Fara í efni

EFTIRMINNILEGUR MAÐUR

Páll Guðmundsson 4
Páll Guðmundsson 4
Í gær fór fram útför Páls Guðmundssonar, kennara og skólastjóra með meiru. Reyndar miklu meiru.

Þannig kynntist ég Páli í hinu mikla verkfalli BSRB árið 1984 þar sem hann stýrði aðgerðum. Páll hafði einnig verið í verkfallstjórn í kjaradeilu opinberra starfsmanna árið 1977 en þá var ég ekki til staðar og beið það haustsins 1984 að leiðir okkar lægju saman.

Aðgerðum í verkfallinu, sem stóð í næstum heilan mánuð, var stýrt úr höfuðstöðvum BSRB en í nábýli við aðgerðastjórnina var síðan hin fámenna ritstjórn BSRB tíðinda,  ritstjórinn Helgi Már Arthúrsson og ritstjórnarfulltrúinn, sem var undirritaður.

BSRB tíðindi voru gefin út dag hvern á meðan verkfallið varði og borið í hvert hús enda póstmenn í BSRB og vildu leggja sitt af mörkum í sameiginlegum slag.

Ekki verður sagt að ritstjórn BSRB tíðinda hafi verið sérlega undanlátssöm þessa októberdaga. Þvert á móti vildi hún að gengið yrði fram af sem mestri hörku.

Ekki brást okkar góði  foringi, Páll Guðmundsson, í því efni. það gerði hann þó jafnan af sanngirni og ruglaði aldrei saman staðfestu annars vegar og óbilgirni hins vegar. Jafnan sýndi hann andstæðingum sínum virðingu, kom fram af kurteisi og yfirvegun, svo mikilli að hann ávann sér traust og virðingu allra.
Þetta er ekki öllum gefið. En fyrir bragðið verður hann þeim sem honum kynntust sérstaklega eftirminnilegur.

Mér þótti slæmt að geta ekki verið við útför Páls Guðmundssonar. Þess vegna þessar línur til að minnast hans og þakka fyrir minninguna sem hann skilur eftir.