Fara í efni

NORSKA LEIÐIN

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðisins 05.10.14.
Í sjónvarpi birtist viðtal við sýrlenskan stríðsmann. Hann var alvöruþrunginn og skilboðin eftir því: „Við munum gereyða andstæðingum okkar." Ég  veit ekki úr hvaða liði hann var. Held að það hafi verið hópur sem ég er heldur hlynntur.  Yfirlýsingin var ógnvænleg en á sinn hátt skiljanleg. Hermaðurinn átti í höggi við villimennina í  ISIS. Þá sem taka menn af lífi fyrir opnum tjöldum. Líkt og stjórnvöld gera í Saudi Arabíu.

En ISIS og Saudi Arabíu er ekki saman að jafna. ISIS drepa nefnilega „okkar" menn. Þess vegna reiðumst við þeim á annan hátt en Saudi Aröbum. Verðum hugstola af heift. Sú heift gagnast þeim sem eru að verja olíulindirnar „okkar". Auðvitað mátti gefa sér að loftárásir hæfust fyrr eða síðar. Því fleiri olíulindir á forræði ISIS, þeim mun styttra yrði í að vestrænn fingur teygði sig í gikkinn. Og því fleiri aftökur, því meiri villimennska, þeim mun viljugri yrðum við, almenningur,  að styðja „okkar menn" að leggja upp í „krossför".
Bush er sagður hafa notað þetta hugtak einu sinni í réttlætingu sinni fyrir stríðsrekstri í Írak og Afganistan. En það var nóg. Aldrei skráðu sig fleiri í Al Queda en þegar Bush og Blair sögðust ætla að verja „okkar trú" gegn annarra manna trú. Og nú endurtekur sagan sig. Sama röksemdafærslan, sama sögulausa skilningsleysið. Sömu hagsmunirnir.

ISIS kom til umæðru á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í vikunni. Þar var einnig rætt um uppgang fasisma og hvernig skyldi brugðist við. Skýrslur voru kynntar og tillögur ræddar og samþykktar. Þjóðfélagið yrði að vakna, skólakerfið að bregðast við, virkja yrði það besta í evrópskri lýðræðis- og menningarhefð.

Ræðu vikunnar átti Olemic Tommessen, forseti norska Stórþingsins, sem boðinn hafði verið  til Strasbourgar að ávarpa þingið. Hann minntist fórnarlamba fjöldamorðingjans á Úteyju í Noregi 22. júlí 2011. Hann vitnaði í Svarið, ljóð  Helge Torvund,  sem fjallar um hinn hryllilega glæp þegar jörðin varð blóði drifin. Okkar svar við ódæðinu, segir skáldið,  skal vera að sýna aldrei hefndarhug,  því okkar sigur á að vinnast með friði. Og Tommessen vitnaði einnig í orð þáverandi forsætisráherra Jens Stoltenbergs, að árásinni á lýðræðið yrði svarað með því gera Noreg enn lýðræðislegri, samfélagið enn opnara og mannvænlegra.

Það hefur alltaf verið stutt í fasismann. Það kennir sagan. Verkfræðingar hönnuðu útrýmingarbúðirnar í Þýskalandi og fangabúðastjórarnir í Síberíu fengu medalíur. Valdbeitingin var verðlaunuð. Því þarf að linna.

Forseti norska Stórþingsins minnti á að það krefðist  hugrekkis að standa upp í hárinu á ofbeldisöflum.  Þannig ætti það þó ekki að vera. Mannvonskan ætti  ekki að eiga friðland. Við ættum að sameinast um umburðarlyndið, draga úr óvild og hatri en styðja og styrkja lýðræðið og mennskuna. Á þennan veg var boðskapurinn frá Noregi.

Þetta er norska leiðin. Þegar allt kemur til alls er hún ekki bara jákvæð. Hún er líklegust til að skila þeim árangri sem við viljum helst sjá.