ÞÓRÐUR KRISTJÁNSSON KVADDUR
Í dag var jarðsunginn í
Reykholti Þórður Kristjánsson, bóndi á Herðavatni og staðarhaldari
BSRB í Munaðarnesi á þriðja áratug. Þórður var á nítugasta og
fjórða aldursári, fæddur árið 1921. Athöfnin var fjölmenn en þó
veit ég að margir veigruðu sér að leggja í langferð því veðrið var
ekki ákjósanlegt. Við vorum nokkur frá BSRB sem fylgdum honum í dag
og ég bar kveðjur til aðstandenda og samstarfsmanna frá nokkrum
aðilum sem ekki áttu heimangengt.
Hér að neðan eru nokkur minnigarorð mín um Þórð sem birtust
í Morgunblaðinu í dag. Mér varð það á að staðhæfa að
Þórður hefði flutt heimili sitt í Munaðarnes þegar við opnun
orlofsbyggðanna en í dag var ég upplýstur um að það hefði ekki
verið fyrr en 1975 sem hann gerði það. Hins vegar veit ég að
hann var þar með annan fótinn frá því byggðirnar opnuðu í byrjun
áttunda áratugarins.
Minningarorð um Þórð Kristjánsson:
Þórði Kristjánssyni kynntist ég fyrst sem sumardvalargestur í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi fljótlega eftir að sumarbyggðirnar risu þar á áttunda áratugnum. Ég var þá starfsmaður Ríkisútvarpsins og í gegnum aðild að starfsmannafélaginu þar á bæ átti ég þess kost að dvelja í Munaðarnesi. Þótt dvölin væri aldrei lengri en vika í senn fór það svo að börnin mín litu á Munaðarnes sem sveitina sína og hús Starfsmannafélags Sjónvarpsins var sumarbústaðurinn "okkar". Og bóndinn í sveitinni var Þórður Kristjánsson.
Þórður hafði reyndar verið alvöru bóndi, því hann hafði búið á Hreðavatni i og stundað þar búskap ásamt Hrafnhildi konu sinni. Þau hjón fluttu árið 1971 í Munaðarnes þegar Þórður gerðist þar staðarhaldari og sendiherra BSRB í orlofsbyggðunum og gegndi hann því starfi fram á tíunda áratuginn.
Það var mikil gæfa fyrir BSRB að fá Þórð í þetta starf. Hann naut velvildar og virðingar í sveitinni og gagnvart orlofsgestum kom hann jafnan fram af mikilli greiðvikni og uppskar hann eftir því. Þætti mönnum eitthvað misfarast og skapsmunir ekki í jafnvægi nægði nálægð Þórðar til að sefa jafnvel hinn æstasta mann. Þórður hélt þá um pípu sína og útskýrði málin af rósemi og virðingu fyrir viðmælanda sínum. Féll þá all í ljúfa löð.
Ekki svo að skilja að óánægja væri tíð. Þvert á móti sá maður sjaldan ánægðara fólk en sumardvalargesti í Munaðarnesi.
Um alllangt skeið og alveg fram á þennan dag hef ég lagt leið mína til Þórðar á dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi um áramótin til að heilsa uppá Þórð. Þær ferðir verða ekki fleiri.
En í huga mér geymi ég minningu um góðan mann og höfðinglegan
bæði á að líta og í öllum gjörðum sínum. Það er mikil eftirsjá að
Þórði Kristjánssyni og votta ég fjölskyldu hans samúð.