Fara í efni

RÉTTLÆTI Á ALÞINGI: AÐSTANDENDUM LÁTINNA DÓMÞOLA Í GUÐMUNDAR- OG GEIRFINNSMÁLI HEIMILAÐ AÐ LEITA EFTIR ENDURUPPTÖKU

Geirfinns og Guðmundarmál 2014
Geirfinns og Guðmundarmál 2014

Eitt síðasta verk Alþingis áður en hlé var gert á störfum þingsins fyrir hátíðarnar var að samþykkja lög sem taka af öll tvímæli um að aðstandendur látinna dómþola í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmáli  geti lagt fram beiðni  um endurupptöku málsins fyrir dómstólum eins og þeir dómþolar sem enn eru á lífi geta gert. Þetta er mikið réttlætismál  enda spurning um jafnræði að allir dómþolar í þessu sérstæðasta sakamáli búi við sambærilega réttarstöðu.

Spurningin snýst um að endurmeta dóm sem kann að hafa verið á röngum forsendum upp kveðinn og er mikilvægt fyrir alla þá sem hlut áttu að máli og fjölskyldur þeirra, maka og börn, að fá hið rétta fram.
Lík Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar fundust aldrei og aldrei sannað að þeir hefðu yfirleitt verið ráðnir af dögum. Eina sem þungir fangelsisdómar yfir dómþolum byggja á voru játningar þeirra um hlutdeild í morðum.

Starfshópur undir forystu Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, lögfræðings, sem hafði á að skipa færustu sérfræðingum heims á sviði á sviði réttarsálfræði, komst að þeirri niðurstöðu að játningar í málinu sem dómarnir byggðu á hefðu ýmist verið óáreiðanlegar eða falskar. Það væri hafið yfir allan vafa! 

Það var mikilvægt að fyrrnefnt frumvarp var samþykkt í gær - hefði þurft að gerast miklu fyrr - því sérstakur saksóknari, sem skipaður var sérstaklega fyrir þetta mál, er að störfum til að skoða mögulega endurupptöku málsins að beiðni þeirra sem á annað borð hafa rétt til að óska eftir endurupptöku.

Hann átti að hafa skilað niðurstöðu á þessu ári en starfstími hans hafði verið framlengdur fram í janúar. Síðustu forvöð voru því fyrir Alþingi að samþykkja frumvarpið. Allir nefndarmenn í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fluttu frumvarpið og var ánægjulegt að sjá grænt takkaborð Alþingis þegar það var samþykkt þar í gærkvöldi.

 Nýlega birti ég grein í DV um þingmálið: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sigrar-rettlaetid-ad-lokum