VIÐSKIPTABLAÐIÐ FER VILLUR VEGAR

Mig langar til að trúa því að Viðskiptablaðið vilji vera sanngjarnt í umfjöllun sinni. Líka í málum þar sem blaðið hefur ríkar skoðanir, öndverðar við þær sem fjallað er um.
Á laugardag fjallar vefmiðill Viðskiptablaðsins, vs.is, um
umræðu um frumvarp sem gerir ráð fyrir að verslanir ÁTVR verði
lagðar niður og útsala á áfengi færð inn í matvörubúðir. Ég er þar
sagður hafa stigið "stórkostlegt spor" í mótsagnakenndum
málflutningi um framangreint frumvarp. (http://www.vb.is/skodun/110473/)
vs.is leggur út af ummælum sem ég lét falla í umræðu um framvarpið
þar sem ég segi m.a. eftirfarandi: "Ég er fyrst og fremst að
horfa á málið út frá sjónarmiði neytenda, ég er að horfa á málið út
frá lýðheilsusjónarmiðum, ég er að horfa á málið út frá skattpyngju
landsmanna, sem munu verða af umtalsverðum fjármunum. Ég er að
horfa á málið út frá neytendum að því leyti að áfengi verður
dýrara, álagningin mun aukast. Ég get vísað í kannanir þar að
lútandi, og horfi til dæmis til þess sem gerðist með
tóbakið."
Frá því er skemmst að segja að Viðskiptablaðinu þykja þessi
ummæli mín vera ein hrópandi mótsögn, annars vegar tali ég um
að frumvarpið leiði til verðhækkunar og hins vegar
verðlækkunar:
"Eftir stendur hins vegar hið óvinnandi verk hlustandans að
reyna að brúa bilið á milli fyrri og seinni hluta málsgreinarinnar,
því Ögmundur virðist vera á móti frumvarpinu vegna þess að það muni
bæði leiða til verðlækkunar og verðhækkunar á áfengi."
Hvar tala ég um verðlækkun? Lágmarkskrafa er að rétt sé eftir haft!
Þarna er vitnað í tveggja mínúntana andsvar, samantekt,
upptalningu, sem ég hef gert nánar grein fyrir annars staðar.
1) Fyrsta atriðið sem ég nefni er að ég horfi á
málið frá sjónarhóli neytenda. Ég hef tilgreint að í
smásöluverslun, einkum í smáum byggðarlögum megi búast við
því að framboð á tegundum verði minna en í verslunum ÁTVR sem alls
staðar tryggir að lágmarki á bilinu 150 til 170 tegundir. Ég
hef talað fyrir jafnræði neytenda óháð búsetu hvað framboð áhrærir.
Það þýðir að ef ÁTVR verslun er lokað í litlu byggðarlagi yrði það
háð ákvörðun verslana eða verslunar á staðnum hvort hún yfirleitt
seldi áfengi og þá í hve miklu úrvali. Ætla má að það yrði miklum
mun minna en hjá ÁTVR. Það er þetta sem ég á við þegar ég
vísa til neytendasjónarmiða. Verðalag kemur þar einnig við sögu,
sbr. síðar.
2) Í öðru lagi nefni ég lýðheilsusjónarmið. Góð
þjónusta og úrval tegunda er eitt, ágengni við að koma söluvörunni
á framfæri er annað. Nánast allir - EF EKKI ALLIR - aðilar sem
tengjast lýðheilsumálum vara við því að nýta lögmál framboðs og
eftirspurnar við að selja áfengi og þar með að fara með söluna inn
í almennar verslanir þar sem aðgengi er meira og opnara en í
sérverslunum ÁTVR.
3) Þegar vísað er í skattpyngju landsmanna á ég
við hagnaðinn af rekstri ÁTVR, sem rennur inn í skatthirslur
ríkissjóðs. Til sanns vegar má færa að misvísandi af minni hálfu sé
að tala um skattpyngju þegar um er að ræða arðgreiðslur, en hafi
Viðskiptablaðið fylgst með málflutningi mínum, sem ég skil svo að
blaðið hafi gert, þá má þessi meining mín vera augljós. Hagnaðurinn
af reskri ÁTVR á síðasta ári nam 1, 3 milljörðum sem renna beint í
ríkissjóð. Þessi hagnaður rynni til eigenda matvöruverslana ef það
yrði ofaná. Að uppistöðu til hagnast ríkið hins vegar á álögðum
gjöldum sem þess vegna gætu fallið á almenna verslun ekkert síður
en ÁTVR og þaðan runnið í ríkissjóð. Þarna ætti ekki að þurfa að
verða munur á í skattheimtu ríkisins, þótt reynslan sýni að skattar
og gjöld innheimt af ÁTVR skila sér betur í ríkissjóð en
samsvarandi gjöld í gegnum almenna verslun. Skírskotun mín er hins
vegar- sem áður segir - í hagnaðinn af verlsunum ÁTVR. Skattpyngja
landsmanna yrði af þessum hagnaði ef umrætt frumvarp yrði að
lögum.
Í grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu 19. júlí sl. segir um
þetta efni: "Á árinu 2013 var hagnaður ÁTVR rúmir 1,3
milljarðar og arðgreiðslan í ríkissjóð var 1,2 milljarðar. Þannig
fær ríkissjóður allan hagnaðinn af rekstri ÁTVR. Með því að hafa
ríkisrekna verslun er tryggt að allur ágóði áfengissölunnar fer til
ríkisins sem notar peningana meðal annars til þess að greiða fyrir
kostnað samfélagsins vegna misnotkunar á áfenginu. Ríkissjóður fær
hins vegar miklu meira í sinn hlut en nemur arði af rekstri ÁTVR.
Fyrir árið 2013 var hlutur ríkissjóðs af sölu ÁTVR
eftirfarandi:
Magngjald
tóbaks:
5,5 milljarðar
Áfengisgjald:
8,8 milljarðar
Arður frá
ÁTVR:
1,2 milljarðar
VSK:
7,0 milljarðar
Samtals gerir þetta tæpa 22,5 milljarða á þessu tiltekna ári."
(http://ogmundur.is/annad/nr/7168/)
4) Líklegt má heita að álagning verslunarinnar
á áfengi yrði meiri en hjá ÁTVR, einfaldlega vegna þess að
dreifingarkerfið á vegum margra aðila yrði kostnaðarsamara en hjá
einum samhæfðum aðila. Sérstaklega mætti búast við meiri
álagningu hjá smáum verslunum á landsbyggðinni. Í pistli sem ég
skrifaði 11. júlí hér á heimasíðu mína segir:
Það sem er líklegt að gerist líka við einkavæðingu er að verðið
mun hækka og mest úti á landi. Kaupmenn hafa sagt að þeir geti ekki
rekið áfengissöluna með ÁTVR álagningu. Ef ríkið vill halda sínum
skatttekjum þá verða kaupmenn að hækka verðið til þess að dæmið
gangi upp. ÁTVR er með 18% álagningu á léttvín og bjór og 12% á
sterkt áfengi skv. lögum. Nú er álagning á tóbak hjá smásölum oft
vel yfir 30%. Álagningin þar er frjáls. Ef álagning á áfengi verður
svipuð og í tóbakinu þá hækkar verð á áfengi verulega og mest á
landsbyggðinni".( http://ogmundur.is/annad/nr/7155/
og http://ogmundur.is/annad/nr/7159/
)
5) Síðan má bæta því við til skýringar, að vilji menn hafa áfengi dýrt þá gera menn það sem löngum hefur tíðkast, að skattar og gjöld eru hækkuð. Með þessu frumvarpi yrði hins vegar um það að ræða að verðið hækkaði, vegna aukinnar álagningar af völdum óhagræðis í dreifingu og hugsanlega aukinnar arðtöku eigenda. Ef Viðskiptablaðið hefði viljað vera sanngjarnt í minn garð hefði það birt allt andsvarið sem vísað er í hér að framan en ekki bara fyrrihlutann. Í niðurlagi þess sagði ég: "Ef við ætlum að hækka verð á áfengi þá gerum við það ekki með óhagræði. Við hækkum þá bara tolla og gjöld og þá er það hluti af markvissri lýðheilsu- og áfengisstefnu. En við gerum það ekki með því að reyna að finna og beina þessari sölu inn í óhagkvæmasta fyrirkomulag sem til er."
En Viðskiptablaðið segir meira. Það gerir því skóna að ég haldi því fram að "að skatttekjur af áfengissölu muni dragast saman. Annaðhvort er það vegna þess að hann gerir ráð fyrir því að áfengisneysla minnki við breytinguna eða vegna þess að áfengisverð muni lækka. Ekki er um það rætt að breyta áfengisgjaldi eða öðrum opinberum álögum á áfengi, þannig að ekki getur það skýrt ætlaða lækkun skatttekna. Eins gerði hann ráð fyrir því fyrr í sömu umræðu að tilvist ÁTVR væri til þess fallin að takmarka bæði aðgengi að og neyslu á áfengi."
Hér er um að ræða vangaveltur Viðskiptablaðsins úr samhengi við málflutning minn einsog að ofan greinir.
Hér er frásögn mín af fyrsta degi umæðunnar um ÁTVR:
Sjá einnig nýlegt: http://ogmundur.is/annad/nr/7232/