Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN GEGN ÍBÚÐALÁNASJÓÐI

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Biritst í DV 14.10.14.
Ein meginástæða fyrir andstöðu minni við Evrópusambandið er hve miðstýrt og kredduþrungið þetta ríkjasamband er. Kreddan er markaðshyggja og miðstýringin er fólgin í því að vilja þröngva þessum pólitíska rétttrúnaði  ofan í alla. Ef nokkur kostur er að beina félagslegri starfsemi inn á markaðstorgið þá skal það gert -  og alls staðar!

Gamalkunn aðferðafræði

Ferlið er yfirleitt þetta: Byrjað er á því að krefjast þess að starfsemi  sé sundrað niður í grunneiningar. Ef einhver rekstrareining fær síðan samkeppni á markaði þá er strax brugðist við. Sett er bann við því að til komi nokkur stuðningur til hinnar opinberu „samkeppniseiningar," hún skal með öllu vera „sjálfbær." Þar með er hún komin undir samkeppnislög og lýtur agavaldi Samkeppnisstofnunar.

Fyrst Síminn

Dæmi er Síminn. Hann var rekinn með góðum árangri í samkrulli við póstinn, Póstur og Sími var sú ágæta stofnun kölluð. Í skjóli hins arðbæra símahluta var hægt að halda úti pósthúsum um landið allt, sjá okkur fyrir ódýrasta síma á byggðu bóli, og viti menn, skila ríkissjóði að auki milljörðum í hagnað á hverju einasta ári!
Þannig var þetta í alvöru þar til Evrópusambands/markaðskreddan píndi okkur undir aldarlok (í gegnum EES samninginn)  til að skilja að póst og síma, gera hvoru tveggja að hlutafélögum enda báðir hlutar komnir, að öllu leyti eða að hluta til, inn á samkeppnismarkað. Síðan var Síminn seldur. Vandinn var sá að einkavæddu símafyrirtæki var ekki hægt að þröngva til að sjá fyrir sambærilegri þjónustu í arðbæru þéttbýli og í dreifðasta dreifbýli.
Hvað var þá ákveðið? Jú, dreifbýlið skyldi vera á ábyrgð samfélagsins en hinn arðbæri hluti látinn leika lausum hala á markaði. Að vísu hefur ríkið að hluta til reynt að rísa undir samfélagsábyrgðinni með skattlagningu á símafyrirtækin. En grunnreglan stendur eftir sem áður: Arðvænlegi hlutinn skal vera á markaði, taprekstur á kostnað almennings.

Nú er það Íbúðalánasjóður

Annað dæmi um Evrópusambands/markaðskredduna er Íbúðalánasjóður. Bankar vita sem er að traustustu veð í nokkru landi eru veð í heimilum fólks. En ekki öllum heimilum. Ekki í heimilum sem eru staðsett þar sem húsnæðismarkaður er ótraustur  - þ. e. í dreifðum byggðum - eða þegar um er að ræða tekjulítil heimili. Þetta vita bankarnir og vilja aðgreina þetta tvennt. Á því hefur Evrópusambandið að sjálfsögðu skilning og hefur sett reglur sem banna að veitt séu  lán með ríkisábyrgð til heimila sem bankarnir telja sig örugglega geta grætt á. Annað er skilgreint sem „félagsleg lán" og gegnir þar að sjálfsögðu allt öðru máli!


Yfirlýsingar ráðherra húsnæðismála

Og þar erum við komin að yfirlýsingum Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra, í vikunni sem leið, og vísa ég þar sérstaklega í Viðskiptablaðið, þar sem haft er eftir ráðherranum að  unnið væri að því að  tryggja að lánveitingar Íbúðalánasjóðs væru einvörðungu til að fullnægja  „félagslegu almannahlutverki hans" í samræmi við þankagang ESB.
Í samræmi við þetta hafi verið undirrituð ný reglugerð, sem takmarki lánveitingar Íbúðalánasjóðs við íbúðir sem eru undir fjörutíu milljón krónur að verðgildi, þ.e. framvegis verði aðeins lánað til íbúða sem tekjulægsti hluti samfélagsins festir kaup á. Óheillaspor stigum við vissulega í þessa átt í tíð síðustu ríkisstjórnar, þegar þessi mörk voru sett í fimmtíu milljónir, en fram að því hafði aðeins verið sett þak á upphæð leyfilegs láns en ekki horft til verðgildis eignar. Nú hins vegar skal í alvöru látið sverfa til stáls og millitekjuhópar samfélagsins og þeir hópar sem þar eru fyrir ofan,  útilokaðir frá lánum Íbúðalánasjóðs. Jafnframt þessari ákvörðun var leyfileg lánsfjárhæð hækkuð um fjórar milljónir, í tuttugu og fjórar milljónir. Það var góð ráðstöfun en heildarsamhengið er slæmt.
Hinn félagslegi þáttur sem verið er að eyðileggja með þessum ráðstöfunum er sá, að hafa alla landsmenn í einum potti. Slíkt fyrirkomulag gerði sjóðinn öflugri og þar með lánsfjármagn ódýrara. Nú er þess skemmst að bíða að lántakendum fækki ört nema þeim sem hafa minnst efni eða búa á köldum svæðum. Klæðskerasniðið að markaðshugsun ESB.

Ekki fyrsta aðförin að ÍLS

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aðför er gerð að Íbúðalánasjóði. Það var gert á árunum í aðdraganda hrunsins. Þá leituðu bankarnir til sérfræðinga EES samningsins í Brussel til að fá þá til að bannfæra hið íslenska félagslega fyrirkomulag.
Það tókst ekki og ætti hið sama að gilda nú. Þetta var ekki síst að þakka  Framsóknarflokknum sem þá fór með húsnæðismálin. Hann stóð vel vörnina fyrir Íbúðalánasjóð.  En sá tími er greinilega liðinn. Nú er verið að undirbúa löggjöf sem færir hið almenna íbúðalánakerfi  í hendur bankanna, eins og þeir alltaf heimtuðu, en skilur hinn félagslega þátt hjá íslenskum skattgreiðendum.
Bankarnir hafa því fengið góðan liðstyrk í Framsóknarflokknum við að aðstoða þá við að láta okkur sporðrenna markaðskreddu Evrópusambandsins í  húsnæðismálum.
Gott fyrir bankana. Slæmt fyrir íbúðakaupendur og skattgreiðendur.