SPILAFÍKILL ER EKKI RÉTTLAUS Birtist í Mogunblaðinu 25.10.14.

Að undanförnu hef ég fylgst með þrautagöngu einstaklings sem frá
barnæsku hefur átt við spilafíkn að stríða. Hann sýndi mér
prýðilega samantekt og greiningu sálfræðings sem hann hafði leitað
til og heimilaði mér að vitna til hennar.
Langvarandi þunglyndi
Í skýrslunni hefur sálfræðingurinn eftir viðkomandi einstaklingi að hann hafi tapað "stórum hluta af tekjum sínum yfir ævina, upphæðum sem skipta tugmilljónum" í fjárhættuspilakössum. Þá virtist ekki skipta máli hvort hann var í tekjuhárri verktakavinnu eða á fjárhagsaðstoð. Áráttan hafi verið sú sama en meðan hann vann og hafði betri tekjur, hafi verið auðveldara "að leiða hjá sér erfiðar tilfinningar og vanlíðan tengda spilamennskunni.." En þegar kreppt hafi að fjárhagslega hafi þunglyndi sótt að. Í samantekt segir að viðkomandi einstaklingur hafi "glímt við spilafíkn nær alla sína ævi, og (væru) lífsgæði hans í dag nú mjög skert vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem fylgt hafa þeirri fíkn. Hann glími(r) við langvarandi vanlíðan vegna þessa sem felur í sér áhyggjur og kvíða, en einkennist þó helst af vonleysi, þrálátri depurð og neikvæðum hugmyndum um sjálfan sig og getu sína til að koma sér út úr núverandi stöðu."
Ekki sá fyrsti
Sá einstaklingur sem hér á í hlut hefur ekki aðeins reynt að
glíma við sjálfan sig heldur einnig "kerfið". Hann hefur fetað í
fótspor annars manns sem er mér kunnur og greindi m.a. frá
baráttusögu sinni á síðum Morgunblaðsins fyrir fáeinum árum. Hann
reyndi árangurslaust að höfða mál á hendur rekendum spilakassa svo
og ríkinu á þeirri forsendu að starfsemin væri ólögleg og hefði
valdið honum miklu tjóni. Þar var um að ræða maka sem ánetjast
hafði fjárhættuspilum og sólundað öllum eigum fjölskyldunnar.
Báðir þessir aðilar hafa stuðst við álitsgerðir lögfróðra manna sem
telja annars vegar að rekstur spilakassa standist ekki lög (sbr.
t.d. grein Sigurgeirs Sigurjónssonar, hæstaréttarlögmanns í
Morgunblaðinu 20 nóv. 1993) eða að lagagrundvöllur þessa reksturs
sé ótraustur. Í lögfræðilegri álitsgerð sem unnin var fyrir
Rauða Krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ á tíunda
áratugnum, segir að leyfisveitingar til þessara aðila til reksturs
spilakassa frá hendi stjórnvalda byggi ekki á skýrum og
traustum lagagrundvelli. Jafnframt er vakin athygli á "þeirri
niðurstöðu Hæstaréttar árið 1949 að telja rekstur einkaaðila á
áþekkum spilakössum refsivert fjárhættuspil. Þessi ákvæði
hegningarlaga eru óbreytt."
Ágeng álitamál
Embætti lögreglustjóra á höfðuborgarsvæðinu og ríkissaksóknari
hafa hafnað kærum á þeirri forsendu að enda þótt grundvallarreglan
sé sú að fjárhættuspil séu ólögleg á Íslandi, þá séu spilakassar
reknir á sérlögum sem gefi þeim lögmæti.
Í kæru til lögreglustjórans í Reykjavík í júní sl. var spurt hvort
það standist sérlögin að einkaaðilar aðrir en þeir sem eru
handhafar sérleyfisins, megi hagnast á rekstrinum. Í ákærunni segir
orðrétt um þetta atriði: " Í lögum sem lúta að rekstri
spilakassa er þess getið að tilteknir aðilar skuli njóta góðs
af hagnaðinum og þá væntanlega ekki aðrir. Staðreyndin er hins
vegar sú að fjöldi annarra aðila hefur ábata af fjárhættuspilum og
má þar nefna rekstraraðila í veitinga- og sjoppurekstri svo og þeir
aðilar sem leigja út húsnæði undir spilavítin. Þetta eitt gerir
þennan rekstur ólöglegan. Fyrrgreindir aðilar munu fá tiltekið
hlutfall af innkomunni sem eitt og sér hlýtur að stangast á við
lögin."
Ekki síður veigamikið álitamál kom fram í kærunni en það snýr að
rétti spilafíkla gagnvart þeim sem hagnast á fíkn þeirra. Um þetta
segir á ákærunni: "Nú er mér fullkunnugt um að sett hafa verið
lög um rekstur happdrættiskassa, sem svo eru nefndir, en eru í
reynd fjárhættuspilavélar þrátt fyrir aðrar nafngiftir. Ég
tel að ákæruvaldinu beri að horfa til réttarfarsþróunar á skyldum
sviðum þar sem um er að ræða heimilaða en jafnframt skaðlega
og heilsuspillandi starfsemi. Í Bandaríkjunum hefur dómsvaldið
þannig tekið afstöðu með þeim sem orðið hafa fyrir heilsutjóni af
völdum vöru eða þjónustu sem sannanlega er skaðvænleg. Vísa ég í
því sambandi til fyrirlesturs sem Arnie Wexler, sérfræðingur á
sviði á fjárhættuspila, hélt hér á landi 11. nóvember árið 2000 en
hann kom hingað til lands í boði óformlegs hóps áhugamanna um
spilafíkn. Í stuttu máli telur Wexler spilakassa- og
happdrættisvélaiðnaðinn vera í svipaðri stöðu og
tóbaksframleiðendur voru til skamms tíma..Dómar tóku að falla
sjúklingum í hag en tóbaksframleiðendum í óhag sem kunnugt er. Hið
sama á án vafa, í mínum huga, eftir að gerast varðandi
fjárhættuspilin."
Ég ákæri
Í upphafi kærunnar segir: "Frá átta ára aldri fór að
þróast hjá mér spilafíkn sem hefur farið stigvaxandi síðan. Þessi
spilafíkn hefur eingöngu þróast í spilakössum Happdrættis Háskóla
Íslands og Rauða Krossins og annarra sem aðild eiga að
Íslandsspilum. Rekstraraðilar spilakassa og þar með ríkisvaldið
hafa þannig virkjað sjúkdóm minn í ábataskyni fyrir þá sem hafa
hagnað af þessari starfsemi. Þetta hefur valdið mér ómældu
tjóni og lagt líf mitt í rúst. Ég hef nú ákveðið að leggja fram
formlega kæru á hendur íslenska ríkinu og rekstraraðilum spilakassa
vegna þessara saka."
Mín skoðun er sú að vafasamt hafi verið af embætti
lögreglustjóra og embætti ríksaksóknara að afgreiða ívitnaða
kæru út af borðinu og vísa ég í báðar þær röksemdir sem hér hafa
verið raktar. Sérleyfisveitingin er skýrt afmörkuð og þyrfti
dómstóll að kveða upp úr hvort hagnaður renni til aðila sem ekki
hafa tilskilin leyti löggjafans. Þá virðist þróunin erlendis vera á
þann veg að þessi mál rati í sívaxandi mæli inn í dómsali.
Hver var ábyrgð þín - og mín?
Bandaríski tóbaksiðnaðurinn hefur á 25 árum verið dæmdur
til að greiða 206 milljarða dollara í skaðabætur beint og óbeint
vegna afleiðinga reykinga. Margt bendir til þess að lögfræðingar
séu að vakna til vitundar um að spilafíklar kunni að hafa rétt að
sækja í hendur rekenda spilavítisvéla og hugsanlega einnig
löggjafans á sömu forsendum og tilvitnuð kæra frá í sumar
byggir á.
Fyrir um ári komu lögfræðingar saman í Indianapolis í Bandaríkjunum
að bera saman bækur sínar til undirbúnings atlögu að
netspilafyrirtækjunum.
Á þessum fundi var rýnt í mál sem unnist hafa til þessa en slíkum
málum fer fjölgandi.
Mér segir hugur um að landið sé að rísa hjá spilafíklum sem vilja
leita réttar síns gagnvart rekstraraðilum og hugsanlega löggjafnum.
Það á að verða okkur öllum sem komið hafa að þessum málum
umhugsunar- og sumum áhyggjuefni.
Að leikslokum verðum við mörg spurð, hver var ábyrgð þín?
Ögmundur Jónasson, alþingismaður og fyrrverandi
innanríkisráðherra