Fara í efni

BREIÐFIRÐINGAKÓRINN BREGST EKKI

kór
kór

Í aðdraganda jólanna er það orðið nánast ófrávíkjanleg regla að sækja jólatónleika Breiðfirðingakórsins. Stundum gefst færi á að hlýða á fleiri kóra - enda aðventan mikil tónlistar- og þá ekki síst kórahátíð - en í minni tilveru er Breiðfirðingakórinn fasti punkturinn á þessum tíma.

Í kvöld söng Breiðfirðingakórinn í Neskirkju og brást ekki frekar en endranær. Sér til fulltingis höfðu Breiðfirðingar kór Ísaksskóla - yndislega fallegar barnaraddir.  Í þeim hópi var að finna upprennandi fiðlusnilling og góða söngvara. Mér var hugsað til frábærrar greinar Gunnars Kvarans, sellóleikara, í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. desember, undir fyrirsögninni, Máttur tónlistar og mikilvægi í uppeldi barna. Þar segir Gunnar m.a. að það sé eftirtektarvert "að tónlistariðkandi börn eru síður líkleg til að fara sér að voða í óteljandi hættum sem steðja að ungum sálum. Það er engu líkara en tónlistin myndi ósýnilegan verndandi hjúp yfir þessum börnum."

Stórfenglegast var þegar eldri kynslóðin og sú yngri sungu saman nokkur lög, þar á meðal Heims um ból sem þau luku tónleikunum með og sendu okkur út í jólafrostið með hlýju í hjarta, minnug þess að í hönd fer tími hátíðar, velvilja og væntumþykju.

Tónlistarfólkinu, jafnt hinum yngri sem hinum eldri - færum við hjartans þakkir fyrir að veita okkur þessa kvöldstund hlutdeild í hinum göfgandi krafti tónlistarinnar sem Gunar Kvaran skrifar um í fyrrnefndri hugvekju sinni.
Takk fyrir að syngja okkur inn í jólin!