Fara í efni

ÞURFTI ALDREI AÐ SANNA AFL SITT

Sigtryggur glímukóngur - minning
Sigtryggur glímukóngur - minning
Sigtryggur Sigurðsson, glímukóngur, skáksnillingur, bridsmeisari og drengur góður var borinn til grafar í vikunni. Séra Vigfús Bjarni Alfreðsson jarðsöng og mæltist honum vel. Hann þekkti Sigtrygg vel og gaf sannverðuga mannlýsingu af vini sínum. Um það get ég borið vitni því þótt ég hefði ekki fylgst með Sigryggi í nálægð seinni hluta lídfshlaups hans kynntist ég honum náið í æsku á Melhaganum í Reykjavík þar semvið báðir uxum úr grasi. Á æskuárunum koma persónueinkenni manna í ljós - og ef til vill betur en síðar á ævinni því æskan er fölskvalaus og leynir engu.
Sigrtryggur var einstaklega ljúfur og góður maður. Hann var rammur að afli en eins og séra Vigfús orðaði það þá þurfti hann aldrei að sanna afl sitt.  Það þótti mér vel sagt. Og hann bætti við og sagði að Sigtryggur Sigurðsson hefði verið "friðarins maður".
Um Sigtrygg voru skrifaðar margar minningargreinar og eru þær sannast sagna góð lesning og harla skemmtileg, sérstaklega af ýmsum aflraunasögum og síðan af hnyttnum tilsvörum Sigtryggs en hann var húmoristi mikill.
Þessar greinar er hægt að nálgast í minningargreinum Morgunblaðsins.

Mín minningarorð um þennan vin minn, sem birtust í Morgunblaðinu, eru hins vegar hér:

Við Sigtryggur Sigurðsson vorum á svipuðu reki, hann þó ívið eldri. Við uxum báðir úr grasi á Melhaganum í Vesturbæ Reykjavíkur á sjötta áratugnum, brösuðum margt á byggingarlóðum sem voru ófáar á Melunum í þá tíð, spörkuðm fótbolta á sumarkvöldum, lékum okkur í  snjónum á vetrum því í þá daga snjóaði  nánast vetrarlangt í Reykjavík.
Öllum þótti vænt um Sigtrygg. Hann var stór og mikill og sterkur. En hann var líka heiðarlegur, sanngjarn og réttsýnn enda beitti hann afli sínu aldrei til ills. Það var hins vegar ekki verra að eiga að vini manninn sem þjóðin átti eftir að kynnast  í útvarpslýsingum sem glímukappanum mikla. Þær lýsingar enduðu jafnan á sama veg: Sigrtryggur vann!
En hann vann  líka hug og hjörtu allra sem honum kynntust. Móðir mín sagði mér einhvern tímann frá því að hún hefði stundum átt í basli við að koma okkur systkinum  í rúmið á sumarbjörtum síðkvöldum þegar útileikir voru í algleymi ekki síst fótboltinn á túninu vestur af Neskirkjunni þar sem nú stendur mikið íþróttahús. Ekki vildi mamma fyrir nokkurn mun kalla á okkur í háttinn með látum - hvorki vildi hún gera okkur það né sjálfri sér. Hún hafði hins vegar fundið ráð sem dugði. Hún ræddi málið við Sigtrygg og sagði honum raunir sínar.  
Áfram var leikinn fótboltinn vel fram eftir kvöldum en nú brá svo við að þegar Sigtrygg grunaði að foreldra færi að lengja eftir ungviðinu, kvað hann uppúr um að nú væri nóg komið. Allir voru  tilbúnir að fara að hans ráðum!
Móðir mín hafði oft á orði hve góður drengur Sigtryggur Sigurðsson væri. Undir það tek ég.
Á unglingsárum veiktist Sigtryggur í nýrum og átti við vaxandi heilsubrest að stríða eftir því sem á ævina leið.
Og nú er hann allur. Ég veit hins vegar að hann mun lifa í minningu mikils fjölda fólks  sem hann kynntist í íþróttum, brids-spilamennsku og skák - en á öllum þessum sviðum var hann afburðamaður. Síðan eru hinir ekki færri sem minnast hans eftir að leiðir hafa legið saman í mannlífinu almennt. Það á við um okkur Melhagakrakkana sem nú söknum góðs vinar.