafa mig innanborðs, þeir eigi ekki sjö dagana sæla,  og telur ástæðu til að vara kjósendur við manni með þær skoðanir sem ég hafi. Í ljós kemur að Jóhann Hauksson, fréttastjóri, er ekki meira kjaftstopp en svo að honum tekst að koma öllum eftirlitsstofnunum undir sömu regnhlíf, sá sem sé gagnrýninn á eina eftirlitsstofnun hljóti að gagnrýna allt opinbert eftirlit!

Grein Jóhanns Haukssonar: http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/2014/10/7/nu-er-eg-kjaftstopp/
Grein Guðmundar Andra Thorssonar: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/10/07/gudmundur-andri-gagnrynir-ogmund-og-vg-hardlega-fyrir-studning-vid-mjolkursamsoluna/

Horft til mismunandi hagsmuna

Um Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, verður ekki sagt að hann nálgist málefnið að hætti kerfiskalla.  Alls ekki.
Hann horfir til hagsmuna fyrirtækja í þessari framleiðslugrein og möguleika þeirra að hasla sér völl til hliðar við mjólkursamsölurisann, MS .
Hin nálgunin er svo að horfa til gæða og verðlags þegar varan er komin í búðarhillurnar, það er mín nálgun.
 
Að verja þann veikasta

Í umræðu utan dagskrár á Alþingi á fimmtudag, komu þessi sjónarmið, eða öllu heldur þessi mismunandi nálgun, vel fram, annars vegar í máli Guðmundar Steingrímssonar, sem var málshefjandi, en hann fjallaði um  jafnræði fyrirtækja sem vinna úr mjólkurafurðum, mikilvægi þess að þau sitji við sama borð. Þar þurfi að gæta að því að verja hinn veikasta og átti hann þar við veikasta fyrirtækið.
Ég gerðist, á meðal annarra, talsmaður þeirra sem vörðu verðstýrðan samvinnurekstur á þeirri forsendu að hann væri kúabændum í hag, og gagnaðist þar með íslenskum landbúnaði,  og þá ekki síður hefði hann reynst neytendum hagstæður;  þeir fengju hollustuvöru á eins hagstæðu verði og kostur er. Slíkt væri hinum veikasta í hag: Hinum íslenska láglaunamanni.

Framsöguræða Guðmundar Steingrímssonar málshefjanda umræðunnar: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20141009T111311
Sjónarmið GS komu einnig vel fram í niðurlagsræðu hans: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20141009T114733

Ræða mín við umræðuna:http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20141009T112612