Fara í efni

STUND Í MOSFELLSKIRKJU

Mosfell kirkja
Mosfell kirkja

Í dag var ég viðstaddur sögulega stund í Mosfellskirkju í Grímsnesi. Þar messaði séra Þórir Stephensen, fyrrum dómkirkjuprestur í Reykjavík en hann er sonarsonur séra Stefáns Stephensen, fyrrum prests á Mosfelli. Séra Stefán var litríkur maður og annálaður kraftamaður. Hlaut hann fyrir bragðið viðurnefnið hinn sterki.

Stefán sterki var mikill framfaramaður og kemur nafn hans ætíð upp þegar gluggað er í sögu þeirra héraða þar sem hann þjónaði sem prestur. Lengst var séra Stefán á Ólafsvöllum á Skeiðum - yfir 20 ár - frá 1864 til 1885 en þá fluttist hann að Mosfelli þar sem hann þjónaði fram á aldamótaárið 1900. (Þess má geta að ég  vék að þætti séra Stafáns í undirbúningi Flóaáveitu í ræðu sem ég flutti á Brúnastaðaflötum í júní árið 2012: https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-brunastadaflotum-heill-fylgi-viljanum-til-verka )

Athöfnin í Mosfellskirkju í dag var áhrifarík og verður eftirminnileg þeim sem þar voru. Greinilegt var að séra Þórir var snortinn þegar hann sté í predikunarstólinn í Mosfellskirkju þar sem afi hans stóð fyrir rúmri öld. Predikun séra Þóris var afbragðsgóð og fjallaði hún á heimspekilegan hátt um tímann, dauðann og lífið. Tíminn væri eins og tilveran öll, mælanleg á mismunandi stikur. Þannig væri tíminn sem liði en einnig hinn sem lifði. Og þegar horft væri til tímans sem lifði þá þurrkuðust út skilin á milli lífs og dauða.
Séra Þórir studdi mál sitt m.a. með vísan í ljóðaperlur Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar.

Meðhjálpari við athöfnina var sonur séra Þóris, Ólafur Stephensen, en mig hafði hann fengið til að lesa úr Opinberunarbók Biblíunnar. Allt átti sínar sögulegu skýringar. Þannig var að bróðir séra Stefáns sterka var Hans Stephensen, langafi minn, en einkar kært var með þeim bræðrum. Þarna í kirkjunni að Mosfelli í dag lágu þessir frændsemis- og vinaþræðir aftur saman.    

Í messukaffi að athöfn lokinni í gamla samkomuhúsinu, Gömlu Borg, voru síðan sagðar sögur, sungið við harmonikkuleik og drukkið kaffi með pönnukökum og öðru góðmeti. Séra Þórir fór á kostum.