VEGIÐ AÐ TRÚVERÐUGLEIKA LÖGREGLUNNAR

LögreglustjarnaYfirlýsing vegna vopnakaupa lögreglunnar

Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra hefur gengið fram fyrir skjöldu, fyrir hönd ráðherra og ríkislögreglustjóra, í fjölmiðlum  til að réttlæta ákvarðanir um að koma hríðskotabyssum fyrir í almennum lögreglubílum.

Skýring hans er sú að engin eðlisbreyting á vopnaburði lögreglumanna eigi sér stað með þessu. Í raun sé einvörðungu verið að framfylgja því sem komið hafi  fram í skýrslu sem gerð hafi verið í minni embættistíð sem innanríkisráðherra. Í framhaldinu hefur þessi talsmaður ríkislögreglustjóra og ráðherra vitnað beint í texta sem hann kallar ,,skýrslu Ögmundar". Umrædda tilvitnun er að finna í skýrslu sem gerð var í innanríkisráðuneytinu haustið 2012 og hefst á þessum upphafsorðum:
"Á samráðsfundi ráðuneytisins með ríkislögreglustjóra, 6. október sl. skýrði ríkislögreglustjóri frá því að hann hefði átt samráðsfundi með lögregluliðum úti á landi. Á þeim fundum hefðu eindregið komið fram að nú um stundir væri lögreglunni ókleift að leysa þau verkefni sem ætlast væri til af henni vegna fjárskorts og manneklu."

Síðar í skýrslunni segir m.a. um mat lögreglunnar á eigin stöðu:

"Grunnbúnaður lögreglu til þess að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir vegna vopnamála, hryðjuverka og annarra stórfelldra ofbeldisglæpa er mjög takmarkaður, búnaður sem til er þarfnast að mestu leyti endurnýjunar og viðbúnaðargetan er óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð og vegna öryggis ríkisins. Nokkur hluti af varnarbúnaði lögreglu er kominn til ára sinna og er úreldur, má sem dæmi nefna að skotvesti frá 1995 og 2005 eru komin fram yfir líftíma þeirra."

Það sem Jón Bjartmarz hefur kallað ,,skýrslu Ögmundar" er samantekt á stöðu lögreglunnar sem byggð er á mati lögreglunnar sjálfrar n.t.t. embættis ríkislögreglustjóra.

Þá hefur hann vísað í skýrslu þverpólitískrar nefndar sem sett var á laggirnar til að meta stöðu lögreglunnar, fjárþörf hennar og mannaflaþörf eftir niðurskurðinn af völdum efnahagshrunsins en þessi skýrsla kom til umræðu á Alþingi í mars 2013.

Hvergi í allri þessari umræðu né í neinum plöggum eða ábendingum sem fram komu í minni embættistíð er að finna stafkrók sem gæti gefið formælendum þessar umfangsmiklu vopnavæðingar lögreglunnar minnsta tilefni til að tala á þann veg sem Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hefur leyft sér að gera. Yfirlögregluþjóninum tókst að nefna nafn mitt ófáum sinnum í Kastljósþætti sjónvarpsins og hefur verið óþreytandi í öðrum fjölmiðlum að bendla nafn mitt sem fyrrverandi innanríkisráðherra við málið og gefa þar með í skyn að það sé á mína ábyrgð. Með almennri vopnavæðingu sé lögreglan að bregðast við gagnrýni sem ég hafi sett fram! Málfutningur embættis ríkislögreglustjóra byggir hér á útúrsnúningi og staðlausum stöfum.

Ég ítreka að þessi kaup og eðlisbreyting á búnaði almennu lögreglunnar er ekki með mínu samþykki.
Dylgjur og ósannindamálflutningur af þessu tagi  veikir því miður trúverðugleika lögreglunnar.

Innan ráðuneytis og innan lögreglunnar hefur það verið þekkt viðhorf að ég sé  andsnúinn því að almennir lögreglumenn beri vopn. Þar sé sérsveit lögreglunnar undanskilin auk þess sem ég hafi talið eðlilegt að hafa skotvopn í lögreglubílum sumstaðar í dreifðum byggðum komi til þess að aflífa þurfi skepnur svo dæmi sé tekið. Hér gegnir allt öðru máli en þegar um er að ræða almenna vopnavæðingu íslensku lögreglunnar.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra

Sjá m.a:

http://www.dv.is/frettir/2014/10/22/dylgjur-og-osannindamalflutningur-af-thessu-tagi-veikir-thvi-midur-truverdugleika-logreglunnar/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/22/vopn_kalla_a_vopn/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/22/samthykkti_ekki_kaup_a_vopnum/

http://www.ruv.is/frett/150-hridskotabyssur-fyrir-logreglustjorana  http://www.visir.is/stefnubreyting-ef-vopna-a-logregluna/article/2014141029773

Fréttabréf