ICESAVE BROS STEFÁNS ÓLAFSSONAR

Ekki verður annað sagt en minn ágæti vinur, Stefán Ólafsson,
prófessor við Háskóla Íslands, misreikni sig illilega í
nýlegum skrifum um Icesave málið þegar hann gerir því skóna
að nú sé verið að borga Icesave "með bros vör", einsog hann orðar
það, og er svo að skilja að hann telji að deilurnar um þetta
mál hafi verið deilur um keisarans skegg því niðurstaðan hefði
orðið sú sama hvort sem samið hefði verið eður ei.
Grein Stefáns:
http://blog.pressan.is/stefano/2014/12/19/vid-greidum-icesave-med-bros-a-vor/
Stefán segir að við "sleppum að vísu við vaxtagreiðslur", smáatriði
sem eflaust hefði verið hægt að sækja í þrotabúið! Þetta litla
smáatriði, vextirnir, voru einn helsti ásteitingarsteinninn og það
er rangt hjá Stefáni að það hefði verið hægt að sækja þá í
þrotabúið. Samkvæmt samningnum áttu þeir að koma úr ríkissjóði en
ekki úr þrotabúinu. Stóra deilumálið var að auki aðkoman og
aðferðafræðin gagnvart þvingunaraðgerðum og tilraunum til að gera
samfélagið ábyrgt fyrir hruni bankanna umfram það sem efni stóðu
til.
Vextirnir af fyrsta Icesave-samningnum sem átti að keyra í gegnum þingið sumarið 2009 stæðu nú í um það bil 190 milljörðum, þ.e. áfallnir óendurheimtanlegir vextir og væru enn tikkandi, og af öðrum samningnum, hefði hann náð fram að ganga, værum við þegar búin að greiða 80 milljarða króna í vexti og værum enn að greiða vexti næstu árin.
Það var engu líkara en þeim sem studdu þessa samninga væri algerlega fyrirmunað að setja þessar upphæðir í samhengi við veruleika íslenskra fjárlaga þótt sömu aðilar litu á það sem óumflýjanlegt að skera verulega niður við aðþrengda samfélagsþjónustu - en sá mikli niðurskurður nam þó aðeins broti af þessum vaxtagreiðslum.
Til samanburðar má taka dæmi: Í resktur Landspítalans á þessu ári - launakostnað, tækjakaup, húsakost og annað - renna úr ríkissjóði á þessu ári um 45 milljarðar króna og í sértekjur til spítalans koma (því miður) rúmir 4 milljarðar, samtals um 49 milljarðar. Úr ríkissjóði renna til Háskóla Íslands um 12 milljarðar, svo tíndir séu til stærstu útgjaldaliðirnir í heilbrigðis- og menntakerfi okkar. Smærri stofnanir mætti nefna svo fá megi samanburð á "smáræðinu" sem hefði hlotist af Icesave-vöxtunum. Til heilbrigðisstofnunar Vesturlands fer úr ríkissjóði um 3 og hálfur milljarður, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fær um 4 milljarða, löggæslan á Norð- austurlandi fær rúman hálfan milljarð. Allt eru þetta miklir peningar - enda hér vísað í stórar stofnanir í íslensku samfélagi - en engu að síður smámunir miðað við Icesave-vaxta-smámuni Stefáns Ólafssonar.
Allir sjá nú að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu í kjölfar
hrunsins var of mikill. Hvernig halda menn að hann hefði orðið með
Icesave vexti til afborgunar í ofanálag? Og hvernig má ætla að
okkur tækist upp með viðbótarreikninginn inn í framtíðina ef
Icesave samningarnir hefðu orðið að veruleika? Afneitun er aldrei
góð.
Síðan er það Landsbankabréfið. Þar var því miður samið um að það
yrði greitt í gjaldeyri en ekki íslenskum krónum. Ég sé engan brosa
í strögglinu við að færa þetta skuldabréf lengra inn í
framtíðina.
Stefán Ólafsson, sá mæti maður, hefur skrifað margt gott að undanförnu, þar á meðal um hlut bankanna í hruninu og hversu eðlilegt það sé og sjálfsagt að þeir fjarmagni endurreisnina eftir hrunið. Þarna er ég sammála Stefáni og oftast er ég honum sammála, þótt ég brosi ekki með honum að Icesave útreiðinni - ekki nú fremur en fyrri daginn.