FJALLAÐ AF ÞEKKINGU UM RÍKISVALD OG ÞEKKINGU

Í gær sótti ég athyglisverðan og vekjandi fyrirlestur
Sveins Mána Jóhannessonar, sagnfræðings, um
ríki og þekkingu í Bandaríkjunum á 19. öld.
Sveinn Máni leggur stund á sagnfræðirannsóknir í Cambridge í
Englandi.og fjallar doktorsritgerð hans um þetta efni.
Sagnfræðingafélag Íslands stóð fyrir þessum fyrirlestri sem var
fjölsóttur.
Ég ætla ekki að rekja efnistök Sveins Mána í neinum smáatriðum en á þessari slóð er að finna örstutta samantekt:
http://www.sagnfraedingafelag.net/2015/02/17/09.19.33/.Ástæðan fyrir því að mér þótti fyrirlesturinn athyglisverður og
vekjandi var sú, að þar var dregin upp mjög skýr mynd af
þróun hins evrópska ríkis annars vegar, sem byggði á sterku
ríkisvaldi og vilja til að styrkja það og hins vegar af þróun
"landnemaríkisins" sem byggði á efasemdum og jafnvel andúð á
sterku miðstjórnarvaldi en jafnframt viljanum til að nema lönd í
eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þar gegndi þekkingaröflun og
þekkingarleit lykilhlutverki, hvort sem var á eigin landi eða
heiminum almennt.
Þessi ólíka nálgun skýrir síðan að einhverju leyti þann veruleika
sem blasir við þegar kemur fram á 20. öldina og jafnvel fram á
okkar dag: Annars vegar sterkt utanumhald hins opinbera valds í
Evrópu um nánast alla grunnþjónustu samfélagsins - nokkuð sem hefur
þó verið að draga úr á allra síðustu áratugum og hins vegar beiting
ríkisvaldsins vestan hafs í því augnamiði að færa út hin eiginlegu
og óeiginlegu landamæri.
Í rauninni er það mjög merkilegt að í Bandaríkjunum, landi
einkaeignarréttarins, hefur fram á þennan dag verið ríkjandi það
viðhorf að aðgangur að rannsóknum og þekkingu eigi að vera frjáls
og óhindraður. Í þessu hefur reynst vera fólginn gríðarlegur
jákvæður sprengikraftur.
Það var fróðlegt að slást í för með Sveini Mána gaumgæfa rætur
þessarar hugsunar.