Fara í efni

GEGN FORDÓMUM OG ÓTTA Í PARÍS OG REYKJAVÍK

parísarfundurinn
parísarfundurinn

Umræðan um hryðjuverk, tjáningarfrelsið og  öfgafulla múhameðstrú, er lífleg þessa dagana. Hér á landi skamma menn Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ótæpilega fyrir að hafa ekki farið til Parísar og gengið þar í fremstu röð í beinni útsendingu gervalls fjölmiðlaheimsins. „Hann var í dauðafæri", heyrði ég fréttaskýranda segja, „en hann nýtti sér ekki tækifærið!"

Ég hef heldur  hallast að því að Sigmundur Davíð hefði átt að fara til Parísar. Það hafi verið mistök af hans hálfu að taka ekki þátt í samstöðufundinum í París. Ráðgjafar Obama, Bandaríkjaforseta, telja líka að hann hafi gert mistök að fara ekki til Parísar þennan dag.

Það er margt gott að segja um samstöðufundinn í París. Þarna fengu t.d. hófsamir  forsvarsmenn Múhameðstrúar vettvang til að sverja tjáningarfrelsinu hollustu sína. Og - eins og það var svo ágætlega orðað af íslenskri stúlku í París - samstaðan bægði óttanum frá. Að þessu leyti voru fjöldafundirnir í Frakklandi og víðar mikilvægir og merkilegir og jákvæður vitnisburður um vilja almennings til að verja frelsi og lýðræði.  Þegar tjáningarfrelsinu er alvarlega ógnað með hryllilegum ofbeldisverkum þá rís samfélagið upp og segir einni röddu að þetta verði ekki þolað.

En á þessu eru fleiri hliðar. Til dæmis þær sem snúa að valdstjórn og valdstjórnarmönnum. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, nýtti sér þannig  „dauðafærið" í París og gekk galvaskur í fremstu röð mannréttindagöngunnar nokkrum dögum áður  en stjórn hans réðst á dómara við Alþjóðaglæpasdómstólinn í Haag fyrir að undirbúa málssókn á hendur Ísraelsríki  vegna stríðsglæpa á Gaza í sumar. 
Hollande, forsætisráðherra, Frakklands, sagði rjóður í kinnum við þetta tækifæri  að nú væri „París höfuðborg heimsins" sem varla væri slæmt fyrir leiðtogann þar á bæ, eða svo mátti skilja, og volgur af Parísar-fundinum birtist Cameron, forsætisráðherra Breta síðan við hlið Obama, Bandaríkjaforseta til að tala um „eitraða hugmyndafræði",  sem yrði að uppræta: „Það verðurgert með öllum ráðum!"

Við höfum aðeins fengið að kynnast því í sögunnar rás hvað þetta þýðir enda nýbúin að verða vitni að því á ritstjórnarskrifstofu í París sem varð fyrir þessari hugsun: Tilgangurinn helgar meðalið.

Það er stundum stutt öfganna á milli.

Eftir því sem frá líður er mér farið að finnast að það hafi eftir allt saman verið í góðu lagi að fulltrúi Íslands í samstöðugöngunni í París hafi verið sendiráðsritari okkar í sendiráðinu en ekki ráðherra. Kannski var líka alveg nóg af fulltrúum Nató og valdakerfis Vesturlanda  til staðar til að stilla sér upp á mynd.

Og mér fannst líka gott að heyra af grasrótarfundinum í Iðnó á laugardag. Þar mun hafa farið fram góð umræða og góðviljuð. Enginn að pirrast út í allt það fólk sem ekki kom - en margir að gleðjast yfir þeim sem komu og lögðu gott til málanna.

Sjá m.a.: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/17/komin_med_nog_af_fordomum/