Fara í efni

HUGMYNDAFRÆÐINGAR KOMINR Á KREIK

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 07.10.14.
Í Sovétríkjunum voru til menn sem titlaðir voru hugmyndafræðingar Kommúnistaflokksins. Þeir höfðu það hlutverk að segja fyrir um hvað væri rétt og hvað rangt, hvað skyldi vera leyfilegt og hvað bannað. Skipti þá engu máli þótt reynslan leiddi í ljós  að kenningin sem stjórnað var samkvæmt, hefði reynst vel eð illa.

Kommúnísk rétthugsun

Þarna var um að ræða framkvæmd  kommúnisma samkvæmt kenningum Marx og Engels einsog mönnum þóknaðist að skilgreina þær við Kremlarmúra í þá daga.
Nú eru það hins vegar hugmyndafræðingar annarrar kenningar sem mest láta að sér kveða,  þ. e. markaðshyggjunnar. Utan um þessa kenningu hefur verið smíðuð sérstök stofnun,  Samkeppniseftirlitið. Þessi stofnun sektar fyrirtæki  og samtök  fyrir meint villuráf frá kenningunni. Þetta gerir hún  stundum af óbilgirni og að því er best verður séð, mikilli kreddufestu.

Kredda kapítalismans

Samkeppniseftirlitið hefur það sér afsökunar að löggjafinn setji því reglur. Stofnunin sé einvörðungu að fara að lögum. Sumt í lögunum er reyndar afar óskýrt og eftirlitinu falið mikið vald til að túlka atferli og hegðun. Þetta á ekki síst við um þá lagagrein sem vísað er til í MS málinu sem nú er til umræðu.  Þegar sami aðili hefur rannsóknarvald, túlkunarvald um niðurstöðurnar, vald til að kveða upp dóma og fylgja þeim svo eftir er vissara að vanda sig.  Annars gæti einhver farið að óttast um réttaröryggið í landinu.  En þetta víðtæka vald til að framfylgja óskýrum lögum hefur ekki dugað eftirlitinu sem gengur hart fram í að framfylgja meintum anda laganna á hátt sem mig grunar að fáa á löggjafarsamkundu þjóðarinnar hafi órað fyrir að yrði gert.   Eftirlitið vill líka vera hugmyndafræðingur og segja Alþingi fyrir um hvernig lögin eigi að vera. 

Sektaðir fyrir að ræða afurðaverð

Í mínum huga er stórfenglegasta dæmið um kreddufestu Samkeppnuseftirlitsins þegar Bændasamtök Íslands voru látin greiða  háa sekt  fyrir að ræða verðlagsmál landbúnaðarafurða á þingi samtaka sinna. Þar með átti að vera orðið til glæpsamlegt verðsamráð!
Mjólkursamsölumálið er líka all sérstakt. Þar á að láta fyrirtæki bænda sem ræður ekki verðlagningu á afurðum sínum og er þannig skömmtuð afkoma, yfirleitt um 300 milljónir árlega, greiða ívið meira í sekt fyrir nokkuð, sem flestu venjulegu fólki  - sem leggur fyrst og fremst upp úr því að fá mjólkina sína á lágu verði -  er fyrirmunað að skilja!

Hugmyndafræðingar að störfum

Nú verður þeim niðurstöðum væntanlega áfrýjað.Það sem mig grunar hins vegar að ætli að verða lærdómurinn af MS málinu nú, liggur í viðbrögðum hugmyndafræðinga markaðshyggjunnar víðs vegar á akrinum. Þeir spyrja án afláts um form og fyrirkomulag líkt og gert var í Sovétríkjunum forðum tíð en minna  - ef þá nokkuð -  um innihald, reynslu , niðurstöðu. Þannig spyrja blaðamenn sem eru á þessum buxum um valdjafnvægi í verðlagsnefndum, hver komi hvaðan og hvaða viðhorf viðkomandi hafi. Einstakir nefndarmenn eru beðnir um að gefa öðrum nefndarmönnum einkunn þar sem mat skal lagt á ásetning og markmið viðkomandi í nefndarstarfinu.

Spurt verði um innihald

Hvernig væri að spyrja mjög einfaldra spurninga  sem allar snúist einvörðungu um raunverulegan árangur;  hvort árangur hafi náðst eða hvort hann hafi ekki náðst.
Spyrja þyrfti eftirfarandi spurninga:
1) Hver hefur orðið almenn verðlagsþróun á síðustu tíu árum? (spyrja mætti sérstakalega um þróun á matvöruverði.)
2) Hver hefur orðið launaþróun á síðustu tíu árum?
3) Hver hefur orðið þróun á heildsöluverði mjólkurafurða á síðust tíu árum? (Þ. e. á vörunni frá MS.)
4) Hver hefur orðið þróun smásöluverðs mjólkurafurða á síðustu tíu árum? (Það er að segja, á vörunni út úr verslun.)
5) Hver hefur orðið þróun á verðlagi á framleiðslu bænda á síðustu tíu árum?
6) Hvernig hafa breytingar á skattaumhverfi skilað sér til neytenda á síðustu tíu árum?

Svo má meta kerfið

Þegar þessar niðurstöður liggja fyrir vitum við til dæmis hvort kaupmáttur launafólks hefur aukist eða minnkað til kaupa á mjólkurafurðum. Við vitum þá líka hvort raunverðlækkanir á mjólk sem MS segir að hafi orðið hafi skilað sér í gegnum smásöluverslunina til neytenda. Við fáum þá líka að vita hvort virðisaukaskattsbreytingin á matvöru árið 2007 (úr 14% í 7%) hafi skilað sér til neytenda.
Þegar þetta er búið, gæti verið gagnlegt að máta niðurstöðurnar inn í kredduna.