HIN ÓSÖGÐU SKILABOÐ Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28.12.14.

Tungmál er ekki bara tæki til samskipta. Tungumál getur líka
haft táknræna þýðingu. Útlendingur sem lærir íslensku segir
eitthvað þar með um sjálfan sig. Hann hafi áhuga á Íslandi og
menningu okkar. Hið sama á að sjálfsögðu við þegar við sækjum
aðrar þjóðir heim og leggjum okkur eftir því að komast eins nærri
menningu þeirra og kostur er, lærum tungumálið, kynnum okkur siði
og háttu, bókmenntir og listir og arfleifð alla og leggjum okkur
eftir því að gera það á forsendum heimamanna.
Í tvö ár var ég fréttaritari Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum með
aðsetur í Kaupmannahöfn. Dönsku hafði ég lært í skóla og reyndar
einnig dvalið um nokkurra mánaða skeið í Danmörku á unglingsárum
þannig að ég var sæmilega búinn undir að starfa á norrænum
vettvangi. Þó lét mér betur að tala ensku. Þar hafði ég stundað nám
og þar smíðaði ég grunninn að pólitískri hugsun minni enda árin um
og upp úr tvítugu mikilvægasta mótunarskeiðið hvað
lífsfílósófíuna áhrærir. Tungumálið sem talað er í slíkri
mótunarvinnu verður manni tamara en önnur.
Þess vegna kostaði það átak við komuna til Danmerkur haustið 1986
að heita því að mæla aldrei á enska tungu á þessum nýja norræna
starfsvettvangi mínum, regla sem ég áður hafði tekið upp þá sjaldan
ég kom að norrænum samstarfsvettvangi á þessum árum. Slíkt samstarf
átti eftir að aukast hvað mig snertir og hef ég setið mikinn
fjölda samstarfsfunda á Norðurlöndunum, í verkalýðsmálum og
stjórnmálum. Þar talar hver sitt mál og við Íslendingar einhvers
konar blöndu. Finnarnir eru margir sér á báti og hafa iðulega með
sér túlk. Það er góð lausn. Miklu betri en að allir tali ensku. Þá
hættir fundurinn að vera norrænn fundur og verður bara fundur. Þar
með glatast eitthvað.
Mér finnst líka eitthvað glatast þegar Sjónvarpið gerir út menn til
þáttagerðar um Færeyjar og Færeyinga og lætur allt fara fram á
ensku. Ef íslenskur þáttastjórnandi og færeyskur viðmælandi geta
ekki talað tungumál hvors annars má mætast á miðri leið með blöndu
af íslensku, færeysku og dönsku. Það er kokteill sem löngum hefur
reynst vel í samskiptum Íslendinga og Færeyinga.
Alla vega finnst mér Ríkisútvarpið geta gert betur en að láta
Færeyinga skýra fyrir okkur færeyska dansa, matargerðarlist
og annað um daglegt líf í Færeyjum á ensku. Best væri að
bjóða Færeyingum upp á að tala sitt eigið tungumál. Þegar allt
kemur til alls er það ekki langt frá okkar. Síðan má notast við
texta ef ekki skilst. Þegar enskan er töluð er jafnframt
textað.
Mörgum finnst það eflaust vera ófínt að halda sjónarmiðum af þessu
tagi á loft - sé merki um skort á heimsborgarabrag. Ég
er á öndverðum meiði. Raunverulegur heimsborgari í mínum huga er sá
sem ræktar sinn eiginn garð og gengur af virðingu um garð
annarra.