Fara í efni

EVA JOLY HELDUR OKKUR VIÐ EFNIÐ

Eva Joly - Paris
Eva Joly - Paris

Aðkoma Evu Joly að rannsókn hrunmála á fyrri hluta árs 2009 skipti sköpum. Fyrir hennar orð var embætti Sérstaks saksóknara gert að því sem það varð. Hún gerði íslenskum stjórnvöldum grein fyrir því sem gera þurfti og árangurinn er sá að áralangar rannsóknir er nú verið að leiða til lykta fyrir dómstólum. 

Enn er fjöldi mála ófrágenginn en umhugsunarvert er að þegar fór að hilla undir málaferli vegna hvítflibbaglæpa fóru að heyrast raddir um að nú væri nóg komið. Orðum fylgdu athafnir sem birtust okkur í niðurskurði á fjárlögum til embættis sérstaks saksóknara.

Kastljós Sjónvarps á lof skilið fyrir að birta ítarlegt viðtal við Evu Joly þar sem hún leggur mat á stöðu mála og minnir á að Ísland skeri sig að því leyti úr að hér á landi sé spurt fyrir dómstólum um persónulega ábyrgð á misnotkun fjármálakerfisins - í stað þess að láta duga að sekta fjármálastofnarnirnar sem slíkar. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá Evu Joly. Á bak við gjörðirnar eru einstaklingar sem taka ákvarðanir og eiga að sjálfsögðu að bera ábyrgð á þeim.

Í stað þess að skera niður við embætti Sérstaks saksóknara ber ríkisstjórninni að endurmeta fjárþörf embættisins þannig að það geti lokið ætlunarverki sínu.

Aðkoma Evu Joly að skattaundanskotsmálum - milliganga hennar -  er þakkarverð og við eigum að taka mjög alvarlega áskoranir hennar um að fara rækilega í saumana á hugsanlegum skattsvikum fjölþjóðlegra fyrirtækja sem starfa hér á landi.

Í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali hreyfði Eva Joly mikilvægum málum. Það er okkar að leiða þau til lykta.