GRIKKIR, PENINGAR OG PÓLITÍK

Grikkland 2015
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni í Grikkandi og samskiptum Grikkja við umheiminn. Grikkir eru skuldum vafnir og er verkefni nýkjörinnar vinstri stjórnar að leggja línurnar um hvernig þeir geti unnið sig út úr þeim vanda.
Evrópusambandið hefur pólitískt líf hinnar nýju stjórnar í hendi sér því á þeim bænum er tekin ákvörðun um framlengingu lána gríska ríkisins og þar með hversu lengi Grikkir fá svigrúm til að draga andann og ná vopnum sínum.

Umbætur?

Á fundi fjármálaráðherra ESB var í gær tekin ákvörðun um að gefa Grikkjum enn fjóra mánuði. Í fréttum RÚV segir að samkomulagið velti  "á því að Grikkir beri lista með fyrirhuguðum efnahagsumbótum undir hin evruríkin á mánudaginn. Líti þau svo á að umbæturnar séu ekki nógu róttækar gæti samkomulaginu verið rift ..."
Við vitum hvað "umbætur" þýða samkvæmt þessu tungutaki og hvers konar "róttækni" krafist er. Umbætur eru breytingar í þágu fjármagns en á kostnað almennings og því lengra sem gengið er í þessa átt, þeim mun róttækari eru tillögurnar sagðar vera.

Valdaöflin í ESB á mótdræg

Við skulum ekki gleyma hver pólitískur litur er á valdaöflum ESB. Merkel hin þýska  er sama Merkel og orðaði þá snjöllu hugmynd á sínum tíma að Grikkir seldu eyjarnar sínar til að grynnka á skuldum - af sama toga og það væri að ráðleggja okkur að selja Gullfoss  - og Cameron hinn breski hefur litla samúð með vinstrisinnuðum félagshyggjuöflum. Hollande hinn franski virðist aðallega vera áhugamaður um Hollande hinn franska.

Hvernig skuli takast á við kreppu

Verkefnið hjá þessum aðilum verður nú að grafa undan grísku félagshyggjustjórninni, neyða hana til að gefa loforð sín og áform upp á bátinn þannig að enginn fái þá grillu í höfuðið að mannréttindi en ekki einka-eignarréttindi geti orðið vegvísir út úr kreppum kapítalismans - kerfis misskiptingar og sérhyggju.

Fróðleg grein í Guradian um hinn nýja gríska fjármálaráðherra, Yanis Varoufakis um pólitíska þroskasögu hans :   http://www.theguardian.com/news/2015/feb/18/yanis-varoufakis-how-i-became-an-erratic-marxist  
 

  

Fréttabréf