AGS ENDURTEKUR SIG ENN OG AFTUR ... OG AFTUR ...

IMF 2

Í fréttum í dag er því slegið upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé ánægður með Ísland og íslenskt efnahagslíf. Það sé jafnvel að verða  betra en fyrir hrun! Að vísu séu nokkrir skafankar sem þurfi að laga, leysa þurfi vanda Íbúðalánasjóðs til að draga úr kostnaði ríkissjóðs. Þetta höfðu fréttastofur eftir fulltrúum AGS í kvöld.

Þetta hljómar allt kunnuglega. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta fulltrúa AGS fyrir hrun þegar þeir voru hér á hefðbundinni yfirreið. Það var ekki samkvæmt þeirra ósk heldur minni. Ég vildi gjarnan hitta þessa fulltrúa alþjóðalögreglu kapítalismans fyrir hönd heildarsamtaka opinberra starfsmanna, BSRB, en þar á bæ væru áhyggjur yfir því hvert stefndi með einkavæðingu, útþenslu fjármálakerfisins og almennu hömluleysi peningafólks. Með öðrum orðum áhyggjurnar voru svipaðar og ástæða er til að hafa nú með ofurgróða bankanna, innleiðingu stórbónusa og bægslagangi fjármálamanna.

En viti menn, AGS fulltrúarnir voru yfir sig hrifnir og ánægðir og sögðust ekki sjá betur en Ísland væri eins heilbrigt og heilbrigt mætti verða fyrir utan nokkra skafanka. Það þyrfti  t.d.  að leysa vanda Íbúðalánasjóðs, hann ætti eftir að markaðsvæða og fela bönkunum - þeim sömu og áttu eftir að fara á hausinn.

Skilaboðin voru með öðrum orðum þau sömu og nú. Allt í himnalagi nema að enn væri að finna félagslegan þráð í húsnæðiskerfinu. Það væri ámælisvert.

AGS hefur í reynd aldrei hætt að vera okkar vegvísir. Nú er spurningin, verður svo enn? Eða gæti verið að við færum að læra af reynslunni?
Sjá: http://ogmundur.is/annad/nr/7306/

Fréttabréf